Á árunum 2000-2002 fjölgaði starfandi fólki á Íslandi um 1000, eða úr 155800 í 156800. Á sama tíma fjölgaði opinberum starfsmönnum um 1300. Aukningin er því öll hjá hinu opinbera og í raun varð fækkun á einkamarkaði. Íslendingum fjölgar um 5100 á þessu tímabili sem þýðir að nú eru fjórir "nýjir" Íslendingar að baki hverjum nýjum opinberum starfsmanni sé horft til áranna 2000-2002.
Eins og fram hefur komið hafa laun hjá hinu opinbera hækkað tölvuvert umfram laun á almenna markaðnum á síðustu árum. Eins og að framan greinir er sömu sögu að segja um fjölgun starfsmanna hjá hinu opinbera.
Ársverkum (stöðugildum) hjá hinu opinbera fjölgaði umtalsvert á tveggja ára tímabili á árunum 2000-2002. Mest aukning er í stöðugildum hjá sveitarfélögum en þar fjölgar um rúmlega 900 stöðugildi á þessu tveggja ára tímabili. Hjá ríkinu eykst fjöldi ársverka um 400 á þessu tímabili.
Aukningin í starfsmannafjölda hjá sveitarfélögum er m.a. komin til vegna aukinna krafna og lagasetninga er snerta sveitarfélagareksturinn. Hættan við flutning verkefna frá ríki til sveitarfélaga er sú að sambandsleysi verði milli þeirra sem taka ákvarðanir um ný útgjöld og þeirra sem þurfa að standa straum af kostnaðinum. Sambandsleysið þýðir að Alþingi verður enn áfjáðara um að setja fram kröfur um aukna þjónustu þar sem ríkið þarf ekki að borga brúsann. Sveitarfélögin þurfa síðan að uppfylla og fjármagna nýja þjónustu án þess þó að svigrúm þeirra sé mikið í þeim efnum. Að einhverju leyti má kenna sveitarfélögum hér um þar sem þau eiga að meta kostnað af frumvörpum og eiga því sjálf að grípa inn í þegar ljóst er hvert stefnir í nýjum útgjöldum.
Útgjöld hins opinbera sem hlutfall af vergri landsframleiðslu voru undir 30% um 1970 og yfir 40% um miðjan níunda áratuginn. Í byrjun tíunda áratugarins lækkuðu opinber útgjöld sem hlutfall af vergri landsframleiðslu niður fyrir 40% og árið 1997 voru þau 37%. Síðan hafa þau stigið að nýju og eru nú um 42% af vergri landsframleiðslu.
Aðhaldsleysi í opinbera geiranum nú kemur okkur í koll síðar.
Þór Sigfússon