Samkomulag um úrvinnslu skuldamála lítilla og meðalstórra fyrirtækja hefur nú verið undirritað, en með því er ætlunin að flýta fjárhagslegri endurskipulagning um 6.000 fyrirtækja í bankakerfinu. Að því standa efnahags- og viðskiptaráðuneytið, Félag atvinnurekenda, fjármálaráðuneytið, Samtök atvinnulífsins, Samtök fjármálafyrirtækja og Viðskiptaráð Íslands. Úlfar Steindórsson, forstjóri Toyota á Íslandi og stjórnarmaður í Viðskiptaráði Íslands, skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd ráðsins í Rúgbrauðsgerðinni í dag. Samkomulagið verður kynnt á opnum fundi á Grand Hótel Reykjavík föstudaginn 17. desember kl. 8.30-10.00.
Viðskiptaráð hefur opnað upplýsingavef um samkomulagið
Á upplýsingavef Viðskiptaráðs er að finna spurningar og svör tengd samkomulaginu. Fyrirtæki eru hvött til að kynna sér efni þess og leita til síns fjármálafyrirtækis eftir nánari upplýsingum og endurskipulagningu á grunni samkomulagsins. Á síðunni eru tilgreind fyrirtæki sem eru reiðubúin að aðstoða í þeirri umleitan. Upplýsingavefur Viðskiptaráðs er aðgengilegur hér.
Fyrirtæki aftur gerð að raunverulegum þátttakendum í hagkerfinu
Finnur Oddsson framkæmdastjóri Viðskiptaráðs telur að úrlausn skuldavanda lítilla og meðalstórra fyrirtækja miði að því að gera fjölda fyrirtækja, sem búið hafa við verulega óvissu, aftur að raunverulegum þátttakendum í hagkerfinu. Um samkomulagið segir Finnur: „Þetta er líklega ein stærsta, framkvæmanlegasta efnahagsaðgerðin sem völ er á við núverandi aðstæður og líklegt að hún hafi veruleg jákvæð áhrif á umsvif í hagkerfinu og gagnist þannig bæði íslenskum heimilum og atvinnulífi.“
Breið samstaða er um samkomulagið og fagnar Árni Páll Árnason, efnahags- og viðskiptaráðherra, því að samkomulagið sé nú í höfn. Hann hvetur jafnframt alla ábyrga aðila í íslensku atvinnulífi til að leggjast á árarnar svo sem flest atvinnufyrirtæki stígi skrefið úr skuldaflækju inn á beina braut sköpunar atvinnutækifæra og verðmæta. Þá undirstrikar hann eftirfarandi: „Ríkisstjórnin vill standa við bakið á atvinnulífinu í landinu, þetta er eitt skref af mörgum framundan.
Morgunverðarfundur um samkomulagið á föstudag
Samkomulagið verður kynnt stjórnendum lítilla og meðalstórra fyrirtækja á opnum morgunverðarfundi á föstudaginn. Fundurinn fer fram í Gullteig á Grand Hótel, en boðið verður upp á léttan morgunverð frá kl. 8:00. Skráning á morgunverðarfundinn fer fram hér.
Tengt efni: