Viðskiptaráð Íslands

2/3 af bjórnum renna til ríkisins

Í dag eru liðin 36 ár frá afnámi bjórbannsins á Íslandi. Þrátt fyrir að banninu hafi verið aflétt er hið opinbera enn umsvifamikið á áfengismarkaði og tekur til sín 2/3 af söluverði bjórs í formi opinberra gjalda og álagningar. Áfengisverð á Íslandi er það hæsta á Norðurlöndum fyrir vikið.

Íslenska ríkið tekur til sín 2/3 af söluverði bjórs í formi opinberra gjalda, skatta og álagningar (mynd 1). Bjór sem kostar 379 kr. í Vínbúðinni myndi kosta 125 kr. án opinberra álagna. Ríkið tekur síðan til sín hlutfallslega meira af söluverði áfengis eftir því sem það verður sterkara. Af léttvínsflösku er hlutur ríkisins 70% og af sterku víni nemur hann 90%.

Áfengisgjald leggst þyngst á áfengi af opinberum gjöldum, en það reiknast út frá rúmmáli vínanda í drykkjum. Gjaldið leggst misþungt á bjór, vín og sterkt áfengi, sem skýrir muninn á hlut ríkisins. Til viðbótar leggst skilagjald á umbúðir og virðisaukaskattur á söluverðið. Að lokum leggst álagning ÁTVR á áfengi sem þar er keypt. Álagningin er lögbundin og nemur 18% á vörur sem innihalda 22% vínanda eða minna og 12% á vörur sem innihalda meiri vínanda en það.[1]

Há skattlagning áfengis veldur því að verð á áfengi á Íslandi er það hæsta á Norðurlöndum. Skattlagning hérlendis er fimmfalt hærri en tíðkast innan Evrópusambandsins og áfengisverð hérlendis þrefalt á við meðalverð í Evrópusambandinu (mynd 2). Til samanburðar er meðalverð óáfengra drykkja einungis 40% hærra á Íslandi en í Evrópusambandinu.[2]

Þrátt fyrir að verðið sé það hæsta í Evrópu hefur meðalneysla á áfengi á Íslandi aukist undanfarin ár, ólíkt því sem gerist á öðrum Norðurlöndum. Jafnframt er ofdrykkja (e. heavy episodic drinking) enn mest hérlendis af Norðurlöndunum og með því mesta sem gerist í Evrópu.[3]

Skattar á áfengi gera ekki greinarmun á þeim sem nota vöruna með ábyrgum hætti og þeim sem misnota hana. Óhófleg skattlagning er því óskilvirk leið til að draga úr misnotkun áfengis, þar sem að verðbreytingar hafa minnst áhrif á neyslu þeirra sem misnota vöruna. Skattlagning á áfengi er því fyrst og fremst tekjuöflunartæki en ekki lýðheilsutæki.[4]

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að láta af óhóflegri skattlagningu á áfengi. Núverandi tilraunir til neyslustýringar koma verst niður á þeim sem misnota áfengi og eru óskilvirk leið til að draga úr skaðlegri neyslu á vörunni. Til viðbótar leggur ráðið til að ríkið láti af einokunarverslun með áfengi og leggi niður ÁTVR. Ríkiseinokunarsala er tímaskekkja sem fer illa með almannafé og þjónar ekki hagsmunum neytenda.

---

Tilvísanir

[1] Alþingi (2024). „Lög um gjald af áfengi og tóbaki“. Slóð: https://www.althingi.is/lagas/nuna/1995096.html

[2] Eurostat (2024). „Comparative price levels for food, beverages and tobacco“. Slóð: https://ec.europa.eu/eurostat/statistics-explained/index.php?title=Comparative_price_levels_for_food,_beverages_and_tobacco

[3] International Alliance for Responsible Drinking (2025). „Alcohol and health trends by country based on WHO data“. Slóð: https://www.iard.org/getattachment/69ec18ec-7ed6-4d4b-86e1-358657c7c52b/iard_trendsreport-2025hlm-alcoholandhealthwhodata2024.pdf

[4] Spirits Europe (2025). „Tax, not a health instrument“. Slóð: https://spirits.eu/issues/taxation-economy/tax-not-a-health-instrument

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024