Viðskiptaráð Íslands

Raforkuöryggi verður aðeins tryggt með aukinni framleiðslu og uppbyggingu

Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um frumvarp til breytinga á raforkulögum sem er ætlað að auka raforkuöryggi og veita heimilum og almennum notendum forgang. Viðskiptaráð ítrekar nauðsyn þess að almenningur og fyrirtæki búi við eins mikið raforkuöryggi og kostur er á. Þeim markmiðum verði þó aðeins náð með aukinni raforkuframleiðslu og uppbyggingu flutningskerfa raforku.

Eftirspurn eftir raforku hefur á undanförnum árum vaxið hraðar en framboð. Viðskiptaráð fagnar áherslu stjórnvalda á raforkuöryggi enda er næg raforka undirstaða verðmætasköpunar og velsældar þjóðarinnar. Nauðsynlegt er að bæði almenningur og fyrirtæki í landinu búi við eins mikið raforkuöryggi og kostur er á. Lagaákvæði munu þó ekki tryggja raforkuöryggi heldur mun það einungis nást með aukinni raforkuframleiðslu og uppbyggingar flutningskerfa raforku.

Með frumvarpinu er lagt til að almennir heimilisnotendur og þeirra sem stjórnvöld flokka sem mikilvæga samfélagslega innviði njóti forgangs samkvæmt lögum komi til skömmtunar raforku vegna óviðráðanlegra atvika, t.a.m. vegna framboðsskorts. Að mati ráðsins er þetta varhugavert ákvæði sem felur í sér skref frá markaðskerfi í átt að skömmtunarkerfi. Í slíku kerfi er hætta á að stjórnvöld mismuni ólíkum notendum raforku út frá pólitískum sjónarmiðum, sem grefur undan raforkukerfinu til lengri tíma litið. Að mati ráðsins felst í frumvarpinu ákveðið vantraust á markaðshagkerfið þótt sagan hafi margoft sýnt sé að það sé heppilegra fyrirkomulag en skömmtunaraðferðir til að tryggja gott aðgengi að takmörkuðum gæðum.

Frá eldra frumvarpi hafa verið gerðar breytingar í átt að einföldun forgangshópa þar sem smærri fyrirtæki eru ekki lengur nefnd sérstaklega sem forgangsnotendur heldur er áherslan á að dreifiveitur njóti ráðrúms til að útfæra skömmtun innan skýrra reglna. Fyrirtæki sem byggja afkomu sína á tryggri og fyrirsjáanlegri orku eru öll í jafnríkri þörf fyrir aðgang að henni. Þó er enn tiltekið í greinargerð með frumvarpinu að forgangur smærri fyrirtækja í tilviki skömmtunar verði bundinn í lög. Að mati Viðskiptaráðs er því óljóst hvort ætlun stjórnvalda sé að afnema þessa forgangsröðun að fullu eður ei. Þá telur ráðið enn ekki fyllilega skýrt hvenær megi grípa til þeirrar skömmtunar sem um ræðir og ítrekar fyrri ábendingar um að skömmtun verði aðeins beitt í ýtrustu neyð.

Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem er ætlað að greiða fyrir mögulegri þátttöku fleiri markaðsaðila en einungis framleiðenda í jöfnunarorkumarkaði Landsnets. Ísland er á frumstigum virks viðskiptavettvangs með raforku en Landsnet rekur markað fyrir jöfnunarorku sem er m.a. ætlað að stilla saman raforkuframleiðslu og raforkuþörf á hverjum tíma. Á þeim markaði gefur verðþróun til kynna að kerfislæg breyting hafi átt sér stað á undanförnum árum þar sem raforkuverðið hefur bæði hækkað og breytileiki þess aukist. Hann gefur ákveðnar vísbendingar um að skortur á raforku sé í uppsiglingu vegna aukinnar eftirspurnar samfara óbreyttu framboði. Að mati Viðskiptaráðs mun virkur viðskiptavettvangur með raforku verða til mikilla bóta þar sem verðmerki skila sér ekki til neytenda með núverandi fyrirkomulagi. Það fyrirkomulag dregur úr skilvirkni og ýtir undir sóun í kerfinu. Skipulagður viðskiptavettvangur mun auka orkuöryggi í formi aukins sparnaðar í kerfinu og skilvirkrar ráðstöfunar en einnig stuðla að aukinni framleiðslu.

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024