Viðskiptaþing 2025 fór fram þann 13. febrúar í Borgarleikhúsinu. Upptaka frá þinginu er nú aðgengileg, þar sem hægt er að sjá erindi allra fyrirlesara sem tóku þátt í ár, ásamt pallborðsumræðum.
Þingið hófst á erindi Andra Þórs Guðmundssonar, formanns Viðskiptaráðs. Næst steig á svið sænski rithöfundurinn og fræðimaðurinn Johan Norberg, sem fjallaði um mikilvægi efnahagslegs frelsis í stærra samhengi. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, var síðust á svið fyrir hlé og hélt erindi um hvernig megi skapa forskot í rekstri hins opinbera.
Að loknu hléi ávarpaði Kristrún Frostadóttir, forsætisráðherra, þingið. Hún fjallaði um áherslur ríkisstjórnarinnar í málefnum atvinnulífsins og lýsti yfir vilja til samstarfs. Síðasta erindi þingsins flutti Róbert Wessman, stjórnarformaður og forstjóri Alvotech, þar sem hann kynnti rekstur fyrirtækisins og setti hann í samhengi við frumkvöðlaumhverfið á Íslandi.
Þinginu lauk með pallborðsumræðum þar sem Hanna Katrín Friðriksson, atvinnuvegaráðherra, Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sátu fyrir svörum. Björn Brynjúlfur Björnsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, stýrði fundi og umræðum.
Upptöku frá þinginu má spila hér að neðan og á Youtube.