Gestur G. Gestsson, forstjóri Advania, fjallaði á Viðskiptaþingi, sem nú stendur yfir, um virði tenginga og gagnavera. Gagnaver er í grunninn bara húsl, sagði Gestur, sem þarf gríðarlega mikið afl og er meðalgagnaver að kaupa rafmagn fyrir ca. 600 mkr. ári og bandvídd fyrir 700 mkr. á ári. Í gagnaveri verða til 20 bein störf og 100 afleidd störf.
Gestur sagði markaðinn fyrir gagnaver gífurlega stórann og fara stækkandi. Landsvirkjun hefur lagt til að Ísland sæki 1% af Evrópumarkaði á næstu árum sem Gestur tók undir. Að mati Gests ætti þetta að takast út af orkunni hér á landi, sem er græn, og "ókeypis" kælingu, þ.e. á Íslandi verður sjaldan yfir 20 gráðu heitt. Gestur minnti þó á að þessir þættir tryggðu ekki að erlendir aðilar biðu hér í röðum eftir að fá að byggja gagnaver. Samkeppnin er alþjóðleg og við höfum orðið undir. Tiltók Gestur tvö dæmi þar um en Google ákvað nýlegae að fara til Finnlands og Facebook fór til Svíþjóðar. Forsvarsmenn beggja fyrirtækja höfðu a.m.k. komið tvisvar til Íslands til að skoða aðstæður.
"Til að ná markmiðinu þurfa menn því að leggjast á eitt, hætta að rífast og stækka kökuna. Laga þarf samkeppnisumhverfið. Ekki með ívilnunum heldur jöfnun samkeppnisskilyrða við önnur lönd." sagði Gestur.