Viðskiptaráð hefur veitt umsögn um breytingartillögu um virkjunarleyfi til bráðabirgða. Ráðið styður markmið hennar en telur jafnframt nauðsynlegt að hún taki einnig til virkjunarleyfa sem áður hafa verið samþykkt og lögfest verði sambærilega bráðabirgðaheimild vegna framkvæmdaleyfa til að koma í veg fyrir tafir á orkuöflun og innviðauppbyggingu. Lagt er til að stjórnsýsla orkumála verði einfölduð enn frekar til að tryggja skilvirkt leyfisveitingaferli.
Viðskiptaráð þakkar fyrir tækifærið að koma á framfæri athugasemdum við minnisblað umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytis [1], dags. 19. mars 2025, einkum breytingatillögu um virkjanaleyfi til bráðabirgða og vill koma á framfæri eftirfarandi athugasemdum.
Í minnisblaðinu er lögð fram breytingartillaga um virkjunarleyfi til bráðabirgða í stað flýtimeðferðar líkt og lagt var upp með í upphafi. Bráðabirgðaleyfi er enda háð því skilyrði að bætt verði úr ágöllunum áður en endanlegt leyfi hlýtur afgreiðslu. Ráðið tekur undir tillöguna en telur nauðsynlegt að bæta við 3. mgr. 4. gr. a. laganna:
„Skilyrði fyrir því að unnt sé að óska eftir bráðabirgðaheimild samkvæmt grein þessari er að fullnægjandi umsókn um virkjunarleyfi liggi fyrir eða hafi áður verið samþykkt af Umhverfis- og orkustofnun. Í umsókn um bráðabirgðaheimild skal tilgreina skýrt tilgang, ástæður og fyrirhugaðar aðgerðir á gildistíma heimildarinnar.“
Ef heimildin nær ekki til leyfa sem áður hafa verið samþykkt er hætt við að virkjunarleyfi sem hafa verið felld úr gildi með dómi og eru enn til meðferðar hjá æðra dómsvaldi falli ekki undir ákvæðið. Því lagalega séð er í raun ekki hægt að líta svo á að fullnægjandi umsókn liggi fyrir ef henni hefur verið hrundið með dómi og þá er ákvæði sem ætlað að skapa tímabundið svigrúm fyrir leyfishafa til þess að bregðast við annmörkum og/eða að láta reyna á lögmæti ógildingar leyfisins og með því koma í veg fyrir að framkvæmdir stöðvist í langan tíma að ósekju í raun gagnslaust.
Eins vill ráðið beina því til nefndarinnar að ef markmið frumvarpsins eiga að ná fram að ganga og það að styðja við stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um að auka orkuöflun, styrkja flutningskerfi og bæta orkunýtni. Með því að einfalda ferli leyfisveitinga, lögfesta tímafresti og láta verkefni í nýtingarflokki rammaáætlunar njóta forgangs í stjórnsýslu orkumála. [2] Er nauðsynlegt að gera jafnframt breytingar á framkvæmdaleyfum samkvæmt skipulagslögum nr. 123/2010. Hætt er við að framkvæmdaleyfi grundvölluð á á virkjunarleyfi sem hefur verið fellt úr gildi, falli jafnframt úr gildi. Sé veitt bráðabirgðaleyfi samkvæmt til lagðri breytingu þarf að vera heimilt að gefa út sambærilega heimild vegna framkvæmdaleyfa. Er þetta ekki síður mikilvægt vegna annarra framkvæmda líkt og innviðauppbyggingar eins og vegagerðar og flutningskerfa raforku
Viðskiptaráð fagnar þeirri viðleitni stjórnvalda sem birtist í frumvarpinu og hvetur til frekari einföldunar á leyfisveitingaferli vegna virkjanaframkvæmda og vísar í því sambandi til fyrri umsagna. [3]
Umsögnina í heild sinni má lesa hér.
1 Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið (mars 2025). Minnisblað að beiðni umhverfis- og samgöngunefndar um 89. Mál, Raforkulög og stjórn vatnamála. Slóð: https://www.althingi.is/altext/erindi/156/156-252.pdf
2 Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins (desember 2024). Slóð: https://www.stjornarradid.is/library/05-Rikisstjorn/Stjornarsattmali-S-C-F-21-desember-2024.pdf
3 Umsögn Viðskiptaráðs um skýrslu starfshóps um endurskoðun á lögum um rammaáætlun (janúar 2025). Slóð: https://vi.is/umsagnir/staersti-ovissuthattur-rammaaelunar-stendur-ohaggadur