Viðskiptaráð Íslands

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er kennsluskylda lítil, veikindi algeng, kennarar margir og kostnaður hár samanborið við önnur ríki. Þetta er niðurstaða nýrrar samantektar Viðskiptaráðs á hagkvæmni íslenskra grunnskóla í alþjóðlegu samhengi.

Ummæli borgarstjóra Reykjavíkur á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna vöktu hörð viðbrögð í síðustu viku. Í máli hans kom fram að tölfræði benti til þess að pottur sé brotinn í skólamálum. Nefndi hann meðal annars lága kennsluskyldu og hátt veikindahlutfall kennara í því samhengi.

Kennarafélag Reykjavíkur, eitt svæðafélaga Kennarasambands Íslands, skipulagði mótmæli vegna ummæla borgarstjóra þar sem sumir kennarar lögðu niður störf og mættu í Ráðhús Reykjavíkur. Kennsla var felld niður í viðkomandi grunnskólum fyrir vikið.

Af þessu tilefni hefur Viðskiptaráð tekið saman eftirfarandi gögn um grunnskólakerfið:

  • Fjölgun kennara: Bæði kennurum og öðru starfsfólki grunnskóla hefur fjölgað hraðar en nemendum. Aukningin nemur 46% hjá kennurum og 70% hjá öllu starfsfólki á meðan nemendum hefur fjölgað um 12%.
  • Kennsluskylda: Hvergi á Norðurlöndum verja grunnskólakennarar jafn litlum tíma með nemendum og á Íslandi. Kennsluskylda er 19% undir meðaltali OECD.
  • Veikindi: Veikindahlutfall í grunnskólum Reykjavíkurborgar er ríflega tvöfalt hærra en á almennum vinnumarkaði, eða 7,4% samanborið við 3,1%.
  • Fjöldi kennara: Hvergi á Norðurlöndum eru jafn fáir nemendur á hvern grunnskólakennara. Fjöldinn er 9,9 hérlendis samanborið við 14 í OECD.
  • Kostnaður: Íslenskt grunnskólakerfi er það þriðja dýrasta innan OECD. Kostnaður á hvern grunnskólanema er 41% yfir meðaltali OECD, leiðrétt fyrir kaupmætti.

Framangreindar tölur benda til þess að áhyggjur borgarstjóra séu ekki úr lausu lofti gripnar. Í þeim er ótalinn dræmur árangur íslenskra grunnskóla í PISA, en líkt og Viðskiptaráð hefur bent á er hann sá næstlakasti í Evrópu.

Hagkvæmni íslenska grunnskólakerfisins er óvíða minni og brýnt að leita leiða til að auka hana. Auk betri námsárangurs má ráða af framangreindum tölum að hækkun kennsluskyldu og aðgerðir til að draga úr veikindahlutfalli geti þar verið áhrifamiklir þættir.

Myndræna framsetningu á þessari tölfræði má sjá hér:

Tengt efni

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024