Frumvarp menntamálaráðherra um framhaldsskóla færir áherslu frá einkunnum yfir í matskennd og óskýr sjónarmið við innritun í skólana. Með því að gera öðrum þáttum en námsárangri hærra undir höfði er hætt við að frændhygli og geðþótti ráði för. Þetta kemur fram í umsögn Viðskiptaráðs um frumvarpið.
Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar frumvarp til laga um breytingu á lögum um framhaldsskóla nr 92/2008. Frumvarpið lýtur að breytingum á starfsumhverfi- og reglum sem framhaldsskólar starfa eftir, námsbrautarlýsingum og fyrirkomulagi innritunar í framhaldsskóla. Ráðið vill koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri.
Í frumvarpinu er lagt til að framhaldsskólum verði heimilt að líta til fleiri þátta en námsárangurs við innritun nemenda. Með frumvarpinu væru þannig lögfestar víðtækari heimildir fyrir framhaldsskóla að forgangsraða umsóknum á grundvelli annarra viðmiða en námsárangurs samanborið við núgildandi löggjöf. Nánar tiltekið bætist eftirfarandi texti við 32. gr. laganna:
„Við ákvörðun um innritun nemanda er heimilt að líta til sjónarmiða sem tengjast nemandanum, þ.m.t. námsárangurs úr grunnskóla og annarra upplýsinga sem nemandinn lætur skólanum í té, og sjónarmiða sem tengjast skólasamfélagi viðkomandi skóla, þ.m.t. sem miða að því að auka fjölbreytni í nemendahópnum.“
Í greinargerð frumvarpsins segir eftirfarandi um þessa breytingu:
„Í ljósi aukinnar umræðu um inngildingu í skólastarfi ásamt öðru er lagt til að [...] skýr afstaða [sé] tekin til þess að heimilt sé að líta til annarra sjónarmiða en námsárangurs við innritun nemenda í framhaldsskóla. [...] Mikilvægt er að jafna tækifæri nemenda í innritunarferlinu og að allir framhaldsskólar axli ábyrgð á fjölbreyttum nemendahópi.“
Viðskiptaráð telur að með þessu sé löggjafinn að færa áherslur sínar varðandi innritun í framhaldsskóla frá því að aðgangur að opinberri menntun byggi á hlutlægum, málefnalegum og gagnsæjum árangursmælikvörðum. Í stað þess er áherslan færð í þá óheillavænlegu átt að innritun skuli ráðast af matskenndum þáttum sem hafa ekkert með námsárangur nemenda að gera.
Frumvarpið og greinargerð með því er vart hægt að skilja á annan veg en að hvatt sé til þess að framhaldsskólar setji nemendur sem hafa sýnt fram á betri námsárangur aftar í röðina við innritun. Í þeirra stað verði teknir inn nemendur með lakari námsárangur sem stjórnendur framhaldsskóla telja „fjölbreyttari“ út frá óskilgreindum eða óljósum viðmiðum. Slíkt fyrirkomulag er bæði á skjön við jafnræðissjónarmið og réttmæti innritunarkerfisins og rýrir traust til skólakerfisins í heild.
Viðskiptaráð minnir á mikilvægi þess að menntakerfið styðjist við haldbær, gagnsæ og fyrirsjáanleg viðmið. Einkunnir sem hæfniviðmið eru skýrasti og besti mælikvarðinn sem uppfyllir þær kröfur. Ráðið hefur undanfarið bent á að samræma þurfi einkunnir við lok grunnskólagöngu svo nemendur njóti sömu tækifæra óháð búsetu þegar kemur að kennslu á grunnskólastigi og við innritun í framhaldsskóla. Af þessum sökum hefur Viðskiptaráð talað fyrir endurupptöku samræmdra prófa við lok grunnskólagöngu og lagt til að niðurstöður þeirra gildi við inntöku í framhaldsskóla. [1]
Með þessu frumvarpi er stigið skref í öfuga átt. Í stað þess að ákvæði sé sett um að einkunnir skuli vera samræmdar, svo umsækjendum um framhaldsskólavist sé tryggt jafnræði, er vikið frá því að líta til einkunna yfir höfuð. Þegar opnað er á eða jafnvel hvatt til þess að önnur óskýr og illmælanleg viðmið leysi námsárangur af hólmi eykst hætta á mismunun og frændhygli. Af þessum sökum er það mat Viðskiptaráðs að frumvarp þetta samræmist illa grundvallarsjónarmiðum um jafnræði.
Viðskiptaráð leggst gegn því að frumvarpið nái fram að ganga.
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um frumvarp til laga um námsmat (mars 2025): https://vi.is/umsagnir/namsmat-3