Viðskiptaráð Íslands

79% fylgjandi samræmdum prófum

Vegna ummæla forstjóra Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu (MMS) um að „fámennum hópi standi stuggur að þeim breytingum sem hafa verið boðaðar“ á námsmati í grunnskólum vill Viðskiptaráð koma eftirfarandi á framfæri.

Mikill meirihluti almennings er fylgjandi samræmdu námsmati við lok grunnskólagöngu. Þetta er niðurstaða könnunar sem Viðskiptaráð framkvæmdi í aðdraganda nýafstaðinna alþingiskosninga. Yfir 10.000 svör bárust og af 60 málum sem spurt var um var fjórði mesti stuðningurinn við samræmt námsmat við lok grunnskólagöngu. Þannig voru 79% svarenda fylgjandi á meðan einungis 12% voru andvíg. Séu einungis bornir saman þeir sem tóku afstöðu nemur stuðningurinn 86%.

Í stjórnarfrumvarpi um námsmat sem nú liggur fyrir Alþingi er ekki að finna ákvæði um samræmd próf við lok grunnskólagöngu. Þess í stað á áfram að notast við skólaeinkunnir sem lokamat grunnskóla. Það skýtur skökku við því samkvæmt rannsókn Menntamálastofnunar, forvera Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu, eru skólaeinkunnir ósamanburðarhæfar á milli skóla. [1] Fyrir vikið er nemendum ekki tryggt jafnræði óháð búsetu þegar kemur að menntun á grunnskólastigi eða framhaldsskólavist.

Það er von Viðskiptaráðs að stjórnvöld rétti kúrsinn og komi á samræmdu námsmati við lok grunnskólagöngu hið fyrsta. Sú breyting myndi tryggja börnum jafnræði og skapa á sama tíma forsendur til að bæta árangur af skólastarfi á ný.

Tilvísanir

[1] Nánari umfjöllun um rannsóknina má finna í umsögn Viðskiptaráðs um málið (mars 2025): „Enn skortir samræmt námsmat við lok grunnskóla“. Slóð: https://vi.is/umsagnir/namsmat-3

Tengt efni

Grunnskólamál: hvað segja tölurnar?

Grunnskólakennurum hefur fjölgað hraðar en nemendum undanfarin ár. Þá er …
21. október 2024

Hvað er í fjárlagapakkanum?

Fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram á dögunum. Samkvæmt því verða útgjöld …
27. september 2024

Meiriháttar munur á færni eftir grunnskóla

Meiriháttar munur var á færni barna eftir grunnskóla árið 2012. Þetta sýna …
13. ágúst 2024