Viðskiptaráð Íslands

Öll púslin skipta máli

Tilnefningarnefndir og góðir stjórnarhættir hafa verið í sviðsljósinu undanfarin misseri. Hvers vegna ætli það sé?Skýringarnar eru vafalaust margar en meðal þeirra gæti verið frétt frá síðasta vori, þar sem sagt var frá bréfaskriftum bandaríska eignastýringafyrirtækisins Eaton Vance til stjórna þeirra skráðu félaga þar sem sjóðurinn var hluthafi. Í ljósi þessa mikla áhuga blása útgefendur leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja til morgunverðarfundar um tilnefningarnefndir á Grand Hótel í fyrramálið.

En hvað gera þessar tilnefningarnefndir? Þær eru ekki hluti af árlegri veitingu Óskarsverðlaunanna eins og álykta mætti af nafninu í fyrstu heldur gagnlegt verkfæri hluthafa til að stuðla að góðum stjórnarháttum. Hlutverk tilnefningarnefnda er í sem stystu máli að meta heildstætt og tilnefna einstaklinga sem mynda heildstæðan og fjölhæfan hóp til stjórnarsetu í aðdraganda aðal- eða hluthafafundar.

Í áðurnefndri frétt segir meðal annars: „Fram kemur í bréfinu […] að góðir stjórnarhættir leiði til aukins virðis fyrir hluthafa til lengri tíma litið. Eitt mikilvægasta atriðið til að tryggja góða stjórnarhætti sé að skipa tilnefningarnefnd. Vakin er athygli á því að 95% af skráðum fyrirtækjum í Svíþjóð hafi yfir að ráða slíkum nefndum.“

Í störfum sínum skal tilnefningarnefnd vinna að hagsmunum allra hluthafa og gæta þess að einstaklingar sem tilnefndir eru búi sem heild yfir nægilegri þekkingu og reynslu til þess að rækja hlutverk sitt, eins og segir í nýjustu útgáfu Leiðbeininga um stjórnarhætti fyrirtækja, sem Viðskiptaráð Íslands, Nasdaq Ice­land og Samtök atvinnulífsins gefa út. Í inngangi leiðbeininganna er þeim sérstaklega beint að „einingum tengdum almannahagsmunum, en það eru fyrirtæki með verðbréf sín skráð á skipulegum verðbréfamarkaði, lífeyrissjóðir, lánastofnanir og vátryggingafélög.“

Tilnefningarnefndir komu fyrst fram í leiðbeiningum um góða stjórnarhætti árið 2009. Þrátt fyrir það voru lengst af einungis tvær tilnefningarnefndir starfandi í skráðum félögum. Sýn, áður Fjarskipti, setti á fót tilnefningarnefnd haustið 2014 og Skeljungur árið 2016.

Og stjórnarsætið hlýtur…
Undanfarin misseri hafa tveir fagfjárfestar öðrum fremur kallað eftir tilnefningarnefndum í skráðum félögum: Eaton Vance og Lífeyrissjóðurinn Gildi. Töluvert hefur dregið til tíðinda fyrir áhugafólk um stjórnarhætti fyrirtækja í þessum efnum því í hóp Sýnar og Skeljungs hafa bæst Arion banki, Eik, Festi, Hagar, Origo, Reginn, Reitir, Síminn, Sjóvá, TM og VÍS. Í sumar samþykkti svo hluthafafundur HB Granda að fela stjórn að undirbúa að koma á fót tilnefningarnefnd innan félagsins. Af átján félögum á aðallista Kauphallarinnar eru því fjórtán ýmist með tilnefningarnefnd starfandi, í burðarliðnum eða með í skoðun að koma upp slíkri nefnd. Þessari miklu aukningu á þessum skamma tíma ber að fagna.

Bæði verkfæri og markmið
Sú staðreynd að bæði innlendir lífeyrissjóðir og erlendur eignastýringasjóður leggja kapp á að íslensk fyrirtæki komi á fót tilnefningarnefndum segir ákveðna sögu. Í áðurnefndri frétt teflir Eaton Vance þannig fram því einfalda sjónarmiði að góðir stjórnarhættir og tilvist tilnefningarnefnda innan fyrirtækja leiði til aukins virðis fyrirtækja til lengri tíma. Sjónarmiðið er því ekki eingöngu að góðir stjórnarhættir séu eftirsóknarverðir sem sjálfstætt markmið heldur leiði góðir stjórnarhættir til aukins virðis fyrir hluthafa, og að einn hornsteina góðra stjórnarhátta sé einmitt tilnefningarnefndir. Þetta ætti að vera hluthöfum hvatning til að í það minnsta skoða gaumgæfilega að koma á fót tilnefningarnefndum í sínum félögum til að tryggja fjölbreytni og fjölhæfni í stjórnum. Því þótt allir sem hafa lagst yfir púsluspil byrji á að finna hornpúslin væri útkoman heldur hrörleg, eða myndin sem birtist mjög smá, ef öll púslin væru hornpúsl. Sömu sögu má segja af stjórnum fyrirtækja. Séu stjórnarmenn of einsleitir, jafnvel þótt hver og einn þeirra sé mjög hæfur, kann það að draga úr styrk stjórna því styrkur stjórna felst öðru fremur í þeirri heild sem stjórnarmennirnir mynda.

Gunnar Dofri Ólafsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs Íslands

Greinin birtist fyrst í Markaðnum, fylgiriti Fréttablaðsins, 9. janúar 2019

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024