Viðskiptaráð Íslands

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld ríkissjóðs 1.489 milljarðar króna á næsta ári og aukast um 5,8% á milli ára. Útgjaldavöxturinn er þó misjafn eftir ráðuneytum og málaflokkum. Þá vega verkefni misjafnlega þungt í ríkisrekstrinum.

Áætlað er að útgjöld ríkissjóðs verði 1.489 milljarðar króna en tekjur 1.448 milljarðar samkvæmt fjárlagafrumvarpi 2025. Ríkissjóður verður því rekinn með halla upp á 41 milljarð á næsta ári. Útgjöld aukast um 81 milljarð á milli ára og tekjur um 91 ma. kr. svo afkoman batnar um 10 milljarða samanborið við síðustu fjárlög.

Útgjaldaaukning misjöfn milli ráðuneyta

Heilt á litið aukast útgjöld til málaflokka undir ráðuneytunum um 62 milljarða. Útgjaldaaukningin getur þó verið afar misjöfn eftir ráðuneytum [1]. Af tólf ráðuneytum aukast útgjöldin hjá öllum nema einu, fjármála- og efnahagsráðuneytinu.

Hlutfallsleg aukning útgjalda er mest hjá utanríkisráðuneytinu, eða um 18%. Þar vegur þyngst aukinn stuðningur við Úkraínu, bæði til verkefna tengdum varnar- og mannúðarmálum. Næst mest er aukningin hjá menningar- og viðskiptaráðuneytinu, þar sem útgjöld aukast um 15%. Þar aukast útgjöld mest vegna endurgreiðslna til kvikmyndagerðar, en þau hækka úr 2,5 ma.kr. árið 2024 í 6,1 milljarð á næsta ári.

Útgjöld fjármála- og efnahagsráðuneytisins lækka um 16%. Þar vega þyngst lægri framlög í varasjóð og lægri afskriftir skattakrafna, en miklu var veitt í varasjóð í ár vegna óvissu tengdri gerð kjarasamninga á almennum vinnumarkaði.

Lífeyrisútgjöld, Landspítali og vaxtagjöld stærstu liðirnir

Lífeyristryggingar eru stærsti einstaki fjárlagaliðurinn og vega þær því þyngst í bókhaldi ríkissjóðs, en útgjöldin nema 187 ma. kr. og vaxa um 6% á milli ára. Undir lífeyristryggingar falla m.a. örorku-, elli- og barnalífeyrir. Næst stærsti liður fjárlaga er Landspítali, en útgjöld til hans nema 114 milljörðum. Þriðji stærsti fjárlagaliðurinn er síðan vaxtagjöld, en á komandi ári er áætlað að ríkissjóður borgi 98 milljarða í vexti af skuldum sínum. Það gera 270 milljónir króna á dag að meðaltali.

Hlutfallsleg útgjaldaukning tíu stærstu fjárlagaliðanna er mest til öldrunarstofnana, eða um 12%. Þar eru stærstu undirliðirnir útgjöld til hjúkrunar- og dvalarrýma. Næst mest er hlutfallsleg útgjaldaaukning til Vegagerðarinnar en hún er 10%. Þar vega auknir styrkir til almannasamgangna þyngst.

Útgjöld til tveggja af tíu dýrustu fjárlagaliðanna lækka á milli ára. Vaxtagjöld lækka um 1% milli ára og það gera sömuleiðis lífeyrisskuldbindingar. Alls eru útgjöld til tíu stærstu fjárlagaliðanna 783 milljarðar króna, eða um helmingur heildarútgjalda ríkissjóðs.

Ólíkir útgjaldaliðir geta verið jafn dýrir

Fjárlögin eru yfirgripsmikil og spanna liðir þeirra allt frá útgjöldum vegna botndælubúnaðar við Landeyjarhöfn til útgjalda vegna reksturs Alþingis. Gagnlegt getur verið að setja liðina í samhengi við aðra til að átta sig betur á umfangi þeirra.

Til dæmis eru útgjöld til húsnæðisbóta annars vegar og Heilbrigðisstofnunar Suðurlands hins vegar bæði um 11.500 milljónir króna. Útgjöld til fyrrnefnda málaflokksins hækkuðu um 2.500 milljónir milli ára, en þau útgjöld voru hluti af aðkomu ríkisstjórnarinnar að kjarasamningum. Þá eru fjárveitingar til sauðfjárræktar og varnarmála jafn miklar, en hvor liðurinn er um 6.800 milljónir.

Útgjöld til Þjóðleikhússins og vaxtabóta eru 2.100 milljónir króna og styrkir til stjórnmálaflokka annars vegar og einkarekinna fjölmiðla hins vegar eru um 650 milljónir. Þá eru útgjöld til forsetaembættisins og verkefnasjóðs sjávarútvegsins, sem ætlað er að styðja við hafrannsóknir og eftirlit á hafi, um 400 milljónir.

Fjárlögin skilgreina útgjöldin

Samkvæmt stjórnarskrá má ekki greiða gjald úr ríkissjóði nema heimild sé til þess í fjárlögum eða fjáraukalögum. Fjárlög hvers árs skilgreina þannig hversu miklu ríkissjóður mun eyða í hvern málaflokk, en alls eru fjárlagaliðirnir 363 talsins. Fjárlagafrumvarpið mótar því ekki aðeins útgjaldaramma ríkissjóðs heldur segir það einnig til um hvernig skattfé landsmanna skuli ráðstafað.

Viðskiptaráð vinnur nú að umsögn um fjárlögin og mun þar fjalla nánar um þróun ríkisútgjalda undanfarin ár og leggja fram tillögur að hagræðingu og bættri nýtingu á skattfé.

Skýringar: 1 Málaflokkar sem ekki falla undir ráðuneyti eru æðsta stjórn ríkisins, þ.e. Alþingi og dómsstólar og vaxtagjöld ríkissjóðs.

Umfjöllun í fjölmiðlum:

Morgunútvarpið á Rás2: Viðtal við Ragnar Sigurð Kristjánsson

Tengt efni

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024

Útborgunardagurinn er í dag

Útborgunardagurinn 2024 er í dag, þann 27. júní. Frá þessum degi byrjar …
27. júní 2024