Einn angi af alþjóðavæðingu íslenskrar útrásarstarfsemi er mikil umfjöllun um íslensk fyrirtæki í erlendum fjölmiðlum. Ekki er langt síðan að það taldist til tíðinda hérlendis ef Ísland eða íslensk fyrirtæki voru nefnd í erlendum viðskiptatímaritum. Nú er slík umfjöllun orðið daglegt brauð.
Á undanförnum misserum hefur umfjöllun um íslensk fyrirtæki í erlendum fjölmiðlum aukist umtalsvert. Í lauslegri athugun á vegum Verslunarráðs kemur til dæmis í ljós að Baugur Group hefur verið nefnt 339 sinnum í breska viðskiptadagblaðinu The Financial Times á síðustu 12 mánuðum. Þetta er án efa Íslandsmet. Þá hefur Pharmacos verið getið 11 sinnum í danska viðskiptablaðinu Borsen á síðustu tólf mánuðum og Baugur tvívegis. Þá var Kaupþing nefnt 85 sinnum í sænska viðskiptablaðinu Dagens Industri.
Ekki má gleyma umfjöllun um DeCode Genetics sem hefur verið umtalsverð í dagblöðum á borð við Wall Street Journal í Bandaríkjunum. Það er einnig einsdæmi fyrir íslenskt fyrirtæki að jafn mikil umfjöllun hafi átt sér stað í alþjóðlegum vísindatímaritum eins og orðið hefur um rannsóknir og uppgötvanir DeCode.
Árið 2002 var umfjöllun um útrás Kaupþings til Svíþjóðar og Baugs til Englands fremur neikvæð í dagblöðum þessara landa. Sömu sögu var að segja um umfjöllun erlendra dagblaða um DeCode Genetics á þessu tímabili. Benda má á að það er ekki einsdæmi að fyrirtæki frá litlum löndum búi við vissa fordóma eins og segja má að hafi komið fram í umfjöllun erlendra dagblaða frá þessum tíma. Finnar áttu við sams konar vanda að stríða í útrás sinni í lok níunda og byrjun tíunda áratugarins. Nú hefur umfjöllunin breyst mikið og í stað fyrirsagna eins og "Siggy Stardust" í sænsku blöðunum sem átti að vísa í Sigurð Einarsson forstjóra Kaupþings eru fyrirsagnir sænsku blaðanna "Kaupthing gor vinst í Sverige".
Umfjöllun um íslensk fyrirtæki í erlendum fjölmiðlum er mikil landkynning. Að sumu leyti má án efa fullyrða að útrásarfyrirtækin hafi smám saman verið að læra á erlendu pressuna en þýðingarmest er án efa sú staðreynd að fyrirtækjunum hefur vegnað vel erlendis. Hin kraftmikla Íslandsvél hefur sýnt hvers hún er megnug í útrás til annarra landa. Eðlilegt er að skoða þau tækfæri sem þessi aukna umfjöllun erlendra fjölmiðla um "litlu risana" skapar fyrir íslenskt viðskiptalíf. Íslenskt viðskiptalíf er að minnsta kosti komið á blað í erlendum viðskiptatímaritum og -dagblöðum.
Verslunarráð Íslands mun á næstu mánuðum í samráði við hin ýmsu millilandaráð og aðrar þær stofnanir sem fjalla um þessi mál hérlendis skoða hvernig megi nýta þessi auknu tækifæri til að stuðla að meiri áhuga erlendra fjárfesta og fyrirtækja á því að vinna með íslenskum fyrirtækjum eða fjárfesta í þeim. Ýmis millilandaráð eins og Bresk-íslenska verslunarráðið, Dansk-íslenska verslunarráðið og Þýsk-íslenska verslunarráðið hafa staðið markvissum og árangursríkum fjárfestatengslum. Sem dæmi um árangur þeirrar vinnu er m.a. heimsókn Flemings Skov Jensens yfirmanns Lonnmodtagerens Dyrtidsfond sem er einn stærsti lífeyrissjóður Danmerkur. Jensen kemur hér í boði Dansk íslenska verslunarráðsins seinnipart apríl mánaðar. Öflugir norrænir sjóðir hafa lítið fjárfest á Íslandi en á því kann að verða breyting.
Íslensk fyrirtæki geta orðið áhugaverður fjárfestingarkostur fyrir erlenda fjárfesta og orðið þekkt fyrir það að vera kraftmikil fyrirtæki með engilsaxnesk gróðasjónarmið og norrænan áreiðanleika.
Þór Sigfússon