Viðskiptaráð styður að á ný verði hafnar markvissar rannsóknir á olíu- og gaslindum á landgrunni Íslands. Ráðið telur að ávinningur þjóðarinnar af slíkum rannsóknum gæti verið verulegur, jafnvel þótt olía finnist ekki í vinnanlegu magni. Þá bendir ráðið á að olíuleit og vinnsla á Drekasvæðinu yrði ein sú umhverfisvænasta í heimi.

Viðskiptaráð hefur tekið umsagnar þingsályktunartillögu um að leit að olíu og gasi, þar sem lagt er til að hafnar verði á ný markvissar rannsóknir á olíu- og/eða gaslindum á landgrunni Íslands og að ríkisolíufélag verði sett á laggirnar. Viðskiptaráð hvetur til þess að þingsályktunartillagan nái fram að ganga, en vill þó leggja áherslu á ákjósanlegast sé að einkaaðilar sinni leit og vinnslu á olíu á landgrunni Íslands og beri þannig áhættuna af þessum rekstri.
Ávinningur af olíuleit gæti verið ævintýralegur
Nýleg úttekt Viðskiptaráðs á ávinningi af olíuleit á Drekasvæðinu sýnir að mögulegar skatttekjur af olíulindum á svæðinu gætu numið 51 til 102 m. kr. á hvern íslenskan ríkisborgara (mynd 1). Óháð því hvort að olía finnst í vinnanlegu magni mun leitin skila ríkissjóði tekjum í formi leyfisgjalda sérleyfishafa.[1]
Rannsóknir á svæðinu benda til þess að á hafsbotni gætu leynst á bilinu 6 til 12 ma. olíutunna. Það þýðir að verðmæti olíulindanna á svæðinu séu á bilinu 50 til 100 þús. ma. kr., en miðað við það yrðu skatttekjur á mann af auðlindinni á bilinu 10 til 20-falt hærri en heildartekjur ríkisins á hvern ríkisborgara árið 2025.
Miklar rannsóknir þegar átt sér stað á svæðinu
Lengi hafa staðið vonir til þess að finna olíu á Drekasvæðinu, en segja má að tímabil olíuleitar hafi hafist í upphafi 9. áratugar síðustu aldar. Skipta má tímabili olíuleitar á Drekasvæðinu í þrennt; 1) undirbúning, 2) útgáfu leyfa og leit hefst og 3) olíuleit hætt (mynd 3). Undirbúningurinn sneri að gerð samningsins og forrannsóknum. Útgáfa leyfa hófst með útgáfu olíuleitarleyfis og lauk með útgáfu sérleyfa til leitar, rannsókna og vinnslu á olíu. Því tímabili lauk 2018 þegar síðasta sérleyfinu var skilað inn og lítið hefur gerst síðan þá (mynd 2).

Árið 2021 var svo sett í stjórnarsáttmála þáverandi ríkisstjórnar að ekki yrðu gefin út leyfi til olíuleitar í efnahagslögsögu Íslands. Skömmu eftir að stjórnarsáttmálinn hafði verið birtur hætti Eykon Energy, eina olíuleitarfélag landsins, starfsemi sinni þar sem menn töldu engar líkur á að olíuleit færi af stað að nýju. Síðan þá hafa sérleyfi ekki verið boðin út, né tilkynnt áform um að slík útboð séu væntanleg.
Ávinningur af olíuleit töluverður, þrátt fyrir að olía hafi ekki fundist.
Þegar horft er til síðasta útboðs og útgáfu sérleyfa er ljóst að ávinningurinnn af henni var margvíslegur þrátt fyrir að ekki hafi fundist olía í vinnanlegu magni. Útgáfan var sérlega ábatasöm fyrir ríkið þar sem sérleyfishafarnir greiddu 500 m.kr. í sérleyfisgjöld á tímabilinu, auk þess að gögnin sem aflað var við leitina eru í eigu stjórnvalda (mynd 3).
Alls söfnuðust um 3.700 km af hljóðendurkastsmælingum af hafsbotninum á leitarsvæðum sérleyfishafanna sem íslensk stjórnvöld geta nýtt sér til greininga á hafsbotninum. Jafnframt var gerð og saga hafsbotnsins skoðuð ítarlega, sem hefur aukið þekkingu á því sviði.

Íslensk olía yrði eins sú umhverfisvænasta í heimi
Áhyggjur hafa verið uppi um væntanleg neikvæð umhverfisáhrif af olíuleit og -vinnslu, en í því samhengi skoðaði Viðskiptaráð umhverfisáhrifin. Áætla má að olíuframleiðsla á Drekasvæðinu yrði ein sú umhverfisvænasta í heiminum m.t.t. losunar CO2 (mynd 4). Á heimsvísu er losun CO2 vegna olíuvinnslu afar misjöfn eftir aðstæðum og vinnsluaðferðum. Þar sem losunin er minnst, í Noregi, er hún um fimmfalt lægri en þar sem hún er mest, í Venesúela.
Matið fyrir Ísland byggir á því að olíuvinnsla yrði að mestu með sambærilegum hætti og í Noregi, sérstaklega varðandi meðhöndlun á gasi, sem gjarnan er hliðarafurð olíuvinnslu. Í Noregi er brennsla á gasi (e. gas flaring) bönnuð en sá áhrifaþáttur er einn sá stærsti í losun olíuframleiðslu. Þá verður að teljast ólíklegt að olíuborpallar yrðu rafvæddir á Drekasvæðinu líkt og tíðkast í Noregi sem veldur því að losun CO2 er áætluð hærri á Íslandi en í Noregi.

Jafnframt má áætla að losun vegna olíunotkunar Íslands myndi lækka verulega ef innfluttri olíu yrði skipt út fyrir þá sem kemur frá Drekasvæðinu. Um 60% af innfluttri olíu landsins kemur frá ríkjum sem hafa meiri losun en vænt losun af
olíuvinnslu á Drekasvæðinu. Þannig myndi losun minnka, bæði vegna umhverfisvænni vinnslu og minni losunar við flutning olíunnar til landsins.
Viðskiptaráð telur að ofangreindu virtu að stjórnvöld ættu að bjóða á ný út sérleyfi til rannsókna og vinnslu olíu og gas á Drekasvæðinu og hvetur í því samhengi til þess að þingsályktunartillagan verði samþykkt.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Öll umfjöllun og gögn í umsögninni byggja á nýlegri úttekt Viðskiptaráðs á olíuleit á Drekasvæðinu (september 2025). Slóð: https://vi.is/skodanir/audlind-i-augsyn