Helmingur ríkisstofnana hefur stytt opnunartíma frá því að samið var um styttingu vinnuvikunnar árið 2019. Þá var algengast að stofnanir væru opnar í átta klukkustundir en nú eru flestar með opið í sex klukkustundir. Þetta kemur fram í nýrri úttekt Viðskiptaráðs á opnunartíma ríkisstofnana.

Í kjarasamningum 2019 var samið um styttingu vinnuvikunnar úr 40 klukkustundum í 36 stundir. Við innleiðingu þessara breytinga var stofnunum ráðlagt að innleiða styttinguna í skrefum og samhliða því vinna að umbótum í þjónustu og rekstri. Þrátt fyrir þetta innleiddu 77% stofnana hámarksstyttingu í einu skrefi. [1]
Meginmarkmið breytinganna var að stuðla að umbótum í starfsemi ríkisstofnana án þess að draga úr skilvirkni og gæðum þjónustu. [2] Í þessu samhengi hefur Viðskiptaráð kannað áhrif innleiðingar styttri vinnuviku á þjónustu ríkisstofnana m.t.t. opnunar- og afgreiðslutíma.
Rúmlega helmingur stofnana hefur stytt opnunartíma frá 2019
Alls hafa 51% stofnana stytt opnunartíma frá því að samið var um styttingu vinnuvikunnar árið 2019 (mynd 1). Styttingin nemur 17% að meðaltali en er misjöfn milli stofnana. Þá hafa 36% stofnana óbreyttan opnunartíma og 13% hafa lengri opnunartíma en árið 2019 og nemur lengingin að meðaltali 21%.
Fyrirkomulag opnunar- eða afgreiðslutíma byggir á upplýsingum af vefsíðum viðkomandi stofnana árin 2019 og 2025. Horft var til ársins 2019 þar sem ári síðar var hafist handa við innleiðingu styttingu vinnuvikunnar. [3] Undanskildar voru stofnanir sem ekki hafa hefðbundinn opnunar- og afgreiðslutíma, líkt og menntastofnanir, löggæslustofnanir, dómstólar og nefndir. Stofnanir sem hafa verið lagðar niður á tímabilinu voru líka undanskildar.
Algengast að hafa opið í 8 tíma fyrir styttingu en nú í 6 tíma
Árið 2019 var algengast að stofnanir væru opnar í 8 klukkustundir á dag en í dag er algengasti opnunartíminn 6 klukkustundir (mynd 2). Stofnunum sem eru opnar í 8 klukkustundir fækkaði um 8, úr 22 í 14. Þá rúmlega tvöfaldaðist fjöldi stofnana sem hafa opið í 5 tíma eða skemur frá 2019, úr 10 í 21.
Stofnunum sem hafa opið í 9 klukkustundir eða lengur fjölgaði úr einni í tvær, en það var Heilbrigðisstofnun Suðurlands (HSS) sem lengdi opnunartíma úr 8 klukkustundum í 11,5. Í tilfelli stofnana sem hafa fleiri en eitt útibú er stuðst við stærsta útibúið en hjá HSS er það Heilsugæslan á Selfossi sem var opin frá kl. 8-16 árið 2019 en er nú opin frá kl. 8-18:30.
Flestar stofnanir styttu opnunartíma alla virka daga
Algengast er að styttri opnunartími sé útfærður alla virka daga frekar en á einum tilteknum degi (mynd 3). Alls hafa 24 stofnanir stytt opnunartíma sinn á virkum dögum um að meðaltali 22%. 13 stofnanir hafa útfært styttinguna þannig að opnunartími er aðeins styttur á föstudögum, en þar nemur styttingin að meðaltali 8%. Engin breyting hefur verið á opnunartíma 26 stofnana. Þá hafa 9 stofnanir lengt opnunartíma sinn um að meðaltali 21%.
Algengast að opnunartími sé styttur hjá þjónustustofnunum
Algengast er að þjónustustofnanir hafi stytt opnunartíma frá 2019 (mynd 4). Undir þjónustustofnanir falla t.d. sýslumannsembættin, Þjóðskrá og Vinnumálastofnun. Þá hefur 51% stjórnsýslustofnana stytt opnunartíma sinn á tímabilinu. Dæmi um stjórnsýslustofnanir eru Vinnueftirlitið, Landlæknir og aðalskrifstofur ráðuneyta. Hér má nefna að opnunartími allra ráðuneyta er sá sami og hann var 2019. Einungis 29% heilbrigðisstofnana hafa stytt opnunartíma frá 2019. 57% þeirra hafa haldið opnunartíma sínum óbreyttum og 14% hafa lengt opnunartíma sinn.
Dæmi eru um að stofnanir hafi aukið þjónustu samhliða styttri opnunartíma. Sem dæmi hefur Þjóðskrá tekið upp á að bjóða upp á afhendingu vegabréfa og nafnskírteina í Hagkaup í Skeifunni og þar er hægt að nálgast skilríki bæði dag og nótt, alla daga vikunnar. [4]
Tvíþættur kostnaður vegna styttingar
Af framangreindu má ráða að stytting vinnutíma hjá hinu opinbera hafi leitt til skerðingar á opnunartíma fjölda stofnana. Það er m.a. stutt af þeirri staðreynd að 77% stofnana innleiddu hámarksstyttingu í einu skrefi. Kostnaður vegna styttingar vinnuvikunnar er þannig bæði beinn og óbeinn.
Beinn kostnaður myndast því fjölga þarf starfsfólki ef skila á óbreyttum afköstum. Til dæmis nam kostnaðarauki vegna styttingar vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki hjá Reykjavíkurborg 0,5 ma.kr. árið 2021 og 5,4 ma.kr. hjá ríkinu sama ár. Núvirt miðað við launavísitölu nemur beinn kostnaðarauki ríkis og borgar vegna styttingar vaktavinnustarfa um 8 ma. kr. á ári. [5] Þar er ótalinn kostnaður vegna vinnutímastyttingar dagvinnustarfa.
Óbeinn kostnaður vinnutímastyttingar fellur síðan til vegna skerðingar á opinberri þjónustu. Sá kostnaður er í formi styttri opnunartíma og skertrar afkastagetu opinberra stofnana sem veita nauðsynlega þjónustu, sinna leyfisveitingum og fara með eftirlit. T.d. geta tafir í leyfisveitingum eða öðrum afgreiðslum vegna rýrari opnunartíma valdið einstaklingum í atvinnurekstri miklum óbeinum kostnaði.
Umbótaverkefni þurfa að setja almenning í forgang
Við innleiðingu vinnutímastyttingar var lagt upp með að breytingin hefði hvorki í för mér sér hærri launakostnað né skerta þjónustu. Framangreindar niðurstöður benda til þess að þau markmið hafi ekki náðst. Viðskiptaráð kallar eftir því að stjórnvöld meti kostnað og áhrif vinnutímastyttingar heildstætt og útfærsla hennar verði endurskoðuð með tilliti til niðurstaðna úr því mati.
1 KPMG (2022). „Stöðumat á Betri vinnutíma“. Slóð: https://kpmg.com/is/is/home/media/press-releases/2022/12/skyrsla-kpmg-um-betri-vinnutima.html
2 RÚV (2021). „Stytting á ekki að draga úr þjónustu“. Slóð: https://www.ruv.is/frettir/innlent/2021-01-20-stytting-a-ekki-ad-draga-ur-thjonustu
3 Útgáfum af vefsíðu stofnana var flett upp árið 2019 með aðstoð „Internet archive: Wayback machine“. Slóð: https://web.archive.org/
4 Þjóðskrá (2024). „Vegabréf og nafnskírteini afhent í Hagkaup, Skeifunni“. Slóð: https://www.skra.is/um-okkur/frettir/frett/2024/10/18/Vegabref-og-nafnskirteini-afhent-i-Hagkaup-Skeifunni/
5 Reykjavíkurborg (2024). „Kostnaðarauki við styttingu vinnuvikunnar er vegna vaktavinnu“. Slóð: Kostnaðarauki við styttingu vinnuvikunnar er vegna vaktavinnu | Reykjavik og Kjarninn (2021). „Stytting vinnuvikunnar hjá vaktavinnufólki kostar ríkissjóð 5,4 milljarða króna á ári“. Slóð: https://kjarninn.is/frettir/stytting-vinnuvikunnar-hja-vaktavinnufolki-kostar-rikissjod-54-milljarda-krona-a-ari/