Viðskiptaráð Íslands

Nikótín sett undir sama hatt og tóbak

Viðskiptaráð gagnrýnir fyrirhuguð áform um aukna íhlutun í sölu og framleiðslu nikótínvara. Að mati ráðsins eru tillögurnar til þess fallnar að skerða atvinnu-, viðskipta- og valfrelsi fyrirtækja og neytenda. Þá skorti nauðsynlegt mat á árangri núgildandi aðgerða auk þess sem ekki sé gerður greinarmunur á tóbakslausum nikótínvörum og hefðbundnum tóbaksvörum.

Samtök atvinnulífsins og Viðskiptaráð Íslands hafa tekið til umsagnar áform um frumvarp til heildarlaga um varnir gegn tóbaki og nikótíni.

Með áformunum er boðuð víðtæk íhlutun í starfsemi fyrirtækja sem framleiða, flytja inn og selja löglegar nikótínvörur. Þar er meðal annars lagt til að framleiðsla verði leyfisskyld, að sala í gegnum netverslanir verði bönnuð, að bragðefni í nikótínvörum verði verulega takmörkuð og að umbúðir verði einsleitar. Þá er jafnframt boðuð endurskipulagning á eftirliti með smásölu og auglýsingum þessara vara.

Samtökin benda á að með þessu er áformað að skerða atvinnufrelsi sem nýtur verndar 75. gr. stjórnarskrárinnar. Er það grundvallarregla að slík takmörkun verði að byggjast á málefnalegum og rökstuddum sjónarmiðum og að gæta þurfi meðalhófs. Í ljósi þess að þegar hefur verið gripið til margvíslegra lýðheilsuaðgerða gegn notkun varanna — svo sem aldurstakmarkana, sýnileika- og auglýsingabanna, staðbundinna takmarkana á notkun og verulegrar hækkunar nikótíngjalds s.l. áramót — telja samtökin að betur færi á því að áhrifum fyrri aðgerða yrði að fullu leyft að koma fram, áhrifin metin í kjölfarið og vandað yrði við undirbúning frekari aðgerða ef enn er talin þörf á þeim.

Samtökin setja jafnframt spurningamerki við það að setja nikótínvörur, sem ekki innihalda tóbak og hafa hjálpað fjölda fólks við að hætta reykingum, undir sömu lög og hefðbundnar tóbaksvörur. Tóbakslausar nikótínvörur eru almennt taldar vægari valkostur og ætti löggjöf að endurspegla þann greinarmun. Að leggja þessar vörur að jöfnu getur dregið úr hvata neytenda til að skipta yfir í skaðminni valkosti og þannig grafið undan raunverulegum lýðheilsumarkmiðum. Þá telja samtökin vandséð að í öllum tilvikum sé eðlismunur á nikótínvörum sem flokkast sem nikótínlyf annars vegar og almennar nikótínvörur hins vegar, en skilgreiningin velti í sumum tilvikum á formsatriðum öðru fremur. Rétt væri að heildstæð endurskoðun á smásölufyrirkomulagi allra tegunda nikótínvara færi fram með það að markmiði að tryggja jafnræði og samræmi í umgjörð og regluverki.

Áform um bann við netsölu munu jafnframt skerða viðskiptafrelsi verulega og möguleika neytenda til að stunda lögmæt viðskipti með löglegar vörur. Slíkar takmarkanir draga úr samkeppni, hækka verð og ýta óformlega eða jafnvel ólöglega netverslun. Sama gildir um fyrirhugað bann við bragðefnum; það skerðir rétt neytenda til að velja þá vöruflokka sem henta þeim best og hefur áhrif á notendur sem kjósa skaðminni vörur með ákveðnum bragðeiginleikum. Jafnframt er óljóst hvaða bragðefni eru talin höfða sérstaklega til barna og hver ekki. Samtökin gjalda varhug við að svo huglæg skýring verði bundin í lög.

Samtökin hvetja stjórnvöld til þess að endurskoða fyrirliggjandi áform með hliðsjón af framangreindum sjónarmiðum og leggja áherslu á vandað mat á áhrifum þeirra laga og aðgerða sem þegar eru í gildi, áður en ráðist er í frekari íþyngjandi lagasetningu. Vanda verður sérstaklega lagasetningu sem er til þess fallin að skerða atvinnu-, viðskipta- og valfrelsi fyrirtækja og neytenda og gæta þess að slík sjónarmið séu metin í jafnvægi við lýðheilsusjónarmið.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024