Frá árinu 2007 hafa verið gerðar 176 breytingar á skattkerfinu. Breytingarnar skiptast í 44 skattalækkanir og 132 skattahækkanir. Fyrir hverja skattalækkun hafa því skattar verið hækkaðir þrisvar sinnum. Þetta eru niðurstöður uppfærslu á yfirliti Viðskiptaráðs Íslands yfir skattabreytingar undanfarinna ára.
Undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld undið ofan af óhagfelldri þróun skattkerfisins árin á undan. Boðaðar aðgerðir um lækkun og einföldun tekjuskatta ásamt afnámi tolla á fatnað og skó eru í því samhengi fagnaðarefni. Það er von Viðskiptaráðs að stjórnvöld haldi áfram að lækka skatta á ný á komandi árum.
Veigamestu breytingarnar frá árinu 2007 eru eftirfarandi:
Jákvæð þróun síðastliðin tvö ár
Jákvæð þróun hefur átt sér stað síðastliðin tvö ár (mynd 1). Annars vegar hafa skattalækkanir í fyrsta sinn verið jafn margar eða fleiri en hækkanir og hins vegar fækkaði breytingum verulega árið 2015. Síðastliðin tvö ár hafa verið gerðar 23 skattalækkanir og 12 skattahækkanir. Árið 2014 var fyrsta skiptið sem skattalækkanir voru fleiri en skattahækkanir frá því að úttektin var fyrst framkvæmd.
Auka þarf einfaldleika og fyrirsjáanleika í skattheimtu
Sá mikli fjöldi breytinga sem átt sér hefur stað skapar óhagfellt umhverfi fyrir verðmætasköpun. Tíðar skattahækkanir draga úr fyrirsjáanleika við rekstur fyrirtækja og fjárhagslega áætlanagerð einstaklinga. Auk þess hafa fjölmargir nýir skattar verið innleiddir á undanförnum árum sem eykur flækjustig skattkerfisins og dregur þannig úr gagnsæi. Afleiðing þess er að einstaklingar eru ekki jafn meðvitaðir og áður um þann kostnað sem þeir bera vegna skattgreiðslna.
Undanfarin tvö ár hafa stjórnvöld hugað í auknum mæli að skattalækkunum og undið þannig ofan af óhagfelldri þróun undanfarinna ára. Fjárlög síðastliðinna tveggja ára sem ásamt áformum um umfangsmiklar skattalækkanir tekjuskatts og tolla í tengslum við nýja kjarasamninga eru í því samhengi fagnaðarefni. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld til að halda áfram á þessari braut og styrkja þannig enn frekar forsendur aukinnar verðmætasköpunar og bættra lífskjara á komandi árum.