Viðskiptaráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og SVÞ – Samtök verslunar og þjónustu hafa tekið til umsagnar kröfur landlæknis um öryggi við veitingu fjarheilbrigðisþjónustu sem birt var í samráðsgáttinni hinn 4. júní sl. Samtökin taka undir mikilvægi þess að gætt sé að fyllsta öryggi við veitingu og rekstur fjarheilbrigðisþjónustu. Samtökin gera hins vegar athugasemdir við þær kröfur sem Embætti landlæknis hyggst setja, bæði um lögmæti þeirra og efnislegt innihald.