Á Drekasvæðinu hefur fundist virkt kolvetniskerfi sem gæti innihaldið olíu í vinnanlegu magni. Íslensk stjórnvöld hafa ekki boðið út sérleyfi til olíurannsókna og -vinnslu frá 2012, þrátt fyrir að útboðin gæfu ríkissjóði tekjur óháð olíufundi. Bjóða ætti út sérleyfi að nýju, enda gæti olíufundur haft ævintýralegan ávinning í för með sér fyrir íbúa landsins.
Á hafsbotni yst í norðausturhluta efnahagslögsögu Íslands hefur lengi verið von um að finna olíu- og gaslindir. Svæðið sem um ræðir nefnist Drekasvæðið og er 43.000 km2 að stærð. Jarðfræðileg uppbygging svæðisins, sérstaklega þeim hluta þess sem liggur á Jan Mayen-hryggnum, svipar mjög til annarra svæða þar sem þegar hefur fundist olía.[1]
Rannsóknir og olíuleit á svæðinu hafa staðið yfir með hléum allt frá árinu 1985 ýmist á vegum hins opinbera eða leyfishafa. Þær rannsóknir staðfesta að virkt kolvetniskerfi sé að finna á svæðinu.[2] Þó hefur ekkert gerst í olíuleit á Íslandi frá því tilkynnt var í stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar árið 2021 að ekki stæði til að bjóða út sérleyfi vegna olíuleitar og vinnslu á svæðinu á ný.[3]
Skatttekjur gætu numið 51 til 102 m. kr. á mann
Olíuleit á Drekasvæðinu gæti skilað gífurlegum verðmætum ef olía finnst á svæðinu. Óháð því hvort olía finnst í vinnanlegu magni skilar leitin tekjum fyrir ríkissjóð í formi leyfisgjalda sérleyfishafa (mynd 1). Sviðsmyndum olíuleitar sem byggja á fyrri rannsóknum um svæðið má skipta upp eftir því hvort leitin beri árangur eða ekki:
Olía finnst í vinnanlegu magni: Rannsóknir benda til þess að á bilinu 6 til 12 ma. olíutunna sé að finna á svæðinu.[4] Það þýðir að verðmæti olíulindanna sé á bilinu 50 þús. ma. kr. til 100 þús. ma. kr. Skatttekjur af olíulindunum yrðu á bilinu 51 til 102 m. kr. á hvern íslenskan ríkisborgara.[5],[6] Sú fjárhæð er ríflega 10 til 20-falt hærri en heildartekjur ríkisins á hvern ríkisborgara árið 2025.[7]
Enginn olíufundur: Jafnvel þótt engin olía finnist á svæðinu hefði það jákvæð áhrif á ríkissjóð í formi leyfisgjalda af sérleyfunum ásamt öðrum gjöldum sem innheimtast á meðan rannsóknir stæðu yfir. Tekjur ríkissjóðs af leyfisgjöldum og öðrum gjöldum yrði um 1,2 ma. kr.[8]
Tæplega þriðjungur Drekasvæðisins liggur á Jan Mayen-hryggnum (mynd 2). Hluti hryggjarins svipar mjög til uppbyggingar landgrunns Noregs og Grænlands en á báðum svæðunum hefur verið sýnt fram á að olía hafi myndast og á landgrunni Noregs er þegar mikil olíuvinnsla.
Á hluta Drekasvæðisins gildir samningur um gagnkvæman nýtingarrétt milli Íslands og Noregs á auðlindum á hluta svæðisins. Í samningnum er m.a. kveðið á um rétt Noregs til 25% hlutdeildar í olíuvinnslu innan íslensku efnahagslögsögunnar og gagnkvæman rétt Íslands innan norsku lögsögunnar. Samningurinn var gerður vegna deilna um hvar skiptilínan milli efnahagslögsögu Íslands og Noregs ætti að liggja, en væntingar um að olíuauðlindir væri að finna á svæðinu áttu þátt í því að samningur var gerður á sínum tíma.[9]
Miklar rannsóknir hafa þegar farið fram á svæðinu
Skipta má tímabili olíuleitar á Drekasvæðinu í þrennt; 1) undirbúning, 2) útgáfu leyfa og leit hefst og 3) olíuleit hætt (mynd 3). Undirbúningurinn sneri að gerð samningsins og forrannsóknum. Útgáfa leyfa hófst með útgáfu olíuleitarleyfis og lauk með útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu. Því tímabili lauk 2018 þegar síðasta sérleyfinu var skilað inn og lítið hefur gerst síðan þá.
Sameiginlegar forrannsóknir Íslendinga og Norðmanna hófust á svæðinu 1985 í kjölfar fyrrgreinds samkomulags. Rannsóknirnar stóðu yfir til 1992 en þar var m.a. safnað 5.150 km af hljóðendurkastsmælingum af botni sjávar.
Fyrsta útboð sérleyfa mistókst vegna ytri aðstæðna
Í júlí 2001 hlaut olíuleitarfyrirtækið InSeis olíuleitarleyfi á svæðinu til þriggja ára og hélt áfram að safna gögnum með hljóðendurkastsmælingum. Norska ráðgjafarfyrirtækið Sagex vann skýrslu upp úr gögnum InSeis sem sýndi áhugaverðar jarðlagamyndanir á 3.600 km2 svæði á norðurhluta Drekasvæðisins.[10]
Árið 2006 hófst undirbúningur að útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu og gasi á Drekasvæðinu.[11] Fyrstu útboðin fóru fram árið 2009, en sökum sameininga fyrirtækja og erfiðra markaðsaðstæðna, einkum vegna lágs olíuverðs, skorts á fjármagni og óvissu tengdri rannsóknum á þessu nýja svæði, voru báðar umsóknirnar sem bárust dregnar til baka. [12]
Þrjú sérleyfi veitt 2012 til rannsókna og vinnslu
Olíuleit hófst formlega árið 2012 á Drekasvæðinu með nýju útboði stjórnvalda á sérleyfum. Allar þrjár umsóknirnar sem bárust hlutu samþykki frá Orkustofnun. Fyrir leyfunum fóru í fyrsta lagi kínverska ríkisolíufélagið CNOOC ásamt Eykon Energy, í öðru lagi kanadíska félagið Ithaca Petroleum ásamt Kolvetni og í þriðja lagi færeyska félagið Faroe Petroleum ásamt Íslenskum kolvetnum. Norska félagið Petoro átti fjórðungshlut í öllum leyfunum þremur, í samræmi við áðurnefndan samning um gagnkvæman nýtingarrétt.[13]
Í lok árs 2014 skiluðu Faroe Petroleum og þeirra samstarfsaðilar inn sínum leyfum, þar sem frumrannsóknir bentu til þess að frekari rannsóknir á svæðinu yrðu erfiðar sökum basaltlaga á leitarsvæðinu.[14] Tveimur árum síðar gáfu Ithaca Petroleum, ásamt sínum samstarfsaðilum, leyfi sitt eftir, þar sem að rannsóknir á nýjum endurkastsgögnum bentu til þess að móðurberg kolvetna væri að finna í dýpri jarðlögum en fyrstu vísbendingar gáfu til kynna.[15]
Sérleyfum skilað inn og stjórnvöld segja stopp
Í janúar 2018 skiluðu CNOOC og Petoro inn sérleyfinu. Ástæður sem félögin tvö gáfu voru m.a. fyrirliggjandi gögn um jarðfræði svæðisins og þættir er varða rannsóknarkostnað að teknu tilliti til áhættu. Þar með lauk olíuleitinni á Drekasvæðinu, sem staðið hafði yfir í um fimm ár.[16]
Árið 2021 var svo sett í stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar að ekki yrðu gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Skömmu eftir að stjórnarsáttmálinn hafði verið birtur hætti Eykon Energy starfsemi sinni, þar sem menn töldu engar líkur á að olíuleit færi af stað að nýju.[17] Síðan þá hafa sérleyfi ekki verið boðin út, né tilkynnt áform um að slík útboð séu væntanleg.
Ávinningur af olíuleit fram að þessu talsverður
Ávinningur af útboðum sérleyfa var margvíslegur þrátt fyrir að sérleyfishafarnir hafi ekki fundið olíu í vinnanlegu magni (mynd 4). Útgáfan var sérlega ábatasöm fyrir ríkið þar sem sérleyfishafarnir greiddu 500 m.kr. í sérleyfisgjöld á tímabilinu, auk þess að gögnin sem aflað var við leitina eru í eigu stjórnvalda.
Alls söfnuðust um 3.700 km af hljóðendurkastsmælingum af hafsbotninum á leitarsvæðum sérleyfishafanna sem íslensk stjórnvöld geta nýtt sér til greininga á hafsbotninum. Jafnframt var gerð og saga hafsbotnsins skoðuð ítarlega, sem hefur aukið þekkingu á því sviði.
Íslensk olía yrði ein sú umhverfisvænasta í heiminum
Áætla má að olíuframleiðsla á Drekasvæðinu yrði ein sú umhverfisvænasta í heiminum m.t.t. losunar CO2 (mynd 5). Á heimsvísu er losun CO2 vegna olíuvinnslu afar misjöfn eftir aðstæðum og vinnsluaðferðum. Þar sem losunin er minnst, í Noregi, er hún um fimmfalt lægri en þar sem hún er mest, í Venesúela.[18]
Matið fyrir Ísland byggir á því að olíuvinnsla yrði að mestu með sambærilegum hætti og í Noregi, sérstaklega varðandi meðhöndlun á gasi, sem gjarnan er hliðarafurð olíuvinnslu. Í Noregi er brennsla á gasi (e. gas flaring) bönnuð en sá áhrifaþáttur er einn sá stærsti í losun olíuframleiðslu.[19] Þá verður að teljast ólíklegt að olíuborpallar yrðu rafvæddir á Drekasvæðinu líkt og tíðkast í Noregi sem veldur því að losun CO2 er áætluð hærri á Íslandi en í Noregi.
Jafnframt má áætla að losun vegna olíunotkunar Íslands myndi lækka verulega ef innfluttri olíu yrði skipt út fyrir þá sem kemur frá Drekasvæðinu. Um 60% af innfluttri olíu landsins kemur frá ríkjum sem hafa meiri losun en vænt losun af olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þannig myndi losun minnka, bæði vegna umhverfisvænni vinnslu og minni losunar við flutning olíunnar til landsins. [20]
Olíuvinnsla gæti hafist innan tveggja áratuga
Miðað við forsendur fyrri sérleyfa má áætla að hægt væri að hefja olíuvinnslu eftir 16 til 18 ár frá því að rannsóknir hefjast að nýju, að því gefnu að olía finnist á svæðinu (mynd 6). Í leyfisbréfum CNOOC og Ithaca var skilgreind rannsóknaráætlun sem leyfishafarnir þurftu að ljúka áður en vinnsla olíu á svæðinu gæti hafist. Í fyrsta fasa var leyfishöfum skylt að safna ákveðnu magni af tvívíðum endurkastmælingum og tryggja bestu úrvinnslu þeirra gagna. Báðir leyfishafar höfðu safnað þeim gögnum og greint með fyrrgreindum niðurstöðum.
Næsti fasi var svo að safna þrívíðum endurkastsmælingum og að honum loknum gátu aðilar hafist handa við að bora rannsóknarborholur. Orkustofnun gaf leyfishöfum þrjú til fjögur ár í hvern rannsóknarfasa, svo ljóst er að sex til átta ár voru eftir af rannsóknum, áður en hægt væri að staðfesta olíufund.[21] Af reynslunni að dæma má áætla að það tæki um tíu ár að hefja olíuvinnslu eftir að olíufundur væri staðfestur.[22]
Gefa ætti út sérleyfi að nýju
Viðskiptaráð telur að ofangreindu virtu að stjórnvöld ættu að bjóða út á ný sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetna á Drekasvæðinu. Útboð leyfanna mun skila tekjum í ríkissjóð, óháð því hvort að olía finnist í vinnanlegu magni. Rannsóknir á svæðinu munu sömuleiðis skila gögnum til ríkisins sem annars yrði ekki aflað og nýta mætti í rannsóknir á svæðinu til framtíðar.
Ef olía finnst í vinnanlegu magni á Drekasvæðinu myndi það hafa gríðarlega jákvæð áhrif á efnahag Íslands. Verðmæti olíulindanna gæti verið á bilinu 50 til 100 þús. ma. kr., en um helmingurinn af ávinningnum af olíuvinnslunni rynni til ríkissjóðs í formi skatttekna. Útboð sérleyfanna gætu þannig haft í för með sér gríðarleg tækifæri fyrir íslenskt samfélag, án nokkurrar áhættu fyrir ríkissjóð.
1 Iðnaðarráðuneytið (2007). „Olíuleit á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg“. Slóð: https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6433/Skyrsla_nytt.pdf?sequence=1
2 Orkustofnun (2013). „Ársskýrsla 2012“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur
3 Stjórnarráð Íslands (2021). „Sáttmáli um ríkisstjórnarsamstarf Framsóknarflokks, Sjálfstæðisflokks og Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs“. Slóð: https://www.stjornarradid.is/rikisstjorn/sogulegt-efni/um-rikisstjorn/2021/11/28/Sattmali-um-rikisstjornarsamstarf/
4 Mat Viðskiptaráðs að rannsóknargögnum og viðtölum. Sjá einnig eldri umfjallanir, t.d. Visir.is (2013). „Telja Drekann geyma sex milljarða olíufata“. Slóð: https://www.visir.is/g/2013130909487/telja-drekann-geyma-sex-milljarda-oliufata
5 M.v. núverandi löggjöf um skattlagningu á kolvetnisvinnslu. Slóð: https://www.althingi.is/lagas/nuna/2011109.html
6 Forsendur útreikninga á verðmæti olíulinda er verð á olíutunnu sé $68 og vinnslukostnaður $22 á tunnu ($1 = 122,5 ISK). Gert er ráð fyrir að jafnstórt svæði verði boðið út og árið 2012 og tímabil rannsókna og vinnslu sé einnig það sama.
7 Heildartekjur ríkisins eru 4,4 m. kr. á mann m.v. fjárlög ársins 2025. Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/FJR_Fjarlog_2025_sam%c3%beykkt.pdf
8 M.v. að rannsóknir standi yfir í átta ár á jafnstóru svæði og var í höndum leyfishafa í kjölfar útboðsins 2012.
9 Samningur um gagnkvæman nýtingarrétt Íslands og Noregs. Slóð: https://www.stjornarradid.is/media/atvinnuvegaraduneyti-media/media/Rafraen_afgreidsla/Noregur-Island-landgrunn.pdf
10 Iðnaðarráðuneytið (2007). „Olíuleit á Drekasvæði við Jan Mayen-hrygg“. Slóð: https://rafhladan.is/bitstream/handle/10802/6433/Skyrsla_nytt.pdf?sequence=1
11 Visir.is (2018). „Neitar að hætta olíuleitinni og segir málið lykta af pólitík“. Slóð: https://www.visir.is/g/2018376480d
12 Visir.is (2021). „Íslenska olíuleitarfélagið Eykon Energy lagt niður“. Slóð: https://www.visir.is/g/20212193995d/islenska-oliuleitarfelagid-eykon-energy-lagt-nidur
13 Orkustofnun (2007). „Ársskýrsla 2006“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur
14 Orkustofnun (2010). „Ársskýrsla 2009“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur
15 Orkustofnun (2013). „Ársskýrsla 2012“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur
16 Visir.is (2014). „Hætta við olíuleit á Drekasvæðinu“. Slóð: https://www.visir.is/g/2014141219615/haetta-vid-oliuleit-a-drekasvaedinu
17 Orkustofnun (2017). „Ársskýrsla 2016“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur
18 International Energy Agency (2023). „The Oil and Gas Industry in Net Zero Transitions“. Slóð: https://iea.blob.core.windows.net/assets/f065ae5e-94ed-4fcb-8f17-8ceffde8bdd2/TheOilandGasIndustryinNetZeroTransitions.pdf
19 The World Bank (2023). „Norway“. Slóð: https://flaringventingregulations.worldbank.org/norway
20 Hagstofan (2025). „Útflutningur og innflutningur eftir hagrænni flokkun og löndum 2015-2025“. Slóð: https://px.hagstofa.is/pxis/pxweb/is/Efnahagur/Efnahagur__utanrikisverslun__1_voruvidskipti__01_voruskipti/UTA06005.px
21 Mismunandi eftir leyfunum þrem. Leyfi sem Faroe Petroleum fór fyrir sker sig úr að því leyti að þar er kveðið á um að tvívíðar endurkastmælingar fari fram á öðru tímabilinu, en hjá hinum tveim leyfishöfunum var það hluti af fyrsta rannsóknartímabilinu, og ekki er gerð krafa um þrívíðar endurkastmælingar í leyfi Faroe Petroleum.
22 Orkustofnun (2017). „Ársskýrsla 2016“. Slóð: https://orkustofnun.is/upplysingar/arsfundir-og-skyrslur