Viðskiptaráð Íslands

Enn á ný fleiri skattahækkanir en lækkanir

Um áramótin tóku gildi 23 skattbreytingar. Þar af voru skattahækkanir 19 talsins og skattalækkanir 4 talsins. Frá árinu 2007 hafa samtals verið gerðar 289 skattbreytingar. Aðeins fjórðungur þeirra hefur verið til lækkunar á skattbyrði. Þetta eru niðurstöður uppfærslu á yfirliti Viðskiptaráðs Íslands yfir skattbreytingar undanfarinna ára.

Sjá yfirlit yfir skattbreytingar.

Helstu breytingar um áramótin

Ekki urðu umfangsmiklar breytingar á skattkerfinu um áramótin en þó fjöldi skattahækkana hafi verið meiri má heilt yfir segja að þær séu ívið meira til lækkunar en hækkunar. Helst ber þar að nefna þrennt:

  • Lækkun tryggingagjalds um 0,25 prósentustig
  • Hækkun þaks á endurgreiðslur fyrir útgjöld til rannsókna og þróunar í 600 milljónir
  • Hækkun persónuafsláttar um 4,7%

Hvað varðar skattahækkanir má segja að krónutölugjöld hafi verið fyrirferðamest í þeim flokki. Öll krónutölugjöld hækkuðu sem nemur verðlagsbreytingum að undanskildum kolefnisgjöldum en þau hækkuðu um 10%.

Þótt að áramótin hafi ekki falið í sér umfangsmiklar breytingar og einkennst af nokkrum stöðugleika er jafnframt ljóst að ýmsar vendingar geta átt sér stað á árinu. Hæst ber þar að nefna fyrirhugaðar breytingar á tekjuskattskerfinu en einnig eru á teikniborðinu breytingar á borð við afnám virðisaukaskatts af bókum, breytt fyrirkomulag skattheimtu bifreiða og breytingar á fjármagnstekjuskatti. Niðurstaðan gæti því orðið sú að einn stærsti tekjustofn hins opinbera, tekjuskattur, taki töluverðum breytingum og árið 2019 feli í sér meiri hrókeringar í skattkerfinu en sést hafa síðustu misseri.

Talsverðar hækkanir á öllu tímabilinu

Almennt hafa skattar heldur hækkað en lækkað á tímabilinu og á öllum árum frá 2008 hafa skattahækkanir verið fleiri en skattalækkanir. Það hefur leitt til þess að skatttekjur sem hlutfall af landsframleiðslu voru 34% árið 2017 sem er 2 prósentustigum hærra en árið 2008. Tölur fyrir fyrstu 9 mánuði síðasta árs benda til þess að hlutfallið hafi lítið breyst milli ára. Þeir skattar sem mest hafa hækkað að raunvirði á tímabilinu eða síðan þeim var fyrst komið á eru:

  • Bankaskattur sem hefur ríflega nífaldast
  • Gjöld á neftóbak sem hafa sexfaldast
  • Fjármagnstekjuskattur hefur ríflega tvöfaldast
  • Erfðafjárskattur hefur tvöfaldast
  • Kolefnisgjöld á bensín, gas- og díselolíu og brennsluolíu hafa ríflega tvöfaldast
  • Gistináttagjald hefur hækkað um 73% að raunvirði
  • Tryggingagjald er enn fjórðungi hærra en það var árið 2007

Sjá yfirlit yfir skattbreytingar.

Tengt efni

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024

Útborgunardagurinn er í dag

Útborgunardagurinn 2024 er í dag, þann 27. júní. Frá þessum degi byrjar …
27. júní 2024