Stjórnendur HB Granda tóku í gær á móti gestum á tengslakvöldi í höfuðstöðvum fyrirtækisins á Norðurgarði í Reykjavík. Kvöldið var liður í samstarfsverkefni Viðskiptaráðs og Klak-Innovit, Ný-sköpun-Ný-tengsl, sem hófst árið 2009. Þar hittu reynslumiklir stjórnendur áhugasama frumkvöðla sem eru að stíga sín fyrstu skref í atvinnurekstri. Mikil ánægja var með kvöldverðinn, en m.a. var boðið upp á gómsætan karfa sem er veiddur og vélflakaður af HB Granda.
Kvöldverðinn í gær sóttu fulltrúar frá eftirfarandi sprotafyrirtækjum: Intraz, geoSilica, Leda, Sport Hero, Karolina Fund, Betri svefn, Eski Tech, Mariconnect, SARdrones og True West. Þetta er í sjötta skiptið sem kvöldverður líkt og þessi er haldinn en á þeim hafa skapast mikilvæg tengsl á milli „mentora“ og sprota. Eins og heyra mátti á umræðum meðal gesta í gær er þetta kjörin vettvangur til að leita í reynslubanka þeirra sem hafa langa reynslu úr viðskiptalífinu.
Markmið verkefnisins hefur frá upphafi verið að skapa farveg fyrir félaga Viðskiptaráðs til að leggja sitt á vogarskálarnar í uppbyggingu atvinnulífsins. Með þessu nýtist reynsla fyrri kynslóða í atvinnulífi þeim síðari, bæði fyrirtækjum og samfélagi til hagsbóta. Viðskiptaráð þakkar sérstaklega þeim félögum sem studdu við verkefnið og tóku þátt sem „mentorar“ að þessu sinni.
Hér að neðan má nálgast myndir frá kvöldverðinum í flickr myndasafni Viðskiptaráðs:
Tengt efni: