Viðskiptaráð Íslands

Nýr háskóli styrkir íslenskt atvinnulíf

Ástæða er til að fagna væntanlegri sameiningu Háskólans í Reykjavík (HR) og Tækniháskóla Íslands (THÍ). Með sameiningunni verður til næststærsti háskóli landsins. Námsframboð mun aukast því auk þess að bjóða upp á allt það nám sem nú hefur verið kennt í skólunum er stefnt að því að bjóða upp á MS-nám í verkfræði og meistaragráðu í kennslufræðum. Jafnframt verður boðið upp á sérhæft undirbúningsnám, diplóma- og viðbótarnám eftir aðstæðum. Með tímanum er ekki ólíklegt að ætla að frekara framhaldsnám verði í boði hjá hinum nýja skóla. Loks verður áfram unnið að eflingu símenntunar í samvinnu við ýmsa aðila. Allt þetta gerir það að verkum að skólinn mun leiða til mikillar þróunar í menntamálum og styrkja samkeppnisstöðu íslensks atvinnulífs til mikilla muna. Slík markmið eru eftirsóknarverð.

Kostir hins nýja skóla eru ótvíræðir. Eftirspurn eftir tækninámi hefur aukist mikið á síðustu árum og hefur þurft að vísa mörgum frá sem sótt hafa um skólavist í THÍ. Með sameiningu skólanna felst mikið tækifæri til þess að efla tækni- og verkfræðimenntun hér á landi. Hér á landi hafa hlutfallslega færri stundað nám í verkfræði en í þeim ríkjum sem almennt eru höfð til viðmiðunar í slíkum samanburði. Með því að bjóða upp á nám í verkfræði í skóla þar sem mikil áhersla er lögð á gæði menntunar og öll aðstaða er til fyrirmyndar tekst vonandi að auka áhuga ungs fólks á verkfræði. Aukin samkeppni um nemendur mun án efa hafa jákvæð áhrif á verkfræðideild og aðrar deildir Háskóla Íslands. Við sameiningu viðskiptafræðideilda HR og THÍ opnast tækifæri til hagræðingar og hægt verður að bjóða upp á enn öflugri kennslu.

Sterk tengsl við atvinnulífið

Hinn nýi skóli verður vel tengdur við íslenskt atvinnulíf. Stofnað verður einkahlutafélag sem tekur yfir starfsemi beggja skólanna. Hluthafar í einkahlutafélaginu verða Verslunarráð Íslands, Samtök atvinnulífsins og Samtök iðnaðarins. Einstaklingar með fjölbreyttan bakgrunn hafa verið skipaðir í stjórn einkahlutafélagsins og munu jafnframt gegna hlutverki háskólaráðs. Það eru þau Sverrir Sverrisson framkvæmdastjóri hjá Ráðgjöf og efnahagsspá hf. formaður, Ásdís Halla Bragadóttir bæjarstjóri í Garðabæ,

Elfar Aðalsteinsson stjórnarformaður sjávarútvegsfyrirtækisins Eskju hf., Finnur Geirsson forstjóri Nóa Sírius hf., Jón Sigurðsson forstjóri Össurar hf., Jón Ágúst Þorsteinsson framkvæmdastjóri Marorku ehf. og Katrín Pétursdóttir forstjóri Lýsi hf. Í varastjórn eru Guðný Káradóttir framkvæmdastjóri Gagarín ehf., Kristín S. Hjálmtýsdóttir framkvæmdastjóri Þýsk íslenska verslunarráðsins og Sjöfn Sigurgísladóttir forstöðumaður Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins.

Með sterkum tengslum við atvinnulífið, mun háskólinn efla rannsóknar- og þróunarstarf sitt með stuðningi frá fyrirtækjum, samtökum atvinnurekanda, samkeppnissjóðum innanlands og erlendis og í samstarfi við rannsóknar- og fræðslustofnanir. Skólinn mun einnig fá frá ríkinu rannsóknarfé sem fer stighækkandi til ársins 2009 en er háð þeim fyrirvörum sem settir verða í kennslu- og rannsóknarsamningi og almennum kröfum um árangur rannsóknarstarfseminnar.

Framlög ríkis og skólagjöld

Skólinn mun innheimta skólagjöld en núverandi nemendur í THÍ þurfa ekki að greiða hærri gjöld en krafist er af þeim. Ríkið mun greiða með hverjum nemenda samkvæmt reiknilíkani sem notað er til viðmiðunar fyrir alla háskóla.

Samkeppni í menntamálum á Íslandi

Samkeppni á háskólastigi hefur aukist og það er ánægjulegt. Atvinnulíf og góð lífskjör hér á landi eiga allt undir því að menntun sé á við það sem best gerist. Samkeppni gerir það að verkum að gerðar eru ríkari kröfur, gæðin aukast og menntun þjóðarinnar eykst. Mikið hefur verið um það að fólk fari erlendis til að stunda nám við hæfi. Möguleikar Íslendinga til að velja sér spennandi nám við öflugan skóla hér á landi aukast mikið með hinum nýja sameinaða skóla. Því ber að fagna.

Sigþrúður Ármann, lögfræðingur.

Tengt efni

Björn og Andri í stjórn og háskólaráð HR

Fyrsti fundur nýrrar stjórnar Háskólans í Reykjavík fór fram föstudaginn 6. …
13. september 2024

Átján fyrirmyndarfyrirtæki í stjórnarháttum hljóta viðurkenningu

Átján fyrirtæki hlutu viðurkenningu fyrir góða stjórnarhætti og um leið …
26. ágúst 2024

Sumaropnun og nýjar verðskrár

Opnunartími skrifstofu Viðskiptaráðs verður styttri frá 22. júlí til 5. ágúst, …
12. júlí 2024