Viðskiptaráð Íslands

Sammála!

Í síðustu viku kynnti alþjóðlega ráðgjafarfyrirtækið McKinsey & Company niðurstöður úttektar á efnahagslegri stöðu Íslands miðað við nágrannalönd, þeim drifkröftum sem ráða framgangi efnahagsmála, helstu tækifærum til hagvaxtar og grunnforsendum þess að þau verði nýtt.

Tillögur McKinsey hafa vakið töluverða athygli. Hún er verðskulduð, enda skýrslan mikilvægt innlegg í bæði almenna umræðu  um framtíðarsýn í efnahagsmálum. Það er hinsvegar athyglisvert að viðbrögðin við skýrslu McKinsey hafa verið á eina leið, afar jákvæð og almennt haft á orði að þessum tillögum sé vert að fylgja eftir.

Mér er til efs að á síðustu árum hafi jafn margir aðilar úr jafn ólíkum áttum tjáð sig á jafn jákvæðan hátt um jafn mikið grundvallarmál. Fólk úr stjórnsýslu, fyrirtækjum, launþegahreyfingu og atvinnulífssamtökum. Stjórnmálamenn úr öllum flokkum, til hægri, á miðju og til vinstri – ráðherrar, stjórnarliðar og stjórnarandstæðingar. Svona mætti lengi telja. Við virðumst vera sammála! Sammála um að tillögurnar eru góðar. Sammála um að viðfangsefnið sé brýnt. Og sammála um að tillögunum þurfi að fylgja eftir. Á tímum þar sem ósamstaða er um flest mál telst þetta til tíðinda.

Ein af tillögum McKinsey er að hér verði komið á breiðum vettvangi aðila úr ólíkum áttum þar sem samstöðu sé náð um mótun og útfærslu hagvaxtaráætlunar fyrir Ísland til næstu ára. Nú þarf að nást sambærileg samstaða um að koma slíkum vettvangi á, þar sem hægt er að skilgreina framtíðarsýn um verðmætasköpun og lífskjör á Íslandi og aðgerðir til að fylgja henni eftir. Þó svo niðurstöður McKinsey séu þýðingarmiklar, þá eru þær eingöngu tillögur og breyta sem slíkar litlu fyrr en þær eru komnar til framkvæmdar. Það er Íslendinga að koma þeim í framkvæmd. Við erum sammála um grunnstef. Í því felst mikið tækifæri sem nú þarf að nýta.

Finnur Oddsson, fráfarandi framkvæmdarstjóri Viðskiptaráðs Íslands

Tengt efni

Innstæðulaus inngrip í kjarasamninga

„Í stað innstæðulausra inngripa í kjarasamningagerð á almennum vinnumarkaði ættu …
17. október 2024

Lofts­lag eða lífs­kjör: bæði betra

Því hefur verið haldið fram að Viðskiptaráð sé á móti því að ráðist verði í …
25. september 2024

23 ár af skýrslum og starfshópum

Ekki er þörf á fleiri starfshópum eða skýrslum til að greina augljósa galla við …
4. september 2024