Erlend fjárfesting í ólíkum myndum getur haft jákvæð áhrif og aukið samkeppni á fjármálamörkuðum.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið til að veita umsögn um frumvarp um gjaldeyrismál. Eftir þær miklu breytingar sem hafa orðið á gjaldeyrisviðskiptum síðustu áratugi með þeim kaflaskilum sem urðu við afnám helstu fjármagnshafta er ærið tilefni til endurskoðunar laga um gjaldeyrismál. Viðskiptaráð hefur nýlega bent á að skortur sé á erlendri fjárfestingu hér á landi og að ráðast þurfi í ýmsar aðgerðir til að laða hingað erlenda fjárfestingu, sem hefur sjaldan verið mikilvægara en í núverandi atvinnuástandi.[1] Frumvarpið virðist aftur á móti taka lítið tillit til þess, auk þess hve mikilvægt er að íslenskir aðilar geti átt viðskipti með fjármagn yfir landamæri. Því gerir Viðskiptaráð eftirfarandi athugasemdir:
Ótvírætt mikilvægi erlendrar fjárfestingar
Í fyrrnefndri skoðun Viðskiptaráðs kemur fram að sökum takmarkana í fábrotnu fjárfestingarumhverfi á Íslandi sé erlend fjárfesting nauðsynleg. Fjárfestingargeta, -vilji og nauðsynleg þekking í fámenninu hér á landi er af skornum skammti. Óskynsamlegt er fyrir innlenda fjárfesta, t.d. lífeyrissjóði sem eru þeir umsvifamestu, að binda allar sínar eignir við eitt lítið hagkerfi. Sem mótvægi er nauðsynlegt að laða til landsins erlenda fjárfestingu, í atvinnulífinu og á ólíkum mörkuðum, með þeirri sérþekkingu sem oft fylgir. Dæmin um árangursríka erlenda fjárfestingu eru fjölmörg og hefur slík fjárfesting verið lykilþáttur í uppbyggingu allra helstu atvinnuvega landsins.[2]
Of strangar hömlur í gjaldeyrisviðskiptum eru til þess fallnar að draga úr erlendri fjárfestingu, en í frumvarpinu virðist ekki tekið nægilegt tillit til þess. Ekki er til dæmis einu orði vikið að beinni erlendri fjárfestingu, sem nokkur samhljómur virðist ríkja um, og rannsóknir sýna að felur í sér mun minni áhættu en t.d. verðbréfafjárfesting. Umhugsunarvert er að ráðist sé í heildstæða lagasetningu um fjármagnsviðskipti yfir landamæri, án þess að lagt sé sérstakt mat á fyrirkomulagið, sérstaklega með hliðsjón af erlendri fjárfestingu.
Ísland eftirbátur í beinni erlendri fjárfestingu – er tilkynningaskyldan ein af sökudólgunum?
Erlend fjárfesting í ólíkum myndum getur haft jákvæð áhrif og aukið samkeppni á fjármálamörkuðum. Sú tegund sem er þó hvað mikilvægust og hefur sem fyrr segir minni áhættu í för með sér er bein erlend fjárfesting. Í alþjóðlegu samhengi er bein erlend fjárfesting lítil hér á landi og takmarkanir mun meiri en gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur saman við (sjá mynd). Aðeins eru hömlurnar meiri í tveimur OECD ríkjum – Mexíkó og Nýja-Sjálandi.
Óþarfa ákvæði og léttúð gagnvart víðtækum fjármagnshöftum
Í 7. gr. er lagt til að festa í lög heimild Seðlabanka Íslands, að fengnu samþykki ráðherra, til að koma á fjármagnshöftum sambærilegum þeim sem sett voru á Íslandi haustið 2008 og tók næstum áratug að vinda ofan af. Í greinargerð virðast rökin fyrst og fremst vera þau hve vel tókst til með höftunum 2008 og hvernig í framhaldinu tókst að vinda ofan af þeim, nærri áratug síðar. Aftur á móti er skautað fram hjá þeim mikla kostnaði sem fólst í höftunum og fjallað með léttúð um það sem á að vera algjört neyðarúrræði og ætti aðeins að vera gripið til þegar engir aðrir valkostir eru í stöðunni. Rétt er að minna á að fjármagnshöftin voru sett á í nóvember 2008 með lagabreytingu Alþingis og ekki fæst því séð að nauðsynlegt sé að heimildin sé í lögum. Að lágmarki ætti að breyta 7. gr. þannig að setning fjármagnshafta sé ekki aðeins háð samþykki ráðherra heldur einnig meirihluta Alþingis. Þá er rétt að vara við því að tilvist þessa ákvæðis getur fælt frá fyrrnefnda og nauðsynlega erlenda fjárfestingu, sem aftur bendir til þess að ekki hafi verið horft til hennar við gerð frumvarpsins.
Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið verði endurskoðað með tilliti til ofangreindra athugasemda.
[1] Sjá skoðun Viðskiptaráðs um erlenda fjárfestingu: https://www.vi.is/skodanir/hradari-vidspyrna-med-erlendri-fjarfestingu
[2]Sjá grein um erlenda fjárfestingu:https://www.vi.is/greinar/otakmarkadir-moguleikar
[3] Sjá skoðun Viðskiptaráðs um regluverk: https://www.vi.is/skodanir/regluverk-a-islandi-er-of-ithyngjandi
[4]Viðtal við forstjóra Kauphallarinnar þar sem þetta kemur fram: https://www.frettabladid.is/markadurinn/greida-aetti-gotuna-til-ad-msci-horfi-til-islands/