Viðskiptaráð Íslands

190 skráðir á Peningamálafund Viðskiptaráðs

Í fyrramálið fer fram á Hilton Nordica hinn árlegi Peningamálafundur Viðskiptaráðs. Yfirskrift fundarins að þessu sinni er Peningastefna í hafti: Flýtur krónan aftur? og verður Már Guðmundsson, Seðlabankastjóri, aðalræðumaður fundarins.

Mun Seðlabankastjóri ræða stöðu efnahagsmála en gera má jafnframt ráð fyrir að miklar umræður skapist á fundinum um nýlega yfirlýsingu bankans um gjaldeyrishöftin. Yfirlýsing þessi var gefin út samhliða útgáfu Peningamála til að útskýra stefnuramma og núverandi áform varðandi afnám haftanna. Í henni kemur m.a. fram að:

  • Nauðsynlegt geti reynst að endurskoða áætlun frá því ágúst 2009 um afnám haftanna í ljósi breyttra aðstæðna og þeirrar reynslu sem hefur fengist.
  • Endurskoðuð áætlun þýði ekki fráhvarf frá því takmarki að afnema gjaldeyrishöftin á komandi misserum, heldur sé viðurkennd þörf til að endurmeta hvernig þeim verði aflétt.
  • Aðgerðir til að undirbúa afgerandi afnám hafta á fjármagnsútflæði gætu litið dagsins ljós áður en ný áætlun verður kynnt, t.a.m. með skipulögðum uppboðum, skiptum og opnun frekari möguleika til fjárfestinga hérlendis.
  • Þessi skref í átt að afnámi gætu litið dagsins ljós fyrir árslok en ekki er raunhæft að önnur skref verði stigin dragist það til áramóta að bæta úr hugsanlegri vöntun á eigin fé í bankakerfinu.
  • Engar grundvallarbreytingar verða gerðar á núverandi reglum um gjaldeyrishöftin fyrr en í mars 2011 þótt endurskoðuð áætlun verði tilbúin fyrr.

Í yfirlýsingu bankans kom jafnframt fram að núverandi áætlun um afnám haftanna byggi á nokkrum meginskilyrðum. Þar vega þjóðhagslegur stöðugleiki (sjálfbær ríkisfjármál, minnkandi verðbólga), traust fjármálakerfi og gjaldeyrisforðinn þyngst.  Samkvæmt Seðlabankastjóra eru tvö af þessum þremur skilyrðum uppfyllt, en traust fjármálakerfi er ekki fyrir hendi. Í ljósi nýlegra yfirlýsinga forsætisráðherra um endurskoðun á niðurskurði opinberra útgjalda má ljóst vera að fyrsta skilyrðinu gæti verið stefnt í voða. Því má einnig gera ráð fyrir umræðum um framvindu meginskilyrða fyrir afnámi haftanna.

Þátttakendur í pallborði Peningamálafundarins eru Arnór Sighvatsson aðstoðarseðlabankastjóri, Ásgeir Jónsson aðalhagfræðingur Arion banka, Benedikt Jóhannesson ritstjóri Vísbendingar og Kristín Pétursdóttir forstjóri Auðar Capital. Umsjón með pallborðsumræðum er í höndum Þórðar Friðjónssonar, forstjóra Nasdaq OMX Ísland. Fundurinn hefst kl. 8:15 og stendur til kl. 10:00 á Hilton Reykjavík Nordica (Salur H/I).

Fundargjald er kr. 3.500 með morgunverði sem hefst kl. 8:00.

Fundurinn er öllum opinn.

Nýja útgáfu Peningamála má nálgast hér og yfirlýsing bankans um höftin hér.

Nánari upplýsingar um fundinn má nálgast hér.


 

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024