Rætt var m.a. um viðskiptaengla á fundi sem Breska sendiráðið stóð fyrir 23. október í samráði við VÍ, BRÍS og Háskólann í Reykjavík. Fram kom á fundinum að árið 2003 er gert ráð fyrir að 830 milljónum punda verði varið í áhættuverkefni (venture capital) í Bretlandi en þessi upphæð var tæplega 5 sinnum hærri þegar fjármagn flæddi í þessi verkefni fyrir nokkrum árum síðan. Þá hafa upphæðir í flestum verkefnum lækkað verulega og eru nú um 5 milljónir punda lagðar að meðaltali á hvert verkefni. Séu þessar tölur bornar saman við hina frægu höfðatölu á Íslandi væri eitt áhættuverkefni fjármagnað á þessu ári sem næmi um hálfum milljarði króna.
Í máli Russells Smiths prófessors við Oxford háskóla kom fram að eitt mikilvægasta atriðið í sambandi við árangur áhættuverkefna er að þar mætist heimsklassa rannsóknaraðilar og heimsklassa stjórnendur. Paddy MccGwire frá Cobalt Invest benti á að áhættufjárfestar vildu helst fjárfesta í nágrenni við sig og nefndi m.a. að helst þyrfti það að vera ekki meira en sem nemur klukkustundarferð í bifreið! Þarna fer að koma skýringin á því hversu illa hefur gengið að fá erlenda fjárfesta í lítil áhættuverkefni á Íslandi.