Viðskiptaráð Íslands

Bagalegt að engin vindorkuverkefni séu flokkuð í nýtingarflokk

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar tillögu verkefnisstjórnar 5. áfanga ramma­áætlunar að flokkun tíu vindorkuverkefna. Ráðið lýsir áhyggjum af því að enginn kostur hafi verið flokkaður í nýtingarflokk, þrátt fyrir langvarandi vinnu, og bendir á skort á stefnumótun, heildstæðu mati og efnahagslegri greiningu. Að mati Viðskiptaráðs grafi þetta undan markmiðum laganna um verndar- og orkunýtingaráætlun og leggur ráðið áherslu á einfaldara, skilvirkara regluverk til að tryggja næga og sjálfbæra raforkuöflun.

Viðskiptaráð hefur tekið til umsagnar tillögu verkefnisstjórnar 5. áfanga ramma­áætlunar að flokkun tíu vindorkuverkefna. Ráðið skilaði einnig inn umsögn við upphafleg drög sama máls og vísar til hennar eftir því sem við á. [1] Þar sem endanleg tillaga felur ekki í sér efnislegar breytingar á flokkun virkjunar­kostanna frá upphaflegum drögum ítrekar Viðskiptaráð áður framkomna gagnrýni og telur að ekki hafi verið brugðist við helstu ábendingum sem komu fram í fyrri umsögn.

Allir kostir áfram í biðflokki

Viðskiptaráð bendir á að allar tíu tillögur um vindorkuverkefni eru áfram í biðflokki samkvæmt endanlegri tillögu. Þetta á jafnvel við um tvö verkefni sem áður höfðu verið metin til nýtingar, án skýringa á breytingunni. Engin ný matstæki virðast hafa legið að baki þeirri ákvörðun að halda þeim í biðflokki.

Það vekur sérstaka athygli að enginn virkjunarkostur skuli teljast nægilega vel undir­byggður til flokkunar í nýtingarflokk, þrátt fyrir að vinna við matið hafi staðið yfir frá árinu 2022. Þetta bendir annað hvort til alvarlegs skorts á stefnumótun í málinu eða of mikilla takmarkana í verklagi og lagaumhverfi rammaáætlunar.

Lög nr. 48/2011 um verndar- og orkunýtingaráætlun kveða skýrt á um að leggja skuli mat á efnahagsleg, samfélagsleg og umhverfisleg áhrif nýtingar virkjunarkosta. Í tillögum verkefnisstjórnar eru efnahagsleg áhrif meirihluta þeirra flokkuð sem óljós og því bersýnilegt að ekki hafi verið framkvæmt fullnægjandi mat. Það er mat Viðskiptaráðs að þetta brjóti í bága við markmið laganna og grafi undan trúverðugleika ferlisins. Í ljósi mikilvægi vindorku sem hluta af orkuskiptum og verðmætasköpun í íslensku samfélagi er bagalegt að slíkt mat skorti.

Orkuþörf og orkuöryggi vanrækt í mati

Viðskiptaráð hefur ítrekað bent á yfirvofandi raforkuskort sem er staðfestur í raforkuspá Landsnets 2024–2050. [2] Samkvæmt spánni nægja núverandi virkjunarkostir ekki til að mæta fullum orkuskiptum. Þrátt fyrir þetta er sú staðreynd ekki tekin með í heildstæðu mati verkefnisstjórnar. Áherslan virðist fyrst og fremst lögð á samtöl við sveitarstjórnarfólk í stað markvissrar greiningar á samfélagslegum og efnahagslegum áhrifum orkuskorts. Þetta er stórt veikleikaatriði í mati verkefnisstjórnar.

Í tillögunni kemur fram að vöntun á heildstæðri stefnumótun stjórnvalda um vindorku hamli því að hægt sé að meta virkjunarkostina með afgerandi hætti. Viðskiptaráð telur að þessi rök standist illa, enda hefur Alþingi áður samþykkt að setja vindorkukosti í nýtingarflokk án slíkrar stefnumótunar. Verkefnisstjórn ber að vinna eftir gildandi lögum og mati á þeim gögnum sem fyrir liggja. Að vísa í skort á stefnumótun til að forðast afstöðu er ekki í samræmi við ábyrgð verkefnisstjórnar samkvæmt lögum.

Brýn þörf á endurskoðun lagaramma

Viðskiptaráð Íslands ítrekar þá afstöðu sína að lög um verndar- og orkunýtingaráætlun þarfnist gagngerrar endurskoðunar. Ferlið er of tímafrekt, óskilvirkt og hefur ekki tryggt nægilega orkuöflun til að mæta raunverulegri orkuþörf samfélagsins. Ráðið hvetur stjórnvöld eindregið til að hraða endurskoðun laganna og einfalda regluverk þannig að hægt sé að auka orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum á ábyrgum og markvissum grunni.

Viðskiptaráð áskilur sér rétt til að koma á framfæri frekari athugasemdum og ábendingum á síðari stigum.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Sjá umsögn Viðskiptaráðs um drög verkefnastjórnar rammaáætluar að flokkun tíu vindorkukosta: https://vi.is/umsagnir/allir-orkukostir-i-bidflokk

2 Landsnet, Raforkuspá 2024-2050 (september 2024). Slóð: https://landsnet.is/library?itemid=bea0301d-c04b-4e94-8d18-2a7206bf85d4

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024