Viðskiptaráð Íslands

Kjósendur eru skarpari en stjórnmálamenn

Miðað við staðreyndapróf Viðskiptaráðs eru kjósendur skarpari en stjórnmálamenn, en þeir svöruðu 6,22 spurningum af 13 rétt en meðalframbjóðandi svaraði aðeins 5,83 spurningum rétt.

Í aðdraganda alþingiskosninga 2021 lagði Viðskiptaráð stutt staðreyndapróf fyrir fimm efstu frambjóðendur á listum flokka í alþingiskosningum. Síðar gafst kjósendum tækifæri á að spreyta sig á sömu könnun undir formerkjunum Ertu skarpari en stjórnmálamaður? og kanna hvort þeir stæðust prófið, þ.e.a.s. hvort þeir svöruðu fleiri spurningum rétt en meðalframbjóðandinn. Spurningarnar eru þrettán talsins og varða t.a.m. Alþingi, efnahagsmál, hagstjórn o.fl.

Alls svöruðu 86 frambjóðendur könnuninni og þegar þetta var ritað höfðu 1.921 kjósendur tekið þátt. Meðalkjósandinn svaraði 6,22 spurningum rétt en meðalframbjóðandinn aðeins 5,83 spurningum. Þá eru spurningarnar sex talsins þar sem meirihluti kjósenda svaraði rétt en fjórar meðal frambjóðenda. Því má segja að þeir kjósendur sem tóku þátt séu almennt skarpari en stjórnmálamaður.

Hvar flöskuðu kjósendur og frambjóðendur?

Mikill meirihluti bæði frambjóðenda og kjósenda hafði rangt fyrir sér í svari fjögurra spurninga af þrettán þar sem minna en þriðjungur þátttakenda svaraði rétt. [1]

Mikið ofmat á lengd vinnuvikunnar

Gömul mýta um langa vinnuviku Íslendinga virðist ekki vera á undanhaldi en það er sú spurning sem fæstir svöruðu rétt. Spurt var: Hversu löng er vinnuvikan á Íslandi í samanburði við OECD ríkin? Rétt svar er 15% undir meðaltali OECD, en þvert á það er algengasta svar bæði frambjóðenda og kjósenda 15% yfir meðaltali.

Þessi misskilningur á m.a. rætur sínar að rekja til ósamræmis í mælingum vinnustunda hér áður fyrr samanborið við annars staðar. Fram til ársins 2018 var fjöldi unninna vinnustunda í vinnumarkaðsannsókn Hagstofunnar ofmetinn þar sem svörin byggðu alfarið á upplifun svarenda og var matartími til dæmis talinn til vinnutíma. Hagstofan birti því nýtt mat á vinnustundum árið 2018 en af því er ljóst að Ísland er raunar í flokki þeirra ríkja sem vinnur fæstar vinnustundir og er á pari við Norðurlöndin.

Hraðara undanhald verðtryggingar en flestir gera sér grein fyrir

Sú spurning sem fæstir frambjóðendur svöruðu rétt snýr að skiptingu íbúðalána. Tekið er fram að í ársbyrjun 2016 voru 16% lána heimilanna óverðtryggð og spurt var: Hvert var hlutfallið í maí 2021? Rétt svar er 47% en aðeins fimmti hver frambjóðandi svaraði rétt og þriðji hver kjósandi. Hins vegar taldi rúmlega helmingur kjósenda og frambjóðenda hlutfallið vera 32%. Hlutfall óverðtryggðra íbúðalána hefur farið ört vaxandi síðustu ár en hrein ný óverðtryggð íbúðalán námu 25,3 ma.kr. í ágúst og verðtryggð lán voru greidd upp fyrir 4,3 ma.kr.

Kaupmáttaraukningin meiri hjá eldri kynslóðinni en fólki á miðjum aldri

Sú spurning sem fæstir kjósendur svöruðu rétt snýr að kaupmáttaraukningu þjóðarinnar eftir aldurshópum. Spurt var: Hvaða aldurshópur hefur, á mælikvarða meðaltals ráðstöfunartekna, fengið mestu kaupmáttaraukninguna frá árinu 2000? Að meðaltali hafa ráðstöfunartekjur fólks á bilinu 65-74 ára aukist mest frá árinu 2000 eða um 54% á verðlagi ársins 2020. Þó var algengast að bæði kjósendur og frambjóðendur teldu aukninguna mesta hjá fólki á miðjum aldri en kaupmáttaraukning þess hóps nemur aðeins 29% frá árinu 2000.

Framlög til Landspítalans hafa aukist meira en flestir halda

Athygli vekur að tæplega 26% frambjóðenda eru með á hreinu hversu mikið útgjöld Landspítalans jukust á áraunum 2017-2020, en á því tímabili fjölgaði starfsfólki um 10%. Nær helmingur kjósenda og frambjóðenda töldu gjöld spítalans hafa aukist um 26% á tímabilinu. Hið rétta er að útgjöld spítalans jukust talsvert meira, eða um 36%.

Enn er hægt að þreyta prófið, en slóð á það er að finna hér.

[1] Miðað er við þriðjung þar sem þriðjungslíkur voru á réttu svari ef svarað var handahófskennt, enda þrír svarmöguleikar við öllum spurningum.

Tengt efni

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024

Þrjár áréttingar um grunnskólamál

Umsögn Viðskiptaráðs um áform stjórnvalda um endanlegt afnám samræmdra prófa …
24. júlí 2024