Viðskiptaráð Íslands

Er Ísland ekki norrænt velferðarríki?

Efling heldur því fram að Ísland geti ekki talist vera norrænt velferðarríki. Stenst það skoðun?

Það er gott að búa á Norðurlöndum. Velferð mælist næstmest á Íslandi, borið saman við Noreg, Svíþjóð, Danmörku og Finnland.

Í nýjasta riti Kjarafrétta Eflingar er að finna samanburð Íslands við önnur Norðurlönd. Áherslan er á opinber útgjöld ríkjanna til ýmissa málaflokka. Þar kemur fram að opinber útgjöld á Íslandi sem hlutfall af landsframleiðslu séu gjarnan lægri en á hinum Norðurlöndunum. Niðurstaða Eflingar er sú að velferðarríkið á Íslandi sé „veigaminna og vanbúnara en tíðkast á hinum Norðurlöndunum“.

Fullyrðing: Ísland getur ekki talist vera norrænt velferðarríki.

Velferð þjóða er víðtækt hugtak og tekur til margra sviða mannlífsins. Einn þáttur í mati á velferð getur verið að skoða opinber útgjöld til velferðarmála, eins og Efling gerir. Heildstætt mat tekur til fleiri þátta. Ef fullyrða á um velferð þjóða er nærtækara að skoða útkomur í þeim málaflokkum sem eru undir, en ekki bara beint framlag hins opinbera til þeirra.

Er velferð á Íslandi?

Byrjum á því að skoða efnisleg lífskjör almennings. Nærtækasti samanburðurinn er kaupmáttarleiðrétt landsframleiðsla á mann, sjá mynd 1. Eins og sjá má eru lífskjör hér mjög áþekk öðrum Norðurlandaþjóðum. Til ársins 2019 voru þau sambærileg Danmörku en nokkuð bakslag varð hér árið 2020. Það er rétt að láta þess getið að samanburðurinn nær til ársins 2020, en frá því hefur efnahagurinn tekið hraustlega við sér hérlendis.

Efnisleg lífskjör á Íslandi eru sambærileg öðrum Norðurlöndum.

Á mynd 2 sést hlutfall þeirra sem töldust vera fátækir í hverju landi fyrir sig. Ísland sker sig nokkuð frá öðrum Norðurlöndum að þessu leyti, en fátækt mælist hvergi minni í heiminum en meðal Íslendinga. Þá er jöfnuður meiri hér en á Norðurlöndum, bæði fyrir og eftir tekjutilfærslur. Ísland stendur einnig fremst í þessum samanburði hvað varðar atvinnuþátttöku og langtímaatvinnuleysi skv. OECD.

Hvergi í heiminum mælist fátækt minni en á Íslandi. Meðal Norðurlanda er jöfnuður mestur á Íslandi.

Ef litið er á besta einstaka samræmda mælikvarða á velferð þjóða, lífsgæðavísitölu OECD (e. OECD Better Life Index), sést að Ísland stenst mjög vel samanburð við önnur Norðurlönd sbr. mynd 3. Heilt yfir mælist velferð mest í Noregi en Ísland kemur þar skammt á eftir og raðar sér framar Svíþjóð, Finnlandi og Danmörku.

Velferð á Íslandi er sú næstmesta meðal Norðurlanda, samkvæmt samræmdum velferðarmælikvarða OECD (e. OECD Better Life Index)

Vissulega eru einstakir undirliðir þar sem Ísland stendur verr að vígi, t.d. jafnvægi atvinnu- og einkalífs og menntun. Aftur á móti er staða þjóðarinnar góð í umhverfis- og atvinnumálum. Þá er rétt að taka fram að fullyrðingar í grein Eflingar um lágt framlag til heilbrigðismála og samdrátt í opinberum útgjöldum til málaflokksins eru rangar.

Athugasemd: Fjármála og efnahagsráðuneyti hefur birt uppfærð gögn um framlög til heilbrigðismála.

Niðurstaða: Velferð á Íslandi stenst vel samanburð við Norðurlönd. Fullyrðing Eflingar er röng.

Grundvallarmisskilningur um lífeyrismál

Í grein Eflingar er einnig fjallað um lífeyrismál og samanburð þeirra við Norðurlönd. Áherslan er á opinber framlög til lífeyrismála og dregin sú ályktun að lífeyriskerfi Íslendinga tryggi ekki kjör lífeyrisþega og sé í raun svik við þá.

Fullyrðing: Lífeyrisþegar á Íslandi búa við skert kjör í samanburði við önnur Norðurlönd þar sem opinber framlög eru óvenju lág.

Sjóðsöfnunarkerfið á Íslandi byggir á því allir vinnandi landsmenn safna í sjóði yfir starfsævina til að standa undir eigin eftirlaunum og í sumum tilfellum eftirlaunum annarra. Það er ólíkt lífeyriskerfum margra Vesturlandaþjóða að þessu leyti. Grein Eflingar fjallar um almannatryggingar sem er þáttur hins opinbera í lífeyriskerfinu. Sá hluti er fjármagnaður með skatttekjum og er sk. gegnumstreymiskerfi.

Þessi hluti lífeyriskerfisins hefur dregist saman vegna þess að tekjur Íslendinga hafa almennt hækkað undanfarna áratugi. Afleiðingin er sú að hlutfallslega fleiri launamenn (með mótframlagi atvinnurekenda) hafa safnað fyrir eigin lífeyrisgreiðslum áður en komið er á eftirlaunaaldur, án opinberra framlaga.

Þá hefur orðið breyting á almannatryggingakerfinu, sem áður tryggði hverjum og einum greiðslur óháð tekjum, en er í dag notað sem jöfnunartæki til að tryggja lífeyrisgreiðslur þeirra sem þurfa helst á þeim að halda. Íslenska lífeyrissjóðakerfið er í efsta sæti í alþjóðlegri lífeyrisvísitölu sem ráðgjafarfyrirtækið Mercer og samtökin CFA Institute gefa út. Í skýrslu Mercer kemur fram að lífeyrisgreiðslur hins opinbera séu hlutfallslega lágar sem er kostur og keppikefli annarra þjóða að ná sama árangri þar.

Lífeyrisþegar best staddir hér

Í þessu sambandi er rétt að taka fram að eigur lífeyrissjóðskerfisins, sem standa undir framtíðarlífeyrisgreiðslum, námu 195% af VLF á Íslandi borið saman við 58% í Finnlandi og 56% í Danmörku árið 2020 skv. OECD. Gögn fyrir Svíþjóð og Noreg eru ekki tiltæk. Lífeyrissjóðskerfi Íslendinga er því sjálfbærara en annarra Norðurlanda og fyrir vikið útheimtir það ekki eins mikla aðkomu hins opinbera.

Á mynd 4 sést hvernig kerfið þjónaði þeim sem voru á eftirlaunum í samanburði við önnur Norðurlönd. Eins og sjá má eru tekjur lífeyrisþega hér hvergi eins nálægt því að vera þær sömu og vinnandi launamanna meðal Norðurlanda. Þá er fátækt meðal lífeyrisþega hvergi minni í þeim samanburði.

Lífeyrisþegar á Íslandi hafa meira á milli handanna en sömu þjóðfélagshópar á Norðurlöndum, miðað við meðaltekjur í hverju landi fyrir sig. Fátækt meðal lífeyrisþega er sömuleiðis næstminnst hér í þeim samanburði.

Niðurstaða: Opinber framlög til lífeyrisþega á Íslandi eru lægri en á Norðurlöndum vegna þess að kerfið er að mörgu leyti betra og sjálfbærara og útheimtir ekki eins mikla meðgjöf skattgreiðenda. Kjör lífeyrisþega á Íslandi eru að jafnaði betri en á Norðurlöndum. Fullyrðing Eflingar er röng.

Gunnar Úlfarsson, hagfræðingur Viðskiptaráðs

Jóhannes Stefánsson, lögfræðingur Viðskiptaráðs

Greinin birtist í Morgunblaðinu þann 5. júlí 2022.

Tengt efni

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024