Samkvæmt úttekt IMD á samkeppnishæfni Íslands hefur hætta á spekileka (e. brain drain) aukist verulega á Íslandi á milli ára. Ísland hrapar á listanum hvað þennan málaflokk varðar og fellur mest um 25 sæti, niður í 31. sæti af 59, þegar kemur að hættu á brottflutningi rannsóknar- og þróunarstarfs.
Undir lok 19. aldar fluttust um 15.000 Íslendingar til Ameríku í von um bætt lífskjör. Af þessu fólki fluttust einungis um 5-10% aftur til Íslands, en flestir komu aldrei aftur.1 Fórnarkostnaður samfélagsins vegna þessa brottflutnings er ómældur, en ljóst er að Íslenskt samfélag væri bæði stærra og fjölbreyttara ef til hans hefði ekki komið.
Vísbendingar eru um að svipuð þróun gæti nú verið að hefjast. Megin ástæða spekileka er atvinnuleysi, sem er í hæstu hæðum, og samkeppnishæfni landsins hefur ekki verið minni um langa hríð. Tækni- og iðnaðarmenn flytjast af landi brott, stór nýsköpunarfyrirtæki flytja starfsemi sína í auknum mæli erlendis og einungis þriðjungur læknanema í námi erlendis áformar að snúa aftur heim. Hættumerkin eru því til staðar.
Brottflutningarnir undir lok 19. aldar stöðvuðust ekki fyrr en fjárfestingar í sjávarútvegi til vélvæðingar skipaflotans komu atvinnulífinu aftur í gang. Á sama hátt er Ísland nú í neðsta flokki hvað fjárfestingu í atvinnulífi varðar. Til að koma í veg fyrir að brottflutningur Íslendinga verði alvarlegt vandamál hérlendis er því nauðsynlegt að stórefla fjárfestingar hérlendis ásamt því að bæta aðra þætti í samkeppnishæfni landsins.
Samfélag Vestur-Íslendinga í Norður Ameríku er dýrmæt söguleg arfleifð og okkur Íslendingum um margt hugleikið. Hinsvegar er ljóst að betra væri að brottfluttum fjölgaði á öðrum forsendum en að neyðast til að flytja frá Íslandi vegna atvinnuleysis.
Niðurstöður úttektar IMD á samkeppnishæfni þjóða fyrir árið 2011 má finna hér.