Viðskiptaráð hefur skilað inn umsögn um þingsályktunartillögu um breytingu á þingsályktun um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða. Viðskiptaráð undirstrikaði í umsögninni þá afstöðu sína að orkuöflun verði að aukast í takt við vöxt íslensks samfélags ef lífskjör á Íslandi eiga ekki að gefa eftir og hvatti stjórnvöld eindregið til að halda virkjanakostum frekar í biðflokki á meðan unnið er að endurskoðun rammaáætlunar.
Með þingsályktunartillögunni er gert ráð fyrir tilfærslu á virkjanakostum frá fyrri áætlun. Ráðið tekur ekki afstöðu til einstakra virkjanakosta en vildi koma eftirfarandi sjónarmiðum á framfæri.
Næg raforka er undirstaða verðmætasköpunar og velsældar þjóðarinnar. Orkuöflun verður að aukast í takt við vöxt íslensks samfélags ef lífskjör á Íslandi eiga ekki að gefa eftir. Hvergi í heiminum fyrirfinnst ríki sem býr við góð lífskjör og litla orkunotkun. Við núverandi aðstæður, þegar stjórnvöld hafa lýst því yfir að endurskoðun standi yfir með það fyrir augum að hraða orkuöflun, skýtur skökku við að færa virkjunarkosti í verndarflokk. Sérstaklega þar sem tilfærslan hefur aðrar og víðtækari afleiðingar nú en þegar rammaáætlun var fyrst lögfest.
Ákvarðanir varðandi flokkun virkjanakosta þurfa að taka mið af þeim áskorunum sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir í orkumálum. Viðskiptaráð hvetur stjórnvöld eindregið til að halda virkjanakostum frekar í biðflokki á meðan unnið er að endurskoðun rammaáætlunar, enda veitir hann svigrúm til frekari rannsókna og endurmats á virkjanakostum. Verndarflokkun getur aftur á móti gert endurskoðun og endurmat á virkjanakostum örðugri.