Viðskiptaráð Íslands

Stuðningsstuðullinn lækkar þriðja árið í röð

Fjölgun starfa í einkageiranum veldur því að stuðningsstuðull atvinnulífsins lækkar þriðja árið í röð. Stuðullinn stendur nú í 1,3, sem þýðir að fyrir hvern einstakling í einkageiranum standa nú 1,3 einstaklingar utan hans. Viðskiptaráð hefur birt stuðulinn frá árinu 2011 til að meta jafnvægi á milli umsvifa einkageirans og annarra hluta hagkerfisins.

Öflugt atvinnulíf er undirstaða góðra lífskjara. Án verðmætasköpunar einkageirans væri ekki hægt að fjármagna opinbera þjónustu eða velferðarkerfi, svo sem heilbrigðiskerfi, menntakerfi og almannatryggingar. Viðskiptaráð hefur mælt getu hagkerfisins til að standa undir hvoru tveggja með stuðningsstuðli atvinnulífsins frá árinu 2011. Stuðullinn mælir jafnvægi á milli þeirra sem starfa í einkageiranum og þeirra sem á hann reiða.

Stuðningsstuðullinn lækkar á milli ára

Stuðningsstuðull atvinnulífsins mælist 1,3 fyrir árið 2023 og lækkar á milli ára, þriðja árið í röð. Stuðullinn sýnir að fyrir hvern starfsmann í einkageiranum stóðu 1,3 einstaklingar utan hans. Síðarnefnda hópnum tilheyra þeir sem eru án atvinnu, í störfum hjá hinu opinbera eða utan vinnumarkaðar. Því hærri sem stuðullinn er, því fleiri einstaklingum stendur hvert stöðugildi í einkageiranum undir, sem felur almennt í sér aukna skattbyrði.

Stuðullinn lækkar á milli ára vegna fjölgunar starfa í einkageiranum. Störfum í einkageiranum fjölgaði um 8.200 á milli ára. Til samanburðar fjölgaði opinberum starfsmönnum um 800, atvinnulausum fækkaði um 500 og fólki utan vinnumarkaðar fjölgaði um 900. Fjölgun starfa í einkageiranum er því stærsti drifkraftur lækkunar stuðulsins á milli ára.

Eftir skarpa hækkun stuðningsstuðulsins í kjölfar efnahagshrunsins lækkaði hann samfellt í sjö ár. Stuðullinn fór lægst í 1,27 árið 2017 en fór síðan aftur hækkandi í kjölfarið. Í heimsfaraldrinum hækkaði stuðullinn síðan aftur skarpt, en náði aftur fyrri gildum árið 2022. Árið 2023 var hann álíka hár og árið 2018.

Verðmætasköpun undirstaða velferðar

Verðmætasköpun er undirstaða lífskjara og forsenda þess að hægt sé að veita opinbera þjónustu og tryggja íbúum landsins velferð. Lækkun stuðningsstuðulsins eru jákvæðar fregnir sem þýða að meira sé til skiptanna fyrir íslenskt samfélag. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að beita sér fyrir áframhaldandi lækkun stuðulsins með því að bæta rekstrarumhverfi fyrirtækja og hagræða í opinberum rekstri.

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024