Viðskiptaráð Íslands

Opinber þynnka

Er opinber þynnka eitthvað skárri en einkarekin?

Á Íslandi get ég keypt mér áfengi á veitingastöðum, kaffihúsum og ferjum, í veislusölum, hótelum og meira að segja í bakaríi, þar sem ég gæti fengið mér bjór með kleinuhringnum ef ég hefði ekki fengið bragðskynið aftur eftir skammvinnt tap í covid. Fyrir utan verslanir ÁTVR má nálgast áfengi löglega á yfir þúsund stöðum á Íslandi. Ég má panta mér áfengi frá útlöndum en það hefur verið umdeilt hvort slíkt megi hérlendis.

Slíkar netverslanir eru samt til hér á landi og sagðar voru fréttir af því í fyrravor að ÁTVR hygðist leggja fram lögbannskröfu hjá sýslumanni og kæru til lögreglu. Það virðist hafa runnið út í sandinn, en í haust fór einokunarverslunin í einkamál við netverslanirnar, þar sem þess var meðal annars krafist að látið yrði af „þátttöku í smásölu í vefverslun“ – og auðvitað bóta fyrir meint tjón ÁTVR.

Þetta mál er svo asnalegt að það er varla hægt að færa það í orð og sem betur fer var því vísað frá í síðustu viku. ÁTVR er að lögum falið að selja áfengi og tóbak á Íslandi. Það er eina hlutverk stofnunarinnar. Hún hefur ekkert vald eða eftirlitshlutverk og það er skrýtið ef þessi málarekstur hennar verður án afleiðinga, ekki síst þar sem fjármálaráðuneytið, sem ÁTVR heyrir undir, virðist hafa hafnað að grípa til aðgerða og ætlar sér ekki að halda áfram með málið.

Tilgangur áfengislaganna er að vinna gegn misnotkun áfengis. Því hefur verið framfylgt síðustu ár með fjölgun vínbúða ríkisins og rýmri afgreiðslutíma og nýlega lagði Framsóknarflokkurinn til að ríkið yrði opið á sunnudögum. Það er því einhver furðulegur tvískinnungur í þessu kerfi, eins og opinber þynnka sé eitthvað skárri en einkarekin. Ég held ekki.

Svanhildur Hólm Valsdóttir, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands.

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu 24. mars 2022.

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024