Viðskiptaráð Íslands

Talsmenn tolla gefa engan afslátt

Við hjá Viðskiptaráði birtum á dögunum úttekt á áhrifum tolla á matvöruverð. Þar kemur fram að verð á sumum matvörum myndi lækka um allt að 43% ef tollar væru afnumdir. Tollar eru enda í eðli sínu ofurskattar á mat. Þeir valda því til dæmis að 90% skattur er lagður á innfluttan rjómaost og 105% skattur á innfluttar kjúklingabringur.

Ragnar Sigurður Kristjánsson, sérfræðingur á hagfræðisviði, hjá Viðskiptaráði Íslands.

Í kjölfar úttektarinnar hafa gagnrýnisraddir komið fram. Sumir segja tilgangslaust að afnema tolla vegna þess að lægri skattar skili sér ekki til neytenda. Aðrir segja afnám skaðlegt fyrir innlendan landbúnað og að hann myndi jafnvel leggjast af. Enn aðrir segja ástæðulaust að afnema tolla á meðan önnur lönd leggi tolla á sínar innflutningsvörur. Vert er að skoða þessa gagnrýni og hvað er til í henni.

Niðurfelling skilar sér til neytenda

Á samfélagsmiðlum fullyrtu nokkrir eftir úttekt okkar að tollaniðurfelling myndi ekki skila sér til neytenda, færi heldur beint í vasa kaupmanna. Það rímar hins vegar ekki við reynslu af afnámi tolla í öðrum vöruflokkum. Árið 2015 voru tollar og vörugjöld felld niður af öllum vörum nema matvörum. Hagfræðistofnun rannsakaði áhrif niðurfellingarinnar á verð og álagningu á átta vörum sem breytingin náði til. Smásöluverð lækkaði á öllum átta vörunum og í skýrslu Hagfræðistofnunar segir: „Svo virðist sem lækkun gjalda hafi að mestu skilað sér í vasa neytenda“. Sú ályktun að niðurfelling tolla skili sér ekki til neytenda er því ekki á rökum reist.

Neytendur velja íslenskt

Aðrir fullyrða um neikvæð áhrif niðurfellingar tolla á íslenskan landbúnað. Sigurður Ingi Jóhannsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hélt því t.d. fram í samtali við Morgunblaðið þann 13. ágúst síðastliðinn að afnám tolla myndi „rústa íslenskum landbúnaði og lifibrauði þeirra þúsunda manna sem hafa atvinnu sína af honum.“ Í þessum orðum birtist heldur svört sýn á samkeppnisstöðu íslensks landbúnaðar og getu hans til að keppa við innflutt matvæli.

Íslenskur landbúnaður framleiðir hágæðavöru sem vel stenst samanburð við innflutt matvæli, enda gæði afurða og aðbúnaður dýra í fremsta flokki á heimsvísu. Auk þess greiða neytendur um allan heim meira fyrir landbúnaðarafurðir úr nærumhverfi sínu. Það er því engin þörf á dómsdagsspám, neytendur munu áfram velja íslenskar landbúnaðarafurðir að stærstum hluta, jafnvel þótt þeim standi til boða fjölbreyttara vöruúrval.

Reynslan sýnir okkur þetta líka. Árið 2002 voru tollar felldir niður af agúrkum, paprikum og tómötum. Rannsókn frá árinu 2011 sýndi að samhliða verðlækkun um allt að 45% hélt agúrkurækt óbreyttri markaðshlutdeild, þrátt fyrir lækkun í upphafi, og framleiðsla á kirsuberjatómötum nífaldaðist. Nýsköpun, fjölbreytni og jarðrækt í greininni jókst og neytendur velja áfram íslenskt, á lægra verði en áður.

Horfum til frænda okkar í Færeyjum

Loks hefur verið nefnt að Ísland sé ekki eitt um að leggja tolla á innflutt matvæli, önnur ríki gangi jafnvel lengra í þeim efnum. Það er rétt, en eru þó ekki rök fyrir því að Ísland haldi áfram að skattleggja matvöru óhóflega með tollum. Hér sannast að ekki er eitt böl með öðru bætt.

Erna Bjarnadóttir, verkefnastjóri hjá Mjólkursamsölunni, fullyrti t.d. í samtali í Reykjavík Síðdegis á Bylgjunni að tollvernd væri víðtækari innan Evrópusambandsins en hér á landi. Í samhengi við þetta er vert að benda á að innri markaður ESB, sem er tollfrjáls, er rúmlega þúsund sinnum fjölmennari en sá íslenski. Eðli málsins samkvæmt er meira vöruúrval innan 450 milljón manna markaðar, en á markaði sem telur tæplega 400 þúsund manns.

Nær væri að líta til frænda okkar í Færeyjum, þar sem heimamarkaður þeirra líkist frekar okkar hvað varðar stærð og samsetningu. Færeyingar leggja enga tolla á vörur sem koma frá Evrópusambandinu, sem er stærsti útflytjandi á vörum til Færeyja, að lambakjöti og ferskum mjólkurvörum frátöldum. Umfang tollverndar Færeyinga í viðskiptum við sínar nágrannaþjóðir er því umtalsvert minna en á Íslandi, til hagsbóta fyrir færeyska neytendur.

Niðurfelling tolla skilar lægra vöruverði og auknu vöruúrvali

Afnám tolla á matvörur myndi lækka vöruverð á fjölda vörutegunda í matvöruverslunum landsins. Afnám myndi auk þess vinna gegn þrálátri verðbólgu sem hefur rýrt lífskjör allra undanfarin ár. Loks myndi afnám þýða endalok ofurskattlagningar, sem myndi leiða til meira valfrelsis og vöruúrvals. Hér er því til mikils að vinna.

Höfundur starfar sem sérfræðingur á hagfræðisviði hjá Viðskiptaráði

Tengt efni

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024

Eftirlitsmisskilningur Þórunnar

Viðskiptaráð leggur fram tíu tillögur sem lækka kostnað vegna eftirlits án þess …
31. ágúst 2024