Viðskiptaráð Íslands

Rammaáætlun hindrun í nauðsynlegri orkuöflun

Rammaáætlun hefur hvorki leitt til aukins gagnsæis né sáttar í samfélaginu um orkunýtingu. Þvert á móti hefur kerfið skapað óvissu, tafir og hindranir í nauðsynlegri orkuöflun til að tryggja betri lífskjör. Viðskiptaráð telur brýnt að löggjafinn endurmeti grundvallarforsendur kerfisins og tryggi skilvirkara, einfaldara og betur ígrundað regluverk um orkunýtingu til framtíðar.

Viðskiptaráð hefur komið á framfæri athugasemdum við ofangreint frumvarp til breytinga á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun. Ráðið skilaði umsögn um málið á síðasta löggjafarþingi og vísar til efnis hennar[1]. Þá ítrekar ráðið þá afstöðu sína að afnema eigi lög um rammaáætlun í heild sinni.

Viðskiptaráð telur að rammaáætlun, eins og hún hefur verið útfærð og framkvæmd, hafi hvorki leitt til aukins gagnsæis né sáttar í samfélaginu um orkunýtingu. Þvert á móti hefur kerfið skapað óvissu, tafir og hindranir í nauðsynlegri orkuöflun til að tryggja betri lífskjör. Þá byggja lögin á úreltri norskri fyrirmynd sem hefur verið aflögð og ekkert sambærilegt kerfi þekkist í þeim löndum sem Ísland ber sig jafnan saman við. Í Evrópu er þvert á móti lögð áhersla á að einfalda regluverk og greiða fyrir aukinni orkuframleiðslu.

Viðskiptaráð telur eðlilegra að orkuvinnsla lúti sömu meginreglum og önnur atvinnustarfsemi í landinu, meðal annars í gegnum lög um umhverfismat fram­kvæmda og áætlana, lög um náttúruvernd, skipulagslög og önnur almenn fram­kvæmdalög. Fyrirvara mætti gera um að allra stærstu og flóknustu virkjanir þurfi samþykki Alþingis, en að öðru leyti falli málsmeðferð undir hefðbundna stjórnsýslu og lögbundið samráð.

Frumvarpið felur í sér ýmsar umbætur, til að mynda sameinað samráðsferli og styttri tímafresti sem eru til bóta og eiga að auka skilvirkni. Að mati ráðsins er þó miður að dregið hafi verið verulega úr upphaflegum tillögum sem fólust í fyrra frumvarpi með breytingartillögum meirihluta nefndarinnar hvað varðar styttingu tímafresta og telur núverandi frumvarp ekki ganga nægilega langt að því leyti.

Þá er með frumvarpinu ekki bætt úr þeim grundvallarannmarka á fyrirkomulagi rammaáætlunar sem lýtur að aðkomu ráðherra og Alþingis að afgreiðslu verkefnisstjórnar. Því er ferlið áfram óskýrt, þungt í vöfum og skapar verulega óvissu. Aðkoma ráðherra og þingsins hefur verið helsta orsök tafa á afgreiðslu virkjunarkosta og er jafnframt þáttur sem hvorki er kæranlegur né endurskoðanlegur eftir hefðbundnum leiðum stjórnsýsluréttar. Þá hefur eftirlitsstofnun EFTA nýlega gert athugasemdir við virkni rammaáætlunar, ekki síst út frá pólitískum afskiptum af flokkun virkjanakosta og ólögmætra sjónarmiða að baki flokkuninni.[2]

Ráðið lýsir einnig yfir áhyggjum af því að frumvarpið geri ekki ráð fyrir efnahagslegu mati á virkjunarkostum, sem þó er lykilforsenda hagkvæmrar nýtingar náttúru­auðlinda. Þá vantar í frumvarpið skýrar skilgreiningar á áhrifasvæðum virkjana, sem leiðir til mismunandi túlkunar og óvissu í ákvörðunarferlum.

Viðskiptaráð leggur til að frumvarpið nái fram að ganga með fyrirvara um fyrrgreindar athugasemdir.

Umsögnina í heild sinni má lesa hér.

Tilvísanir

1 Sjá umsögn VÍ um frumvarp til laga um breytingu á lögum um verndar- og orkunýtingaráætlun (apríl 2025): Slóð: https://vi.is/umsagnir/rammaaetlun-reynst-dragbitur-a-framgang-naudsynlegra-orkuskipta

2 Umræður um þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða (mars 2025).101. mál á 9. fundi, 156. löggjafarþings. Slóð: https://www.althingi.is/altext/upptokur/lidur/?lidur=lid20250303T155050

Tengt efni

Dregið úr stuðningi við nýsköpun

Nýir og hærri skattar eru lagðir til í bandorminum svokallaða, sem eru …
22. október 2024

Afnema ætti ríkiseinokun og auglýsingabann

Íslensk áfengislöggjöf mismunar innlendum fyrirtækjum samanborið við erlend …
15. október 2024

Missum ekki sjónar á hagsmunum neytenda

Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að missa ekki sjónar á því að hagur neytenda …
10. október 2024