Viðskiptaráð Íslands

Af skattþegnum, ráðgjöfum og embættismönnum - Jón Elvar Guðmundsson lögmaður skrifar

 

Forvitnileg grein birtist í Tíund, fréttablaði RSK, í desember útgáfu þess 2003 undir heitinu Leiðari – Ný viðhorf.  Þar gerir ríkisskattstjóri að umræðuefni fregnir úr viðskiptalífinu, meinta græðgi og að hans mati óeðlilega eða ósiðlega hegðan skattþegna.

Þá tekur embættismaðurinn fram að sér til fulltingis hafi hinir siðlausu, gráðugu skattþegnar fengið ráðgjafa til aðstoðar við að útfæra þetta sama siðleysi og græðgi.  Orðrétt segir í grein embættismannsinns:

 

Afleiðingar þessara viðhorfa gera vart við sig í skattframkvæmd m.a. í því að stórfelldum skattasniðgöngumálum fjölgar og gerast þau æ úthugsaðri enda kemur oftast í ljós að gerendurnir hafi notið ráðgjafar og aðstoðar sérfræðinga sem notið hafa bestu menntunar til að ráða mönnum heilt og tryggja að rétt sé að verkum staðið.  Ráðgjafafyrirtæki og fjármálastofnanir keppast um að falbjóða aðstoð við gjörninga sem þeim sem öðrum má vera ljóst að ekki eru til annars gjörðir en að komast hjá eðlilegum skattgreiðslum.  Ríkulegar þóknanir fyrir aðstoðina réttlæta þetta trúlega í þeirra augum.

 

Þessu fylgir hinn góði embættismaður eftir með því að kasta fram vísu þar sem ráðgjafarnir eru settir á bekk við hlið glæpamönnum og líkt við aðila sem ganga ekki glæpaveginn heldur götuna meðfram honum. 

 

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem embættismaðurinn tjáir sig með þessum hætti.  í nóvember útgáfu Tíundar frá 2001 segir hann í m.a. í greininni “Skatteftirlit við breyttar aðstæður”

 

Afstaða fagmanna, fyrirtækja og stofnana sem starfa á vettvangi skattamála eða falbjóða þjónustu og ráðgjöf í þeim efnum, skiptir miklu.  Ekki er vafi á að þarna hefur orðið breyting á starfsháttum á síðustu árum sem ekki getur talist til bóta fyrir skattframkvæmd.  Þótt í þessum hópi hafi ætið verið misjafn sauðurinn mátti yfirleitt treysta því leikreglur skattalaganna væru virtar.  Sú breyting virðist hafa orðið að nú þyki það næsta sjálfsagt að veita ráðgjöf sem beinlínis mið að því að komist verði hjá eðlilegri skattlagningu.  Þess eru dæmi að ráðgjafafyrirtæki og stofnanir sérhæfi sig í að ráðleggja mönnum hvernig þeir eigi að vista fé sitt með þeim hætti að það sé utan seilingar skattyfirvalda.

 

Ekki verður annað séð af orðræðu embættismannsins að honum þyki ekki mikið til títtnefndra ráðgjafa koma.  Það skal tekið fram að hóp þessara ráðgjafa fyllir að mestu endurskoðendur og firmu þeirra, sem og nokkrir  lögmenn og firmu þeirra sem hafa sérhæft sig í skattarétti, en undirritaður fellur í hóp þeirra síðarnefndu.

 

Nú ætti það að vera nokkuð ljóst að staða embættismannsins sem einn af æðstu mönnum skattkerfisins, kerfisins sem allir landsmenn greiða á einn eða annan hátt til, er vandmeðfarin og brýnt að þar sé á réttan, sanngjarnan og umfram allt löglegan hátt staðið að málum.  Það er nú einu sinni svo að ein helgasta grundvallarregla okkar réttarkerfis er friðhelgi eignaréttarins.  Frá henni eru þó nokkur frávik, m.a. þau sem réttlætt eru með tilliti til sameiginlegrar skyldu þegnanna gagnvart þjóðfélaginu.  Slíkum frávikum er fullnægt með innheimtu skatta.  Stífar reglur eru settar um það í stjórnarskrá okkar að skattar verði aðeins innheimtir í krafti laga, samþykktum af alþingi, auk þess sem sérstaklega er kveðið á um friðhelgi eignaréttarins.

 

Á það má fallast með embættismanninum að þegnar landsins hafi farið að huga frekar að skattgreiðslum sínum á síðustu árum, jafnframt hefur ráðgjöf og réttargæsla að því er skattamál varðar aukist sem hluti af starfsemi endurskoðenda og lögmanna.  Sú afstaða embættismannsins að skipa slíkum aðilum á svipaðan bekk og glæpamönnum verður hins vegar í besta falli að teljast fráleit.  Þvert á móti hlýtur það að teljast til bóta að skattkerfið og embættismenn, eins þenkjandi og sá sem hér er vikið að, njóti aðhalds frá skattþegnunum.   Nú er það einu sinni svo að einn stærsti kostnaðarliðurinn, bæði hjá einstaklingum og hjá fyrirtækjum, er skattkostnaður þeirra.  Í ljósi þessa verður að teljast afar mikilvægt að þegnarnir geti gætt réttar síns eins og kostur er.  Hvernig má það því vera að einn af æðstu embættismönnum skattkerfisins sé komin á svo miklar villigötur að hann úthúði ónafngreindum ráðgjöfum opinberlega án nokkurra raka.  Fáir ættu að gera sér betri grein fyrir því hve flókið skattkerfið er og óaðgengilegt þeim sem ekki njóta aðstoðar sérfræðinga, fáum ætti að vera eins brýnt að gera sér grein fyrir skyldum sínum gagnvart almenningi, þ.e. þeim skyldum að afgreiða mál þeirra á réttan og málefnalegan hátt. 

 

Hér verður það fullyrt að afstaða embættismannsins stefnir trúverðugleika embættis hans í hættu þar sem ekki verður annað lesið úr þeim en að sjálfkrafa geti vaknað grunsemdir um að þeir sem njóta skattaráðgjafar og hagsmunagæslu sérfræðinga verði stimplaðir á þann hátt að þeir séu að reyna að komast hjá “eðlilegri skattlagningu”.

 

Áhugavert í því sambandi er að embættismaðurinn minnist hvergi á löglega og rétta skattlagningu.  Erfitt er að fullyrða hvað hann telur eðlilega skattlagningu.  Þannig verður undirritaður að játa að hann mundi hiklaust ráðleggja umbjóðendum sínum að telja fram og greiða skatta í fullu samræmi við sett lög og reglur.  Undirritaður mundi hins vegar ekki ráðleggja umbjóðendum sínum að greiða eins mikla skatta og þeir gætu innan marka laganna, það væri gróft brot gegnum siðareglum lögmanna að gæta hagsmuna umbjóðenda sinna ekki eins og frekast er unnt.  Embættismaðurinn telur kannski siðareglur lögmannastéttarinnar heyra undir siðleysi?  Gott er að taka dæmi til skýringar.  Ef aldraður umbjóðandi undirritaðs hefði hug á því að arfleifa ættingja sína fyrirfram að þeim eignum sem honum hefði áunnist um æfina áður en hann létist þá mundi undirritaður hiklaust ráðleggja þeim hinum sama að bíða með þá ráðstöfun til fyrsta júlí 2004 enda hefur verið lagt fram frumvarp á Alþingi sem gerir ráð fyrir þó nokkuð lægra skatthlutfalli á arfgreiðsluna eftir það tímamark.  Ef farið yrði að ráðgjöfinni yrði niðurstaðan væntanlega sú að verulega lægri skattur yrði greiddur í ríkissjóð en ella, því næði embættismaðurinn ekki fram hinni eðlilegu skattlagningu heldur væri féið utan seilingar skattyfirvalda þar til það kæmi til skattlagningar samkvæmt hinu lægra skatthlutfalli.  Annað dæmi er hægt að taka af rekstraraðila.  Viðskipti með fisk er eitt þeirra rekstrarsviða sem Íslendingar hafa náð góðum árangri í.  Ef umbjóðandi undirritaðs hygðist stunda atvinnustarfsemi þannig að fiskur væri keyptur af erlendum aðilum og seldur öðrum erlendum aðilum mundi undirritaður hiklaust ráðleggja viðkomandi að stunda rekstur sinn ekki í hefðbundnu hlutafélagi sem greiddi 18% skatt af hagnaði sínum.  Mun hagstæðara væri fyrir viðkomandi að stofna s.k. alþjóðlegt viðskiptafélag hið fyrsta, enda verður ekki möguleiki til þess eftir 1. mars 2004 samkvæmt nýlega samþykktum lögum frá Alþingi.  Þannig félag greiddi 5% skatt af hagnaði rekstursins, væntanlega með þeim árangri að það yrði samkeppnishæfara á hinum alþjóðlega markaði, gæti greitt hærri laun, o.s.frv.  Til að kóróna það sem svo fjálglega er lýst af embættismanninum verslar undirritaður nær undantekningalaust í lágvöruverðsverslunum með þeim afleiðingum að lægri virðisaukaskattur er greiddur en mögulegt er.

Dæmi nú hver fyrir sig um hve siðleg ráðgjöf og hegðan undirritaðs er.  Það er hins vegar þannig að fjölmargar og flóknar reglur gilda um skattskil einstaklinga og lögaðila.  Hvort sem um er að ræða fullorðið fólk sem greitt hefur skatta og skyldur af launum sínum alla ævi, eða rekstraraðila sem reynir að reka félag sitt á sem hagkvæmastan hátt, þá er ekki hægt að áfellast slíka aðila fyrir það eitt að hagræði þeirra stangist á við hugmyndir embættismannsins um “eðlilegar skattgreiðslur” og siðferði.

 

Að mati undirritaðs ber að fagna því að skattþegnar landsins hafi möguleika á því að haga sér með mismunandi hætti eftir mismunandi aðstæðum, með mismunandi niðurstöðu.  Það ber vott um að við lifum í frjálsu samfélagi, lausu undan oki embættismanna sem annarra.

 

Það ber hins vegar að leggja áherslu á það að virða leikreglurnar sem settar eru í samfélaginu, að öðrum kosti er stutt í að komið sé í óefni.  Árhundruða reynsla hefur hins vegar sýnt það að ef einungis sá er valdið hefur þekkir reglurnar, beitir þeim og notar þá er stutt í að brotið sé gegn rétti þegnanna.  Það getur verið að embættismaðurinn aðhyllist einhvers konar aðhaldslaust einræði embættis síns í skattamálum, það ætti þó að vera hverjum ljóst að slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. 

 

Áhugavert dæmi um beitingu valds siðprúða embættismannsins má t.am. finna í úrskurði yfirskattanefndar nr. 170/2000 þar sem yfirskattanefnd taldi að ríkisskattsjóri hefði brotið jafnræðisreglu 11. greinar stjórnsýslulaga, með úrskurði sínum frá árinu 1999, með því að synja íslenska félaginu um sams konar bindandi álit og veitt höfðu verið af embættinu á árinu 1998 í sams konar málum.  Í kjölfarið fylgdi lagabreyting þar sem heimild embættisins til útgáfu bindandi álita í tvísköttunarmálum var afnumin og færð frá embættinu til fjármálaráðuneytis, sbr. lög nr. 86/2000. Þá er skemmst að minnast tilraunar embættisins til þess að hækka skattstofna einhliða með breyttu skattmati árið 2002.  Lofsvert er að í kjölfarið voru samþykkt lög nr. 152/2002 þar sem verkefnið var fært frá embættinu til fjármálaráðuneytis. 

 

Það er nefnilega þannig að sömu leikreglur gilda um embættismanninn og skattþegninn.

 

Jón Elvar Guðmundsson, lögmaður hjá Taxis Lögmönnum sem sérhæfa sig í ráðgjöf og réttargæslu í skattamálum.

 

 

Grein þessi er á ábyrgð höfundar og þarf ekki að endurspegla viðhorf VÍ

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024