Rekstrarumhverfi einkarekinna fjölmiðla á Íslandi hefur um árabil einkennst af verulegum skekkjum, þar sem Ríkisútvarpið nýtur bæði opinberra framlaga og tekna af auglýsingasölu. Viðskiptaráð telur að með því að ráðast á þennan kerfislæga vanda megi styrkja stöðu frjálsra fjölmiðla og tryggja heilbrigðari samkeppni á markaði til hagsbóta fyrir almenning.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að koma á framfæri athugasemdum um ofangreint frumvarp. Ráðið skilaði inn umsögn um málið þegar það var lagt fram á 156. þingi og vill ítreka efni hennar.[1] Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að yfir standi vinna við endurskoðun á kafla laganna um stuðning til einkarekinna fjölmiðla. Þá hefur í þingmálaskrá verið boðuð endurskoðun á heimildum Ríkisútvarpsins til birtinga á auglýsingum. Viðskiptaráð hefur áður lýst yfir áhyggjum af minnkandi umsvifum einkarekinna fjölmiðla á Íslandi á sama tíma og vægi hins opinbera á fjölmiðlamarkaði hefur aukist.[2]
Ráðið leggur áherslu á að afnema eigi opinbert styrkjakerfi til fjölmiðla í stað þess að gera frjálsa fjölmiðla að styrkþegum stjórnvalda. Þess í stað ætti Alþingi að lagfæra skekkjur sem veikja stöðu einkarekinna fjölmiðla. Veigamesta skekkjan er Ríkisútvarpið (RÚV), sem nýtur bæði opinberra framlaga og keppir við einkaaðila um sölu auglýsinga. Þetta fyrirkomulag er einsdæmi á Norðurlöndunum og gerir það að verkum að frjálsir fjölmiðlar standa höllum fæti hérlendis.
Lækkun hámarkshlutfalls bitnar á þeim sem veita mesta aðhaldið
Með frumvarpinu er lagt til að hámarkshlutfall fjárveitinga til verkefna lækki úr 25% niður í 22%. Þessi breyting mun bitna á stærri fjölmiðlum, sem helst geta veitt RÚV samkeppni og eru í sterkustu stöðunni til að veita stjórnvöldum aðhald. Starfandi hjá einkareknum fjölmiðlum hefur fækkað verulega á undanförnum árum og þessi breyting á styrkjakerfinu er síst til þess fallin að snúa þeirri þróun við (mynd 1).
Viðskiptaráð telur nauðsynlegt að draga úr umsvifum RÚV á fjölmiðlamarkaði. Hvergi á Norðurlöndunum er markaðshlutdeild ríkismiðilsins jafn mikil og hér á landi, en hlutdeild RÚV í heildartekjum á fjölmiðlamarkaði er 27%, samanborið við 10% að meðaltali Norðurlöndunum. Þá er RÚV eini ríkismiðill Norðurlanda sem þiggur bæði opinber framlög og hefur heimild til auglýsingasölu (mynd 2).
Styrkjum til einkarekinna fjölmiðla var komið á fót til að vega upp á móti þessari skekkju. Árið 2023 námu styrkir til einkarekinna fjölmiðla 470 milljónum króna sem dreifðust á 25 rekstraraðila, en tveir miðlar hlutu hæsta mögulega styrk og fengu 107 milljónir króna hvor í sinn hlut. Á sama tíma hlaut RÚV tólffalt hærra framlag en allir einkareknir fjölmiðlar samanlagt (mynd 3). Þetta sýnir að opinberir styrkir duga skammt til að jafna aðstöðumuninn og ráðast ekki að rót vandans, en eru frekar plástur á vandamál sem stjórnvöld hafa sjálf skapað með veru ríkismiðilsins á fjölmiðlamarkaði og mikilli meðgjöf með miðlinum.
Styrkjakerfið samræmist illa lýðræðissjónarmiðum þar sem frjálsir fjölmiðlar gegna mikilvægu aðhaldshlutverki gagnvart ríkjandi stjórnvöldum. Það að gera þá fjárhagslega háða hinu opinbera veikir þetta hlutverk og dregur þannig úr óhæði þeirra gagnvart ríkjandi stjórnvöldum.
Ráðumst að rót vandans
Viðskiptaráð telur löngu tímabært að ráðast að rót vandans og búa einkareknum fjölmiðlum alþjóðlega samkeppnishæft rekstrarumhverfi. Það mætti m.a. gera með því að taka RÚV af auglýsingamarkaði og jafna stöðu innlendra og erlenda miðla hvað varðar takmarkanir á auglýsingum og kvaðir.
Styrkjakerfið er viðbragð sem um leið viðheldur ósjálfbæru rekstrarumhverfi fyrir einkarekna fjölmiðla án þess að raunverulega takast á við rót vandans. Viðskiptaráð Íslands hvetur því til þess að stjórnvöld horfi til langtímasjónarmiða og leggi áherslu á jafnræði í samkeppni á fjölmiðlamarkaði.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um fjölmiðla (maí 2025): https://vi.is/umsagnir/styrkir-til-einkarekinna-fjolmi%C3%B0la
2 Sjá úttekt Viðskiptaráðs (mars 2025): „Afsakið hlé: umhverfi fjölmiðla á Íslandi”. Slóð: https://vi.is/skodanir/afsakid-hle