Viðskiptaráð Íslands

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig á vorþingi?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála ríkisstjórnarinnar á fyrsta þingvetri hennar. Samtals höfðu 17 mál markverð efnahagsleg áhrif og eru heildaráhrif nokkuð jákvæð. Áhrifin voru mismunandi eftir ráðherrum, en þingmál Daða Más Kristóferssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, skiluðu jákvæðustum áhrifum.

Á nýafstöðnu þingi lagði ríkisstjórnin fram 96 lagafrumvörp og þingsályktunartillögur. Af þeim náðu 43 mál fram að ganga á Alþingi. Af þeim málum sem samþykkt voru höfðu 17 mál markverð efnahagsleg áhrif, ýmist jákvæð eða neikvæð, samkvæmt nýju mati Viðskiptaráðs.

Sala á Íslandsbanka jákvæðust en veiðigjöld neikvæðust

Alls höfðu 12 þingmál markverð jákvæð áhrif. Eitt mál var þar metið með veruleg jákvæð efnahagsleg áhrif á afstöðnu þingi, en það var sala ríkisins á eftirstandandi eignarhlut í Íslandsbanka. Jákvæð áhrif hennar eru mikil þegar kemur að opinberum skuldum, vaxtagreiðslum og heilbrigðri samkeppni á bankamarkaði. Önnur mál sem höfðu jákvæð efnahagsleg áhrif voru t.d. fækkun ráðuneyta um eitt og skuldauppgjör gamla Íbúðalánasjóðs, sem styrkir efnahag ríkissjóðs.

Alls voru 5 mál metin með markverð neikvæð áhrif. Þar vógu þyngst lög um veiðigjald, sem fela í sér veigamikla skattahækkun á fyrirtæki í sjávarútvegi. Önnur mál með neikvæð efnahagsleg áhrif voru t.d. lög um nýja ríkisrekna óperu, sem fela í sér varanlega útgjaldaaukningu sem mun vaxa á næstu árum, í andstöðu við hagræðingaráform ríkisstjórnarinnar. Þá voru áhrif af fjármálaáætlun og fjármálastefnu metin neikvæð þar sem skortur var á nægjanlegu aðhaldi og útfærðum hagræðingartillögum að mati ráðsins.

Í úttektinni fór Viðskiptaráð yfir öll þingmál ríkisstjórnarinnar sem náðu fram að ganga á nýafstöðnu vorþingi. Við mat á áhrifum skoðaði ráðið fyrst hvort þingmálið hefði áhrif á atvinnu- eða efnahagslíf. Ef svo var gaf ráðið málinu einkunn á kvarðanum 1 til 3 með jákvæðu eða neikvæðu formerki eftir því hvort efnahagslegu áhrifin eru lítil, miðlungs, eða mikil. Mál þingnefnda voru undanskilin í úttektinni auk þingmála vegna eldsumbrota á Reykjanesskaga.

Heildarniðurstaða liðins vorþings er að efnahagsleg áhrif þingmála ríkisstjórnarinnar hafi verið nokkuð jákvæð, eða sem nemur átta stigum samanlagt fyrir öll þingmálin á framangreindum kvarða.

Afdrifarík mál náðu ekki fram að ganga

Í ljósi þess að aðeins hálfur þingvetur var undir í úttektinni miðað við það sem hefðbundið er yfirfór Viðskiptaráð einnig þau stjórnarmál sem mælt var fyrir á vorþingi en náðu ekki fram að ganga. Þau mál voru 53 talsins og eru því rúmur helmingur þeirra 96 þingmála sem ríkisstjórnin lagði fram.

Á lista yfir jákvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu eru t.a.m. mál sem snúa að bættri raforkuöflun, einföldun leyfisferla við öflun raforku og viðskiptakerfi raforku sem og einföldun á regluverki varðandi viðurkenningu menntunar.

Á lista yfir neikvæð mál sem ekki hlutu afgreiðslu er m.a. að finna frumvarp um bindingu örorkulífeyris við launavísitölu, íþyngjandi kvaðir um tengda aðila í sjávarútvegi umfram aðrar atvinnugreinar og almenna skráningarskyldu húsaleigusamninga og takmörkun á breytingu leiguverðs.

Viðskiptaráð hvetur ríkisstjórnina til að leggja aftur fram þau þingmál sem hefðu efnahagslega jákvæð áhrif að mati ráðsins, en að endurskoða mál með neikvæð áhrif áður en þau verða lögð fram að nýju.

Einkunnagjöf þingmála (Excel)

Umfjöllun í fjölmiðlum

Tengt efni

Tvær af hverjum þremur loftslagsaðgerðum hafa neikvæð efnahagsleg áhrif

Viðskiptaráð hefur metið efnahagsleg áhrif 150 loftslagsaðgerða stjórnvalda. …
18. september 2024

Allt að 43% lægra matvöruverð án tolla

Afnám tolla myndi lækka verð á matvörum um allt að 43%. Þetta kemur fram í nýrri …
8. ágúst 2024

Hvernig stóð ríkisstjórnin sig í vetur?

Viðskiptaráð hefur gert úttekt á efnahagslegum áhrifum þingmála …
4. júlí 2024