Viðskiptaráð Íslands

Stuðningsstuðullinn hækkar í fyrsta sinn í átta ár

Stuðningsstuðull atvinnulífsins var 1,20 árið 2017 og hækkaði lítillega í fyrsta sinn í átta ár. Stuðullinn sýnir að fyrir hverja 10 einstaklinga sem starfandi voru í einkageiranum árið 2017 voru 12 starfandi við opinbera þjónustu eða ekki í vinnu, t.d. vegna aldurs. Tilgangurinn með stuðningsstuðlinum er að sýna hversu margir eru með einum eða öðrum hætti studdir af þeim sem starfa í einkageiranum.

Mikil fólksfjölgun en hægari fjölgun starfa

Fordæmalaus fólksfjölgun litar stuðningsstuðulinn talsvert að þessu sinni. Á árinu 2017 (frá ársbyrjun til ársloka) fjölgaði landsmönnum um ríflega 10.000 og voru að meðaltali um 7.900 (+2,4%) fleiri íbúar á landinu heldur en árið 2016. Að sama skapi fjölgaði störfum en þó talsvert minna eða um 3.350 (+1,8%) sem skýrir hækkun stuðningsstuðulsins. Jákvætt er að 88% af þessum störfum urðu til í einkageiranum en talsverð fjölgun fólks utan vinnumarkaðar (+3,5%) er umhugsunarverð.


Hvers vegna þessi mælikvarði?

Hvorki er átt við að börn og aldraðir séu einhverskonar byrði á þeim sem eru starfandi né að opinberir starfsmenn séu yfirleitt byrði á einkageiranum. Tilgangur stuðningsstuðulsins, sem Viðskiptaráð birti fyrst árið 2011, er að varpa ljósi á hvernig jafnvægið er milli umsvifa einkageirans og hagkerfisins í heild. Grundvöllur lífsgæða á Íslandi er öflugt atvinnulíf sem skapar verðmætar vörur og þjónustu. Til að mynda eru Íslendingar mjög háðir útflutningi og hann verður að nær öllu leyti til í einkageiranum. Án útflutnings væri enginn gjaldeyrir til innflutnings og ekki þarf að fjölyrða um hvaða áhrif það hefði á lífsgæði á Íslandi.

Ef stuðningsstuðullinn hækkar áfram þýðir það að minna er til skiptanna milli landsmanna að óbreyttu. Í ljósi framangreinds telur Viðskiptaráð mikilvægt að stjórnvöld vinni að því að halda stuðlinum lágum.

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024