Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa hefur skapað mikla umræðu. Viðskiptaráð fagnar henni en lýsir yfir vonbrigðum með viðbrögð mennta- og barnamálaráðherra og formanns Kennarasambands Íslands. Vegna ummæla þeirra vill ráðið koma þremur atriðum á framfæri.
Engin krafa um eitt próf
Formaður Kennarasambands Íslands brást við umsögn ráðsins með því að staðhæfa að samræmd próf séu tímaskekkja og það sé gamladags hugsunarháttur að vilja láta eina einkunn ráða för.
Viðskiptaráð hefur hvergi talað fyrir einu prófi í samræmdu námsmati. Ráðið er fylgjandi því að námsmat sé þróað og bætt í takti við það sem best tíðkast í skólastarfi. Það getur til dæmis verið í formi fleiri og styttri prófa, eins og starfshópur um námsmat lagði til.
Tillögur Viðskiptaráðs um áframhaldandi samræmd próf byggja á sjónarmiðum um jafnræði grunnskólabarna óháð búsetu og umbótum í skólastarfi. Það eru tímalaus gildi sem verða aldrei úrelt.
Misræmi og einkunnaverðbólga staðreyndir
Formaður Kennarasambands Íslands hafnar því að misræmis gæti í einkunnagjöf grunnskóla eða að einkunnaverðbólga sé til staðar. Þessi afstaða stangast á við niðurstöður rannsókna menntamálayfirvalda.
Rannsókn Menntamálastofnunar á misræmi í einkunnagjöf grunnskóla frá árinu 2022 leiddi eftirfarandi í ljós: „35% nemenda búa við það að [skólaeinkunn] þeirra er líklega umtalsvert lægri eða hærri en hefði verið í öðrum skóla. [...] Ósamræmi er í hvernig námsmati er beitt eftir skólum.“ [1]
Annarri rannsókn stofnunarinnar á einkunnaverðbólgu lauk með því að staðfesta tilvist hennar. Í frétt um niðurstöður rannsóknarinnar segir: „Fyrir rúmum fimm árum var gamla talna-einkunnakvarðanum, þar sem nemendum var gefin einkunn á bilinu 0 til 10, skipt út fyrir bókstafakvarða [...]. Ein af ástæðum þess [...] voru síhækkandi meðaleinkunnir í lokamati í tíunda bekk árin á undan. Þessi breyting virðist ekki hafa skilað tilætluðum árangri þar sem einkunnirnar hækka enn.“ [2]
Verzlunarskóli Íslands hefur bent á þetta vandamál í áratug. Í frétt á vef skólans frá 2015 kemur eftirfarandi fram: „Frá því að samræmdu prófin voru aflögð hafa einkunnir hækkað mjög mikið. [...] Meðaleinkunn nýnema í stærðfræði árið 2004 var 7,8 á samræmdu prófunum og 8,1 í skólaeinkunn. 10 árum síðar var meðaleinkunn nýnema 9,2 í stærðfræði í skólaeinkunn [...] Ekki er hægt að greina að nýnemar árið 2014 séu betri námsmenn en árið 2004.“ [3]
Misræmi í einkunnagjöf og einkunnaverðbólga eru alvarlegur vandi í íslensku grunnskólakerfi. Fyrsta skrefið í lausn á vandanum er að viðurkenna tilvist hans. Vonandi stígur formaður Kennarasamband Íslands það skref fyrr en síðar.
Starfsumhverfi kennara myndi batna
Ráðherra brást við tillögum Viðskiptaráðs með því að kalla þær óásættanlegar og hjákátlegar. Hann segir þær fela í sér gagnrýni á störf kennara og annars starfsfólks menntakerfisins. Viðskiptaráð hafnar því og lýsir yfir vonbrigðum með tilraun ráðherra til að skauta umræðu um menntun með þessum hætti.
Ákall ráðsins um að grunnskólabörn njóti jafnræðis og að árangur af grunnskólastarfi sé mældur með samræmdum hætti felur ekki í sér gagnrýni á störf kennara. Þvert á móti myndu tillögur Viðskiptaráðs bæta starfsumhverfi kennara. Þær myndu auka traust og gagnsæi í skólastarfi og draga úr þrýstingi af hálfu foreldra þegar kemur að einkunnagjöf.
Kennarar eru fjölmennur hópur og innan hans rúmast fólk með ólíkar skoðanir. Ráðinu hafa enda borist jákvæð viðbrögð frá fjölmörgum grunnskólakennurum sem eru ósáttir við núverandi fyrirkomulag námsmats, til dæmis vegna óskýrra viðmiða við námsmat, dvínandi færni barna og skorts á árangursmælikvörðum við kennslu.
Þrjár tillögur ráðsins
Viðskiptaráð vonast eftir efnislegri umræðu um tillögur sínar í framhaldi af þessum áréttingum. Þær eru þrjár:
Þessar þrjár breytingar myndu tryggja mælingar á árangri grunnskólakerfisins, veita einstökum grunnskólum og stjórnendum þeirra bæði aðhald og umbótaverkfæri, og tryggja grunnskólabörnum jafnræði til náms og tækifæra á ný.
---
Tilvísanir
[1] Menntamálastofnun (2022): „Athugun á samræmi og ósamræmi í lokamati grunnskóla og niðurstöðum samræmdra könnunarprófa“
[2] Sjá frétt á ruv.is (2022): „Meðaleinkunnir í grunnskóla fara enn hækkandi“. Slóð: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2022-10-17-medaleinkunnir-i-grunnskola-fara-enn-haekkandi. Rannsókn Menntamálastofnunar er frá árinu 2022 og ber heitið „Einkunnaverðbólga í lokamati grunnskóla á árunum 2016-2022“
[3] Sjá frétt á vef Verzlunarskóla Íslands frá 16. júní 2015 á þessari slóð: https://www.verslo.is/frettir/vid-lok-innritunar/.
---
Upphaflega umsögn Viðskiptaráðs í heild sinni má nálgast hér: https://vi.is/umsagnir/namsmat