Um 80 manns mættu á morgunverðarfund Viðskiptaráðs og Háskólans í Reykjavík um þróun íslensks fjármálamarkaðar sem haldinn var nú í morgun. Á fundinum Kynnti dr. Friðrik Már Baldursson nýja skýrslu Viðskiptaráðs Íslands um stöðu og og framþróun fjármálakerfis Íslands. Skýrslan ber nafnið The Internationalisation of Icelands Financial Sector eða Alþjóðavæðing íslenska fjármálakerfisins og er rituð af þeim dr. Richard Portes prófessor við London Business School og dr. Friðriki Má Baldurssyni prófessor við Háskólann í Reykjavík í samstarfi við Frosta Ólafsson hagfræðing Viðskiptaráðs.
Í kjölfar kynningar Friðriks hélt Jónas Fr. Jónasson erindi um ímyndarkreppur og mikilvægi upplýsingagjafar á fjármálamörkuðum. Að lokum sátu framsögumenn fyrir svörum í pallborði ásamt Þórði Friðjónssyni, forstjóra Kauphallar Íslands OMX, og Frosta Ólafssyni, hagfræðingi Viðskiptaráðs og meðhöfundi skýrslunnar.
Í erindi Friðriks kom fram að niðurstöður skýrlunnar gefi til kynna að íslensk fjármálafyrirtæki hafi brugðist einstaklega vel við þeim hræringum sem áttu sér stað á vormánuðum 2006. Frá þeim tíma hafa flestir þeir þættir sem sættu gagnrýni verið bættir til muna og staða bankanna því mun sterkari í yfirstandandi lausafjárþurrð. Þrátt fyrir þetta bera íslenskir bankar áhættuálag í fjármögnun sinni sem virðist því fremur hafa með þjóðerni þeirra að gera en styrkleika og rekstrarhorfur.
Með þetta í huga voru áhrif efnahagslegs ójafnvægis á íslensk fjármálafyrirtæki könnuð, þá sérstaklega hár viðskiptahalli og erlend skuldastaða. Þrátt fyrir að viðkomandi hagvísar gefi fulla ástæðu til að vera á verði gagnvart samkeppnishæfni hagkerfisins virðist fjármálakerfið vel í stakk búið til að mæta ytri áföllum í íslensku hagkerfi. Þar vegur þungt sú dreifing áhættu sem alþjóðavæðing þess hefur haft í för með sér og ennfremur hafa stærstu markaðsaðilarnir varið sig gagnvart flestum veigamestu áhrifaþáttum íslenks hagkerfis.
Jónas Fr. Jónsson, forstjóri Fjármálaeftirlitsins, skýrði m.a. frá þeim þáttum sem geta valdið orðsporskrísu hjá fjármálafyrirtækjum. Tók hann undir niðurstöður skýrsluhöfunda um að íslensku bankarnir hafi brugðist vel við þeirri gagnrýni sem á þá var borin vorið 2006 en taldi að sama skapi svigrúm til enn frekari framfara. Þá sagði Jónas það ljóst að viðskiptamódel íslensku bankanna væri frábrugðið öðrum bönkum, en engu að síður væri afkoma af kjarnastarfsemi þeirra vel viðunandi. Áhættusamari starfsemi rekstursins væri því hrein viðbót við kjarnastarfsemina og henni væri mætt með rýmri eiginfjárhlutföllum.
Kynningu Friðriks Más má nálgast hér.
Skýrsluna má nálgast hér.
Glærur Jónasar má nálgast hér og ræðuna hér.
Undanfarin misseri hefur Viðskiptaráð tekið mikilvægt frumkvæði í umræðu um íslenskt fjármála- og efnahagslíf. Upphaf þeirrar vinnu má rekja til útgáfu skýrslunnar Financial Stability in Iceland eftir Frederic Mishkin og Tryggva Þór Herbertsson vorið 2006. Skýrslan markaði þáttaskil í erfiðri umræðu um íslenskt efnhahagslíf á alþjóðlegum vettvangi. Síðan þá hefur mikil vinna verið lögð í að útbúa aðgengilegar upplýsingar og miðla þeim til erlendra aðila sem áhuga hafa á íslensku viðskipta- og fjármálalífi. Útgáfa The Internationalisation of Icelands Financial Sector er liður í þessu starfi.