DRIVING SUSTAINABILITY ´08 - Alþjóðleg ráðstefna um orkugjafa framtíðar í samgöngum, 18. og 19. september 2008
Ísland er leiðandi í notkun á endurnýjanlegri orku en um 80% af allri orkunotkun í landinu kemur frá vatnsafli og jarðvarma.
Sjálfbærar samgöngur er næsta skref.
Í ljósi niðurstöðu ráðstefnunnar í fyrra, forystu Íslands í framleiðslu rafmagns úr endurnýjanlegri orku og nýlegra yfirlýsinga frá öllum helstu bílaframleiðendum heims um væntanlega rafmagnsbíla á markað, verður sérstök áhersla lögð á rafmagn í samgöngum á ráðstefnunni í ár.
Ræðumenn á heimsmælikvarða munu m.a. fjalla um byltingu í þróun á rafhlöðum fyrir farartæki og áætlanir bílaframleiðenda um að setja tengil-tvinnbíla (plug-in hybrid) og rafmagnsbíla á markað. Einnig verða kynnt verkefni um rafvæðingu í samgöngum í stórborgum s.s. New York, London, Stokkhólmi og Kaupmannahöfn.
DS´08 ráðstefnan mun veita þátttakendum gott tækifæri til að byggja upp alþjóðlegt tengslanet sérfræðinga, ráðamanna, fyrirtækja og framleiðenda á þessu sviði.
Forseti Íslands og verndari ráðstefnunnar, Ólafur Ragnar Grímsson, mun setja ráðstefnuna þann 18. september. Bertrand Piccard vísindamaður og frumkvöðull hjá Solar Impulse mun deila framtíðarsýn sinni á sjálfbærum samgöngum en hann hyggst fljúga á sólarraforkuknúinni flugvél umhverfis heiminn árið 2011.
Af öðrum ræðumönnum má nefna Iðnaðarráðherra Íslands, Umhverfisráðherra Íslands, stofnanda A123 Systems framleiðanda á líþíum-ion rafhlöðum fyrir bíla, VP fyrir Evrópumál hjá Toyota Europe, yfirmann orkugeymslu og rannsókna hjá Ford Motor Company USA, verkefnisstjóra Vattenfall Energy í Svíþjóð sem stýrir "plug-in" samstarfsverkefni Vattenfall, Saab, Volvo og ETC Battery og Fuel Cells, yfirmann verkefna með vistvænu eldsneyti hjá New York City og yfirmann og forstöðumann R&D hjá Dong Energy í Danmörku.
Kraftmesta rafmagnsmótorhjól heims, Killacycle, verður kynnt á Íslandi - fyrsta kynningin á hjólinu út fyrir landsteina Bandaríkjanna.
Bill Dubé, hönnuður og framleiðandi Killacycle, heldur tölu um gerð hjólsins og sýningu á eiginleikum þess.
Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna hér.
Aðildarfélögum Viðskiptaráðs býðst að taka þátt í ráðstefnunni gegn afslætti af ráðstefnugjöldum, kr. 53.100 fyrir einn miða og kr. 49.900 ef keyptir eru fleiri en einn miði. Venjulegt verð fyrir miða er kr. 59.900.