Þeir tveir aðilar sem eru hvað stærstir í framleiðslu á eigin mjólkurafurðum eru þegar búnir að sprengja það 10.000 lítra mark sem lagt er til í frumvarpi til laga um breytingar á lögum um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Holtsel, sem framleiðir ís og jógúrt, áætlar að nýta um það bil 15.000 lítra til framleiðslu á þessu ári miðað við sölu það sem af er árinu og er það ennþá 5.000 lítrum undir hámarksafköstum. Erpsstaðir, sem framleiðir ís, skyr og osta, framleiðir nú þegar úr um 20 - 30.000 lítrum og áætlar að þegar fullt skrið er komið á framleiðslu sé um að ræða 30 - 40.000 lítra framleiðslu, og þá er ekki talið með öll sú mjólk sem fer í vöruþróun. Þessi býli eru bæði tiltölulega nýbyrjuð í sinni starfsemi og strax hafa þau sprengt það svigrúm sem breytingum á lögunum er ætlað að veita.
Þróun og framleiðsla á eigin vörum
Um þetta er fjallað í umsögn sem Viðskiptaráð hefur sent Alþingi vegna fyrrgreinds frumvarps. Í frumvarpinu felst sú breyting að sett er inn sérstök heimild til handa mjólkurbændum til að framleiða afurðir utan greiðslumark og hafa þeir til þess 10.000 lítra svigrúm. Sú hugmynd sem hér liggur að baki virðist vera að veita svigrúm fyrir þá vöruþróun sem hefur átt sér stað á mjólkurbýlum og markaðssetningu á vörum framleiddum þar, t.d. ís, skyr og osta.
Nefndarálit sem var birt af sjávarútvegs- og landbúnaðarnefnd 23. júní síðastliðinn leggur svo fram tillögu um hækkun þessa marks í 15.000 lítra. Þessi heimild er sett inn, að því er virðist, til að fella undir lögin heimild sem mjólkurbændur hafa haft án lagabókstafs til að þróa og framleiða eigin vörur.
Afnema þarf hámark
Væntanlega hefur hugmyndin með þessari breytingu verið að styðja þá nýsköpun sem á sér stað meðal mjólkurframleiðenda en því miður virðist þar að baki vera takmörkuð þekking á þeirri framleiðslu sem fram fer hjá mjólkurbændum.
Munu þessar breytingar því frekar hindra þá nýsköpun sem er að blómstra meðal framleiðenda en að ýta undir hana. Ef ætlun með breytingum í frumvarpinu er að styðja nýsköpun og framleiðslu beint frá býli verður að afnema hámark í lögunum og bændum veitt það traust að meta sjálfir hvernig sinni framleiðslu er best háttað. Umsögnina í heild sinni má nálgast hér.