Ísland er vissulega dýrt en tekjurnar eru líka með þeim hæstu svo að kaupmáttur var sá fjórði mesti í Evrópu árið 2019
Sum umræða er álíka fastur punktur í íslenskri umræðu og árstíðirnar fjórar. Dæmi um þetta er hátt verðlag. Sú umræða er þó oftar en ekki á villigötum að því leyti að horft er fram hjá þeirri staðreynd að hátt verðlag er þegar upp er staðið afleiðing af háum tekjum Íslendinga og þannig miklum kaupmætti – hagsæld.
Nýlega voru upplýsingar um hvort tveggja uppfærðar fyrir Ísland og önnur Evrópuríki. Ísland er vissulega dýrt (mynd 1), en tekjurnar eru líka með þeim hæstu. Afleiðingarnar eru að árið 2019 bjuggu Íslendingar almennt við 4. mesta kaupmátt í Evrópu. Sömu sögu er að segja ef horft er til einstakra vöru- og þjónustuflokka og þá kemur Ísland vel út í samanburði við Norðurlöndin.
Þvert á lönd og yfir langan tíma sýna gögn og rannsóknir að því meiri sem framleiðni vinnuafls er, og þar af leiðandi tekjur, er verðlag ríkja almennt hærra. Vegna gengissveiflna og annarra áhrifaþátta spila aðrir þættir einnig inn í en burtséð frá því virðist þetta gilda í Evrópu um þessar mundir, þar sem skýr og mikil fylgni var með verðlagi og ráðstöfunartekjum árið 2019 (mynd 2). Íslendingar höfðu 3. hæstu tekjurnar í evrum árið 2019, og komu fast á hæla Noregi og Sviss sem einnig deila hæsta verðlaginu með Íslandi.
Skýrt samband milli verðlags og tekna í evrum segir lítið eitt og sér, en við nánari skoðun má þó sjá að fyrir hver 10% sem ráðstöfunartekjur hækka er verðlag almennt um 5% hærra í Evrópuríkjum. Þar af leiðandi er kaupmáttur ráðstöfunartekna einnig mestur í þeim ríkjum sem búa við hæsta verðlagið og tekjurnar (mynd 3). Til að mynda var kaupmáttur miðgildis ráðstöfunartekna sá fjórði hæsti hér á landi árið 2019 og sömu ríki og raða sér á toppinn í verðlagi og tekjum raða sér í sætin í kringum Ísland í kaupmætti.
Miðgildi ráðstöfunartekna og kaupmáttur þeirra tekna segir ekki alla söguna þó það sé ef til vill mest lýsandi fyrir „hinn dæmigerða“ Íslending. Dreifing tekna skiptir einnig máli og því ber að nefna að tekjujöfnuður á Íslandi er meiri en í hinum ríkjunum sem raða sér á toppinn í kaupmætti. Aðeins mælist meiri jöfnuður í Slóveníu, Slóvakíu og Tékklandi á mælikvarða Gini og þá er hlutfall milli efstu og neðstu tekjutíundar það lægsta hér á landi.
Verðlag vöru og þjónustu er mjög breytilegt milli landa og það er kaupmátturinn í einstaka neysluflokkum einnig. Kaupmáttur eftir helstu neysluflokkum er almennt mikill hér á landi og mælist Ísland iðulega í efstu 10 sætunum (mynd 4), með undantekningum í heilsu auk pósti og síma sem vega þó lítið í neyslukörfunni – samtals 6%. Sérstaka athygli vekur að kaupmáttur í mat og drykkjarvöru er sá annar mesti í Evrópu, en aðeins íbúar Lúxemborgar geta keypt sambærilega matarkörfu og notað til þess lægra hlutfall tekna sinna. Í því samhengi má nefna að fiskur er óvenju ódýr á Íslandi (11. dýrasti) í samanburði við aðra matvöru (2. dýrasta) og því kaupmáttur Íslendinga í fiski óvenju mikill (þó það nú væri!).
Í samanburði við Norðurlöndin kemur Ísland einnig vel út (mynd 5). Kaupmátturinn í mat og drykkjarvöru var nokkuð áberandi mestur hér eða um 11% meiri en í Danmörku, sem kemur næst á eftir. Sömu sögu er að segja af flutningum, sem eru flugfargjöld að megninu til, en öðru gegnir um veitingastaði og hótel annars vegar og húsnæði hins vegar, þar sem Norðmenn búa við mesta kaupmáttinn. Taka skal fram að einungis er horft til kostnaðar vegna leiguhúsnæðis, viðhalds og annars reksturs húsnæðis í húsnæðisliðnum.
Framangreind gögn um tekjur byggja á lífskjararannsókn Eurostat þar sem horft er á allar tekjur og bótagreiðslur að teknu tillit til skatta. Í vikunni sagði Hagstofa Íslands frá nýjum tölum Eurostat um kaupmátt tímakaups þar sem staða Íslands er lakari – 8. sæti. Nokkrir þættir virðast útskýra þennan mun. Meðal annars eru vísbendingar um að sérstaklega mikill munur sé á greiddum stundum á Íslandi, sem liggja til grundvallar tímakaupinu, og unnum stundum, sem skekkir samanburðinn á tímakaupi á unna vinnustund. Einnig voru tekjuskattar á einstaklinga lægri á Íslandi en í 5 af þeim 7 ríkjum sem hafa meiri kaupmátt tímakaups en Ísland. Að auki kunna bætur og tekjutilfærslur að vera Íslandi í hag sem leiðir til hærri ráðstöfunartekna.
Upplýsingarnar hér eru eins til tveggja ára gamlar. Verðlag og tekjur breytast líkt og flest annað og því líklegt að myndin hafi breyst á árinu 2020 þó ekki sé nema einungis fyrir þær sakir hve óvenjulegt árið var vegna kórónaveirunnar. Hvað Ísland varðar er erfitt að segja hvort staðan hafi breyst í samanburði við önnur Evrópuríki og benda vísbendingar í mismunandi áttir. Hér virðist sem samdráttur landsframleiðslu hafi verið óvenju mikill árið 2020, sem almennt rýrir ráðstöfunartekjur, en á móti má nefna að laun hafa hækkað og að kaupmáttur launa jókst um 3,4% á síðasta ári.
Óháð því hvað nýrri gögn leiða í ljós mun árið 2021 vonandi leiða til þess að horft verður í auknum mæli til þess sem raunverulega skiptir máli þegar talað er um verðlag og tekjur: Kaupmátt. Að horfa á annað hvort atriðið í einangrun er efnislega sambærilegt því að lesa hálfa skáldsögu og draga þaðan ályktun um endinn. Slíkt getur ekki á nokkurn hátt verið skynsamlegt eða varðað leiðina áfram í heilbrigðri og mikilvægri umræðu um lífskjör landsmanna.