Í gær fór fram sannkallað hugmyndastefnumót þegar valdir félagar í Viðskiptaráði buðu fjölbreyttum hópi sprotafyrirtækja til kvöldverðar. Eigendur Epal tóku á móti gestum í því frjóa andrúmslofti sem ríkir í verslun þeirra, en þar hefur í áraraðir verið boðið upp á hönnun víðsvegar að úr heiminum. Verslunin er uppfull af dæmum sem minna á að með réttri framkvæmd geta litlar hugmyndir orðið að þekktum vörum sem rata inn á heimili og fyrirtæki í öllum heimshornum.
Viðskiptaráð og Innovit nýsköpunar- og frumkvöðlasetur hafa síðustu tvö ár staðið að kvöldverðarfundum sem þessum undir yfirskriftinni Ný-sköpun-Ný-tengsl. Þar hitta reynslumiklir stjórnendur áhugasama frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri. Á þessum vettvangi gefst félögum ráðsins færi á að nýta reynslu sína og þekkingu til stuðnings frumkvöðlum og sprotastarfi.
Sprotar leita í reynslubanka „mentora“
Kvöldverðinn í gær sóttu fulltrúar frá eftirfarandi sprotafyrirtækjum: Cloud Engineering, Designing Reality, Kasy, Live Shuttle, Markaðsmál á Mannamáli, MusikMusik, Reykjavík Runway, MYMXLOG, StreamTags og Xperious. Þetta er í fimmta skiptið sem þessir kvöldverðir eru haldnir og hafa á þeim skapast mikilvæg tengsl á milli „mentora“ og sprota. Eins og heyra mátti á umræðum meðal gesta í gær er þetta kjörin vettvangur fyrir sprota til að leita í reynslubanka þeirra sem hafa langa reynslu úr viðskiptalífinu.
Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið skapa farveg fyrir félaga Viðskiptaráðs til að leggja sitt á vogarskálarnar í uppbyggingu atvinnulífsins. Með þessu nýtist reynsla fyrri kynslóða í atvinnulífi þeim síðari, bæði fyrirtækjum og samfélagi til hagsbóta. Viðskiptaráð þakkar sérstaklega þeim félögum sem studdu við verkefnið og tóku þátt sem „mentorar“ að þessu sinni.
Mikilvægur hluti af stefnu Viðskiptaráðs lýtur að stuðningi við nýsköpunar- og sprotastarf og það er félögum mikils virði að geta aðstoðað við þroska og uppbyggingu nýrra sprotafyrirtækja og aðstandenda þeirra - með rýni, ráðum og tengslamyndun. Þetta er einmitt afrakstur nýsköpunar- og tengslakvöldverða Viðskiptaráðs og Innovit. Að auki eru kvöldin frábær vettvangur innblásturs og skemmtunar. Mér er til efs að það sé algengt að jafn sprækur hópur eldhuga komi saman, í jafn frjóu og aðlaðandi umhverfi og Epal er, til að ræða sameiginlegt hugðarefni; framgöngu nýrra viðskiptahugmynda.“ - Finnur Oddsson, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs.
Fámenni okkar Íslendinga og þar með nálægð við æðstu stjórnendur í atvinnulífinu sem eru reiðubúnir að deila sinni reynslu getur verið einn af okkar lykilstyrkleikum. Öll fyrirtæki voru eitt sinn einungis hugmynd. Á fyrri stigum geta tengingar við réttan aðila eða almenn góð ráð skipt sköpum fyrir ný fyrirtæki vaxandi fyrirtæki. Eitt af markmiðum okkar hjá Innovit, nýsköpunar og frumkvöðlaseturs er að stuðla að aukinni tengslamyndun milli nýrra fyrirtækja og þeirra reynslumeiri. Viðburður gærdagsins, „mentora" kvöldverður, er kjörinn vettvangur fyrir slíkt sem við erum stolt að hafa unnið að í samstarfi við Viðskiptaráð Íslands frá upphafi“
- Kristján Freyr Kristjánsson, framkvæmdastjóri Innovit.
Hér að neðan má nálgast myndir frá kvöldverðinum í flickr myndasafni Viðskiptaráðs:
Tengt efni: