Viðskiptaráð Íslands

Engar hömlur á fjárfestingum í Svíþjóð

Kai Hammerich forstjóri Invest in Sweden bendir á að það er einkum tvennt sem er nauðsynlegt til að laða að erlenda fjárfestingu; alþjóðlegir skólar og traustar samgöngur til og frá landinu.

Erlendar fjárfestingar og markaðssetning landa fyrir erlendar fjárfestingar voru til umræðu á morgunverðarfundi Sænsk-íslenska verslunarráðsins 3. október sl. Gestur fundarins var Kai Hammerich forstjóri Invest in Sweden Agency. Hann starfaði á árunum 1980-1995 hjá Saab-Scania AB og var þar aðstoðarframkvæmdastjóri frá 1987. Þar áður starfaði Kai Hammerich hjá Evrópuráðinu í Strassborg og var þar yfirmaður upplýsinga- og fjölmiðladeildar. Kai Hammerich situr í stjórnum ýmissa fyrirtækja og nefnda í Svíþjóð.

Á fundinum kom fram að beinar erlendar fjárfestingar í Svíþjóð hafa aukist gífurlega frá árinu 1990 og teljast þær nú jafn miklar og öll hin Norðurlöndin og Eystrasaltsríkin njóta nú til samans. Þá hefur samsetning (eðli) þessara fjárfestinga breyst verulega og er nú svo komið að 2/3 eru í formi samruna og yfirtöku. Kai Hammerich sagði að með inngöngu Svíþjóðar í ESB hafi orðið ýmsar umbætur í t.d. skattamálum og hömlur á fjárfestingum útlendinga verið afnumdar þ.m.t. einnig þær hömlur á verið hafa á fjárfestingum á sviði varnarmála. Í dag eru því engar hömlur á möguleikum útlendinga til fjárfestinga í Svíþjóð.

Kai Hammerich sagði nokkuð jafnvægi ríkja á milli erlendra fjárfestinga í Svíþjóð og sænskra fjárfestinga erlendis.

Fram kom í máli Kais Hammerichs að sérstaklega hafi verið búið í haginn fyrir erlenda sérfræðinga í Svíþjóð. Það hefði verið nauðsynlegt til að laða að erlenda fjárfestingu. Frá því í janúar 2001 hefði því erlendum sérfræðingum verið veitt skattaívilnun með þeim rökum að þeir kæmu til starfa í Svíþjóð einungis tímabundið og sæktu almennt ekki í sænskt félagsmálakerfi. Tvennt sagði Kai Hammerich vera grundvöll fyrir erlendri fjárfestingu, í hvaða landi sem er; alþjóðlegir barna- og unglingaskólar og traustar flugsamgöngur. Án þessara atriði tækist trautt að laða að þá erlendu sérfræðiþekkingu sem er forsenda erlendra fjárfestinga.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024