26. nóvember 2014
Viðskiptaráð Íslands hefur skilað inn umsögn til efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um yfirskattanefnd. Með frumvarpinu er m.a. lagt til að yfirskattanefnd taki við verkefnum ríkistollanefndar og ríkistollanefnd verði lögð niður. Þá kveður frumvarpið á um að fellt verði brott skilyrði í lögum um virðisaukaskatt um að ágreining um skattskyldu og skattfjárhæð virðisaukaskatts megi einungis bera undir dómstóla ef yfirskattanefnd hefur áður úrskurðað um ágreininginn. Einnig er lagt til að skýrt verði kveðið á um það í lögum að bera megi ákvarðanir um alla þætti skattamála undir dómstóla.
Í umsögninni kemur m.a. eftirfarandi fram:
- Að mati ráðsins ætti að stytta þann frest sem stjórnvald hefur til að skila umsögn um kæru til yfirskattanefndar í 30 daga. Enn fremur ætti að skylda stjórnvald til að tilkynna það til yfirskattanefndar svo fljótt sem auðið er ef það hyggst ekki veita umsögn um mál. Slíkar breytingar væru til þess fallnar að stytta málsmeðferðartíma fyrir nefndinni.
- Viðskiptaráð tekur undir sjónarmið þess efnis að væru fleiri úrskurðir yfirskattanefndar birtir mætti ætla að málum hjá henni myndi fækka þegar skattaðilum yrði ljóst hvernig lögum hefði verið beitt í sambærilegum málum hjá nefndinni.
- Að mati ráðsins fylgir ekki einungis óvissa um framkvæmd skattalaga vegna þess ógagnsæis sem hefur ríkt um úrskurði yfirskattanefndar heldur hallar á skattaðila í samskiptum við stjórnvöld af þessum sökum.
- Viðskiptaráð hefur fengið ábendingu um að í einhverjum tilvikum hafi stjórnvöld grundvallað niðurstöður sínar í deilumálum við borgara á úrskurði yfirskattanefndar sem ekki var birtur almenningi. Enn fremur hefur ríkisskattstjóri vísað til óbirtra úrskurða í málatilbúnaði sínum. Núverandi fyrirkomulag veldur því aðstöðumun á kostnað almennra borgara og eykur auk þess hættu á misjafnri meðferð sambærilegra mála.
Viðskiptaráð tekur undir markmið lagafrumvarps þessa og telur breytingarnar sem það kveður á um vera til bóta. Ráðið telur þó rétt að efnahags- og viðskiptanefnd beiti sér fyrir því að lögum um yfirskattanefnd verði breytt þannig að unnt verði að stytta málsmeðferðartíma og að yfirskattanefnd verði skylt að birta alla úrskurði sína.
Umsögnina má í heild sinni nálgast hér