Viðskiptaráð Íslands

Stuðningsstuðullinn lækkar

Jákvæð þróun á vinnumarkaði - Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði annað árið í röð eftir að hafa hækkað samfellt í fjögur ár

Öflugt atvinnulíf er forsenda þess að hið opinbera geti veitt landsmönnum nauðsynlega þjónustu og staðið undir innviðum og opinberum kerfum, svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingum. Styrk hagkerfisins til að standa undir þessari nauðsynlegu þjónustu má meta með stuðningsstuðli atvinnulífsins en hann mælir hlutfallið milli starfsfólks í einkageira og annarra íbúa landsins.

Stuðningsstuðullinn mældist 1,3 í fyrra og lækkaði annað árið í röð eftir að hafa hækkað samfellt í fjögur ár. Stuðullinn sýnir að fyrir hverja 10 einstaklinga sem störfuðu í einkageiranum árið 2022 voru 13 sem gerðu það ekki, þ.e. voru ýmist í opinberum störfum, í námi, atvinnulausir eða utan vinnumarkaðar, t.d vegna aldurs.

Eftir mikla hækkun í efnahagshruninu tók stuðullinn að lækka og lækkaði nokkuð jafnt og þétt þar til hann tók aftur að hækka árið 2016. Heimsfaraldurinn hafði svo verulega neikvæð áhrif á stuðningsstuðulinn. Viðsnúningurinn eftir faraldur er kærkominn og gefur vísbendingar um heilbrigðara hagkerfi. Breytinguna má rekja til samspils fjölmarga þátta.

Í fyrra fjölgaði starfandi í einkageira um 7% (+10.725) en starfandi hjá hinu opinbera fjölgaði um 6,5% (+2.775). Þá fækkaði atvinnulausum um 35% (-4.400) og dróst fjöldi utan vinnumarkaðar saman um 1% (-1.644).

Þegar þróunin er skoðuð í víðara samhengi hefur starfandi í einkageira fjölgað um 5,5% (+8.581) frá 2019 til 2022 og fjölgun stöðugilda hins opinbera numið 14,6% (+5.819). Á sama tíma hefur atvinnulausum fjölgað um 1,3% (+100) og fólki utan vinnumarkaðar fjölgað um 3,1% (+4.757).

Viðsnúningur í fjölda starfandi í einkageira í fyrra var viðbúinn enda glötuðust mörg slík störf í heimsfaraldri á sama tíma og opinberum stöðugildum fjölgaði mikið. Starfandi hjá hinu opinbera er tæplega þriðjungur launafólks í landinu, eða um 28%. Hlutfallið hefur lækkað frá því það stóð hæst árið 2020 en sýnir hversu umfangsmikið hið opinbera er á vinnumarkaði.

Hvers vegna er þessi mælikvarði?

Tilgangur stuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst 2011, er að varpa ljósi á hvert jafnvægið er á milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. Í honum felst hvorki að börn né aldraðir séu byrði á þeim sem starfandi eru né að þjónusta sem hið opinbera veitir sé ekki mikilvæg. Samt sem áður þýðir hærri stuðull að minna er til skiptanna fyrir samfélagið og þess vegna er brýnt að horfa til þess nauðsynlega jafnvægis sem ríkja þarf milli atvinnulífs og hins opinbera.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024