17. ágúst 2016

Alþjóðlega ráðgjafafyrirtækið McKinsey & Company gaf út skýrslu um íslenska hagkerfið árið 2012. Í nýju riti Viðskiptaráðs, Leiðin að aukinni hagsæld, eru helstu greiningar skýrslunnar uppfærðar, efnahagsleg framvinda síðustu ára rýnd í ljósi niðurstaðna hennar og mat lagt á framvindu umbótatillagna sem lagðar voru fram í kjölfar útgáfu hennar.
Leiðin að aukinni hagsæld
Meðfylgjandi er samantekt á ritinu sem skiptist í þrjá kafla:
1. Niðurstöður McKinsey skýrslunnar
- Þegar skýrsla McKinsey kom út hafði Ísland glímt viðvarandi viðskiptahalla og lága framleiðni.
- McKinsey lagði fram stefnu um að auka framleiðni í innlendri þjónustu og stuðla að tilfærslu vinnuafls yfir í alþjóðageirann, þar sem vaxtartækifæri eru meiri.
2. Hagþróun frá útgáfu
- Vel hefur gengið að viðhalda ytra jafnvægi síðustu ár með lækkun erlendra skulda í kjölfar hagfelldra nauðasamninga við kröfuhafa föllnu bankanna og viðskiptaafgangi.
- Útflutningur hefur hins vegar vaxið hægt og orðið einsleitari en ferðaþjónusta stendur nú undir þriðjungi heildarútflutnings. Þetta er öfugt við markmið McKinsey um hraðan og fjölbreyttan útflutningsvöxt.
- Ísland er enn langt frá því að brúa framleiðnibilið gagnvart grannríkjum. Í stað hærri framleiðni vinnuafls hefur vinnuframlag Íslendinga aukist enn frekar miðað við samanburðarlönd.
3. Hvernig var skýrslunni fylgt eftir?
- Samkvæmt áætlun Viðskiptaráðs hefur um þriðjungur umbótatillagna sem mótaðar voru í kjölfar McKinsey skýrslunnar verið innleiddur á þeim þremur árum sem liðin eru.
- Framvindan er mismikil eftir ólíkum hlutum hagkerfisins. Vel hefur gengið við að innleiða þær tillögur sem snúa að þjóðhagsrammanum, alþjóðageiranum, innlendri þjónustu og opinberri þjónustu.
- Hins vegar hefur lítil framvinda átt sér stað í auðlindageiranum. Það er varhugavert, sérstaklega í ljósi þess að geirinn stendur undir bróðurparti af útflutningstekjum Íslands og aukningu þeirra undanfarin ár.