Fyrr á þessu ári fagnaði Íslandspóstur stórafmæli en þá voru tíu ár liðin frá því fyrirtækið tók til starfa sem sjálfstætt hlutafélag í eigu ríkisins. Á þeim tíma sem liðinn er frá stofnun fyrirtækisins hefur félagið endurskilgreint hlutverk sitt og starfsemi á ýmsan máta. Verulega hefur dregið úr vægi almannaþjónustunnar og fyrirtækið hefur sótt inn á nýja markaði. Grunnur þessarar stefnu hefur ekki verið mótaður af stjórnendum fyrirtækisins enda gefa samþykktir þess fullt svigrúm til útvíkkunar á starfseminni.
Í síðasta ársreikningi Íslandspósts voru kynntar áætlanir um byggingu nýrra pósthúsa sem eru sérhönnuð með þarfir flutningafyrirtækis í huga, en þeim er ætlað að auka möguleika fyrirtækisins umtalsvert til sóknar á flutningamarkaði og öðrum tengdum mörkuðum. Árið 2006 festi Íslandspóstur kaup á prentfyrirtækinu Samskipti auk þess sem keyptur var tuttugu prósenta hlutur í hugbúnaðarfyrirtækinu Modernus. Samkvæmt ársreikningi voru þessi kaup liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að eflast og vaxa og bjóða viðskiptavinum sínum fjölbreyttari lausnir. Í báðum tilfellum er opinbert hlutafélag að færa sig inn á markað þar sem þegar ríkir hörð samkeppni á meðal einkaaðila.
Af þessum sökum hafa spurningar vaknað um framtíðarstefnu stjórnvalda varðandi Íslandspóst. Þar skiptir mestu hvort ætlunin sé að reka það áfram sem opinbert hlutafélag og sækja inn á enn fleiri svið þar sem þegar ríkir samkeppni meðal einkaaðila eða hvort ætlunin sé að undirbúa fyrirtækið undir einkavæðingu og stefnt sé á sölu þess í náinni framtíð. Af mögulegum leiðum væri hin síðarnefnda mun skynsamlegri kostur.
Skoðunina í heild sinni má nálgast hér